Tillögur LGBTI-samfélagsins að lausnum

04.03.21 | Fréttir
LGBTI debat
Ljósmyndari
Camilla Lohmann
„Ég held að margir telji okkur hafa náð takmarkinu hér á Norðurlöndum. Að baráttunni fyrir LGBTI-réttindum sé svo gott sem lokið og að LGBTI-fólk geti lifað við öryggi og jafnrétti fyrir opnum tjöldum. Stundum fæ ég þetta sjálfur á tilfinninguna, til dæmis á Pride-hátíðinni með glimmer í andliti og tár í augunum yfir því að fólk fagni fjölbreytileika ástarinnar.“ Þannig hefst nýleg grein sem byggir á átta norrænum málstofum um LGBTI-málefni. Í málstofunum kom fram að enn væru áskoranir til staðar, en að einnig mætti finna lausnir.

„Hinsegin einstaklingar í samfélögum okkar alast upp við að vera í minnihluta innan eigin fjölskyldu, í skólanum og samfélaginu. Þess vegna er svo mikilvægt að finna tengslanet, stuðning og samkennd með öðrum sem eru á sama báti. Það dregur úr þeirri tilfinningu að fólk sé utanveltu og öðruvísi,“ sagði Inge Alexander Gjestvang, formaður samtakanna FRI, á LGBTI-málstofu í Nuuk. Þetta var ein af átta málstofum þar sem LGBTI-málefni voru í brennidepli. Þátttakendur í málstofunum voru einstaklingar úr LGBTI-samfélaginu, hagsmunasamtök, ungt fólk, fulltrúar opinberra stofnana, sérfræðingar og stjórnmálafólk. Norski blaðamaðurinn Gisle August Gjevestad Agledahl hefur unnið áfram með það helsta sem fram kom í málstofunum. Hann hefur tekið þessi helstu atriði saman í greininni „Syv udfordringer for LGBTI sagen – og hvordan det nordiske samarbejde kan løse dem“ („Sjö áskoranir fyrir LGBTI-málstaðinn – og hvernig norrænt samstarf getur leyst úr þeim“), þar sem hann greinir niðurstöður málstofanna og tillögur þátttakenda að lausnum.   

Í málstofuröðinni var margsinnis óskað eftir víðtækara norrænu samstarfi þvert á lítil og stór samtök og félög á Norðurlöndum

Gisle August Gjevestad Agledahl

Óskað eftir auknu norrænu samstarfi 

Árið 2020 hófu norrænu jafnréttisráðherrarnir formlegt, pólitískt samstarf um að standa aukinn vörð um réttindi LGBTI-fólks á gervöllu svæðinu og bæta lífskjör þess. Liður í þessu starfi var málstofuröð sem Norræna ráðherranefndin stóð fyrir í því augnamiði að taka saman sjónarmið aðila á þessu sviði. Markmiðið var að safna reynslu og þekkingu á norrænum vettvangi til að nýta áfram í samstarfi ráðherranefndarinnar. Í málstofuröðinni var tekist á við fjölbreytileg viðfangsefni til að varpa ljósi á þær áskoranir sem mæta LGBTI-fólki dagsdaglega. Dæmi um slíkar áskoranir er það að geta lifað í öryggi og með reisn fyrir opnum tjöldum, daglegt líf í skóla og á vinnustað, viðurkenning og réttindi innan fjölskyldunnar og upplifun fólks af heilbrigðiskerfinu. Annað alvarlegt vandamál í samfélögum okkar er ofbeldi og mismunun gagnvart LGBTI-fólki. Snert var á því málefni með sérstakri áherslu á þær áskoranir sem tengjast sjálfsmynd einstaklinga í minnihlutahópum. Í málstofuröðinni var sjónum einnig beint að tengslamyndun, alþjóðlegu samstarfi og fjölmiðla- og kvikmyndamenningu.   

„Í málstofuröðinni var margsinnis óskað eftir víðtækari norrænu samstarfi þvert á lítil og stór samtök og félög á Norðurlöndum,“ segir blaðamaðurinn Gisle August Gjevestad Agledahl. 

Í samstarfi við borgaralegt samfélag 

Málstofuröðin var haldin í samstarfi við fulltrúa borgarasamfélagsins á hverjum stað, sem buðu fram aðstöðu fyrir málstofuranar, byggðu brýr til aðila sem máli skipta í þessu samhengi, kynntu málstofurnar og tóku þátt í þeim. Málstofurnar fóru fram á Pride-hátíðum á Álandseyjum, í Helsinki og Umeå, einnig í Þórshöfn, Reykjavík og Nuuk, á kvikmyndahátíðinni Mix Copenhagen og á Arctic Pride-hátíðinni í Tromsø. 

 

Áhersla á jafnrétti í fjörutíu ár 

Í 40 ár hafa norrænu löndin unnið saman að auknu jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins. Jafnrétti kynjanna er ein af ástæðunum fyrir velgengni norræna líkansins og einn af hornsteinum hins norræna velferðarsamfélags. Norræna ráðherranefndin notar skammstöfunina LGBTI, sem stendur fyrir ensku orðin lesbian, gay, bisexual, trans og intersex.