Málstofuröð beinir kastljósinu að réttindum og tækifærum LGBTI-fólks á Norðurlöndum

20.08.20 | Fréttir
A demonstration at Pride

Photographer: Martin Zachrisson

Ljósmyndari
Martin Zachrisson
Árið 2019 tóku jafnréttisráðherrar Norðurlanda upp pólitískt samstarf með það fyrir augum að auka vernd og bæta lífsgæði LGBTI-fólks á öllu svæðinu. Liður í því starfi er að standa fyrir málstofuröð sem ætlað er að varpa ljósi á hindranir og áskoranir tengdar jafnrétti og réttindum LGBTI-fólks á Norðurlöndum.

Málstofuröðinni verður ýtt úr vör þegar þann 26. ágúst á Åland Pride og mun á haustmánuðum fara hringferð um Norðurlönd, að Færeyjum og Grænlandi meðtöldu. Í málstofunum munu koma saman fagaðilar, aðgerðasinnar og hagsmunasamtök í málefnum LGBTI-fólks og er markmiðið að mynda tengslanet til frekara samstarfs auk þess að beina kastljósi að réttindum og tækifærum LGBTI-fólks á Norðurlöndum.

Mismunandi umfjöllunarefni

Í málstofuröðinni verða mismunandi umfjöllunarefni tekin fyrir sem eiga að varpa ljósi á þær áskoranir sem mæta LGBTI-fólki dagsdaglega. Fjallað verður um réttinn til lifa öruggu og opnu lífi með reisn, hversdaginn í námi og starfi, viðurkenningu og réttindi tengd fjölskyldulífi og hvernig fólki er tekið innan heilbrigðiskerfisins. Annað alvarlegt vandamál í samfélögum okkar er ofbeldi og mismunun gagnvart LGBTI-fólki. Sjónum verður beint að þessu vandamáli, sérstaklega með áherslu á áskoranir sem tengjast hópum í minnihluta.

Einnig verður fjallað um alþjóðlegt samstarf og tengslanet og kvikmyndamenningu.

Dagsetningar málstofuraðarinnar

  • Åland Pride, 26. águst
  • Helsinki Pride, 8. september
  • Umepride, 26. september
  • Þórshöfn í Færeyjum, 12. október
  • Reykjavík, 13. október
  • Nuuk, 15. október
  • MIX Copenhagen, 23. október
  • Arctic Pride, Tromsø 10. nóvember

Fræðslurit

Þekkingin og reynslan sem aflað verður í málstofuröðinni verður tekin saman í fræðsluriti sem notað verður við áframhaldandi starf á þessi sviði. Gisle Gjevestad Agledahl, þáttastjórnandi og blaðamaður frá Noregi, mun taka þátt í öllum málstofunum og skrifa skýrsluna. Öllum málstofunum verður streymt á netinu.

Nokkrar staðreyndir

Hjá Norrænu ráðherranefndinni hefur verið unnið með málefni tengd jafnrétti og mismunun frá árinu 1974. Á árinu 2020 er það markmið okkar að leggja áherslu á samstarf um jafnrétti og réttindi til handa LGBTI-fólki. Til að ýta undir langvarandi og traust samstarf mun Norræna upplýsingaveitan um kynjafræði (NIKK) vinna greiningu og kortlagningu á efninu sem kynnt verður í nóvember.

LGBTI er það hugtak sem Norræna ráðherranefndin notar. Það stendur fyrir lesbian, gay, bisexual, transgender/transsexual og intersex.