Vissir þú að blár skógur á Norðurlöndum bindur kolefni sem nemur losun frá 700 þúsund dönskum bílum árlega?

Til blás skógar á Norðurlöndum telst fastur strandgróður, svo sem þaraskógar, marhálmsengi og þangbreiður, sem eru allt mikilvægar náttúrulegar kolefnisgeymslur.
Í nýju skýrslunni er fjallað um vistkerfisáhrif loftslagsbreytinga og annarra breytinga af mannavöldum. Þar eru áhrif blás skógar á Norðurlöndum reiknuð út í fyrsta sinn og einnig er þar að finna gagnvirkt, tæmandi kort af norrænum bláskógasvæðum.
Bláu skógarnir eru sérlega viðkvæmir fyrir loftslagsbreytingum og því mikilvægt að sjá um þá með sjálfbærum hætti. Norðlæg hafsvæði eru einkum rík að bláum skógi og því hafa Norðurlönd einstaka möguleika á að stuðla að bættu loftslagi með því að bæta vaxtarskilyrði þangs, þara og sjávargrasa, samkvæmt skýrslunni.
Vannýtt tækifæri til kolefnisgeymslu
Blár skógur er einstaklega vel til þess fallinn að binda kolefni sem annars myndi sleppa út í andrúmsloftið. Skýrslan sýnir í fyrsta sinn áhrif blás skógar á kolefnisgeymslu á Norðurlöndum og í henni er áætlað að um 3,9 milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum séu bundin til lengri tíma í bláum norrænum skógi á hverju ári.
Samkvæmt síðunni myclimate.org samsvarar þetta losun frá 700 þúsund dönskum bílum árlega. Í skýrslunni er áætlað hve mikið magn kolefnis sé fjarlægt árlega úr andrúmsloftinu og bundið í bláum norrænum skógi. Að auki er það mat skýrsluhöfunda að allt að 33 milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum hafi þegar verið bundnar og geymdar í strandgróðri.
Norskir þaraskógar stuðluðu einir og sér að 46% af langtímageymslu kolefnis í bláum skógum Norðurlanda, vegna þess hve útbreiddir þeir eru og vegna mikillar framleiðslu og útflutnings á kolefni (e. carbon export).
Um skýrsluna
Skýrslan byggir á niðurstöðum samnefnds verkefnis sem stóð yfir í þrjú ár undir umsjón Norsku stofnunarinnar um vatnsrannsóknir (NIVA) auk GRID-Arendal, Norsku hafrannsóknastofnunarinnar, Árósaháskóla í Danmörku og Åbo Akademi í Finnlandi. Verkefnið er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni.