Þetta eru hindranirnar á norrænum vinnumarkaði

22.06.23 | Fréttir
Street work next to Hertig Johans torg, Skövde, Sweden.
Photographer
Jeppe Gustafsson/Shutterstock/Ritzau Scanpix
Í nýju rannsóknarverkefni er tekin upp ný nálgun á það hvernig hjálpa skuli viðkvæmum hópum að komast inn á vinnumarkaðinn. Í stað þess að einblína á fólkið og ábyrgð hvers og eins vilja rannsakendur líta til þeirra hindrana sem fólk mætir.

Fjórir þjóðfélagshópar eiga oft erfitt með að fá vinnu eða halda henni. Ungt fólk, eldra fólk, innflytjendur og fólk með skerta starfsgetu. Þótt um sérstakar ástæður geti verið að ræða í hverju sinni fyrir því að fólk kemst ekki inn á vinnumarkaðinn eru einnig til staðar hindranir sem fólk getur sjálft ekki haft áhrif á.

Efnahagsástandið getur til dæmis verið í niðursveiflu einmitt þegar viðkomandi er á leið út á vinnumarkaðinn. Það hefur reynst geta haft áhrif á tækifæri fólks til að fá vinnu, jafnvel mörgum árum eftir að efnahagurinn hefur sveiflast upp á ný.

24 hindranir

Rannsakendurnir fóru yfir 80 norrænar rannsóknarskýrslur og fundu 24 mismunandi hindranir sem þeir skiptu svo í fjóra flokka:

  • Hindranir hjá einstaklingum, svo sem takmörkuð tungumálakunnátta

  • Hindranir sem tengjast vinnumarkaði og atvinnurekendum

  • Hindranir sem tengjast stjórnsýslu

  • Hindranir sem tengjast efnahagslegum hvata

Oftast stendur fólk í viðkvæmum hópum frammi fyrir fleiri en einu vandamáli. Innflytjendur kunna t.d. að eiga erfitt uppdráttar vegna tungumálaörðugleika en þeir geta einnig glímt við sálfélagslegan vanda eða verið með menntun sem ekki er þörf fyrir á vinnumarkaðnum eða yfirvöld viðurkenna ekki.

Af þeim 24 hindrunum sem greindar hafa verið eiga nokkrar aðeins við um einn af flokkunum fjórum. Tólf af hindrununum eiga við um tvo eða fleiri flokka. Barnagæsla er nokkuð sem bæði innflytjendur og ungt fólk getur þurft að leysa en er sjaldan vandamál hjá eldra fólki. Að maki fari á eftirlaun og hætti að vinna er hins vegar aðeins hindrun fyrir eldra fólk.

Ný nálgun á atvinnuleysi

„Að því er við best vitum hafa hindranir á vinnumarkaði aldrei verið skoðaðar í svona víðu samhengi á Norðurlöndum,“ segir Vibeke Jakobsen sem er sérfræðingur hjá Vive og verkefnisstjóri yfir hluta rannsóknarverkefnisins.

Rannsakendur sóttu innblástur til svipaðra rannsókna innan OECD, meðal annars rannsóknar sem nefnist Faces of Joblessness.

Mikilvægt er að fá heildarmynd af hindrunum á vinnumarkaði þar sem það getur nýst þeim sem vinna við atvinnumiðlum að greina og reyna að hafa áhrif á þær hindranir sem viðkvæmir hópar standa frammi fyrir.

„Það skiptir líka máli fyrir næsta áfanga verkefnisins sem er tvíþættur,“ heldur Vibeke Jakobsen áfram.

Í næsta áfanga verkefnisins munum við reyna að sjá hvaða hindranir það eru sem flestir innan tiltekins hóps standa frammi fyrir. Það er mikilvægt til þess að geta greint hvaða aðgerðir reynast best við að lágmarka hindranirnar.

Vibeke Jakobsen

Þurfum við nýja stefnu í vinnumarkaðsmálum?

Í seinni áfanga verkefnisins munu rannsakendur skoða hvaða ávinningur kann að vera af því að skipta um áherslur í tengslum við vinnumarkaðsmál, frá því að einblína á viðkvæma hópa yfir í að fjalla frekar um hindranirnar.

Norrænu löndin geta lært margt hvert af öðru. Í fyrstu skýrslunni sem hópurinn kynnti árið 2022 kom fram að ef atvinnuþátttaka í öllum norrænu löndunum væri jafn mikil og hún er í því landi þar sem hún er mest gætu 700 þúsund manns úr þeim hópum sem eiga erfitt uppdráttar á vinnumarkaði verið í vinnu.

Um verkefnið

Rannsóknarverkefnið er unnið í samstarfi HBS Economics, sem er danskt ráðgjafafyrirtæki sem veitir ráðgjöf til stjórnvalda, samtaka og einkafyrirtækj, og VIVE (Det Nationale Forsknings- og Analysecenter for Velfærd), sem er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir innanríkis- og heilbrigðisráðuneyti Danmerkur. Norræna ráðherranefndin fjármagnar verkefnið. Það hófst árið 2021 og lýkur í desember 2024.

Aðrir þátttakendur í verkefninu er sérfræðingar frá Stokkhólmsháskóla, háskólanum í Björgvin, finnsku heilbrigðis- og velferðarstofnuninni (THL) og Háskóla Íslands.