Einu skrefi nær notkun rafrænna auðkenna á Norðurlöndum

31.10.18 | Fréttir
Anne Berner, Finlands samarbejdsminister, taler i Stortinget, Nordisk Råds Session 2018

Anne Berner, samstarfsráðherra Finnlands í ræðustóli í Stórþinginu á þingi Norðurlandaráðs 2018

Ljósmyndari
Johannes Jansson

„Norðurlöndin eru samþættasta svæði í heimi“ - Þetta er óskin sem margir norrænir stjórnmálamenn setja fram þegar þeir eiga að lýsa svæðinu og helsta samkeppnisforskoti okkar. Hreyfanleiki og samstarf yfir landamæri er ein af grunnstoðum norræns samstarfs. Nú er kominn tími til að þetta eigi einnig við um hinn stafræna heim þar sem enn eru fyrir hendi allmargar hindranir.

Dæmi um þetta eru lyfseðilskyld lyf sem hægt er að sækja í apóteki í öðru norrænu ríki, sé lyfseðillinn á pappír. Sé lyfseðillinn hins vegar sendur gegnum rafræna lyfjagátt landanna er ekki hægt að taka lyfið út í öðru landi. Í samræmi við stafræna væðingu opinberrar þjónustu skiptir þess vegna máli fyrir norræna borgara að þeir geti gert grein fyrir sér og notað rafræna þjónustu erlendis.

Anne Berner, samgöngu- og samskiptaráðherra Finnlands, lagði fram skýrslu um starfið á stafræna sviðinu á þingi Norðurlandaráðs í Ósló.

„Það eru væntingar meðal borgaranna okkar sem nú er verið að vinna með og svara. Norðurlöndin eiga þess kost að ganga á undan í þróun og innleiðingu á sameiginlegu rafrænu auðkenni fyrir allt svæðið. Þess vegna er ánægjulegt að heyra að fyrstu þjónustuþættirnir geti verið aðgengilegir fyrir borgararana þvert á landamæri Norðurlanda og Eystrasaltsríkja fyrir árið 2020,“ segir Anne Berner.

Það eru væntingar meðal borgaranna okkar sem nú er verið að vinna með og svara. Norðurlöndin eiga þess kost að ganga á undan í þróun og innleiðingu á sameiginlegu rafrænu auðkenni fyrir allt svæðið.

Anne Berner, samgöngu- og samskiptaráðherra Finnlands

Þrjú ár – þrjú markmið

Noregur og Direktorater for forvaltning og ikt (Difi) leiðir verkefni Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um rafræn auðkenni (NOBID). Samstarfið er sprottið úr Norræn-baltnesku ráðherrayfirlýsingunni (Digital North) þar sem áhersla er lögð á notkun rafrænna auðkenna ríkjanna þvert á landamæri. Ráðstafað verður 5,5 milljónum danskra króna til verkefnisins á kjörtímabilinu 2018-2020.

Verkefnið hefur þrjú markmið:

  1. Að greina rafræna þjónustu þar sem norrænir borgara hafa sérstakt gagn af því að nota rafræn auðkenni sín þvert á landamæri.
  2. Að koma í framkvæmd aðgerðum til þess að ryðja úr vegi lagalegum og tæknilegum hindrunum vegna einstakra þjónustuþátta og tryggja samvirkni.
  3. Að gera grein fyrir og miðla gildi þess að borgarar á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum geti notað rafræn auðkenni frá heimalöndum sínum til þess að fá aðgang að rafrænni þjónustu þvert á landamæri.

Tor Alvik, yfirmaður hjá Difi, er verkefnisstjóri NOBID. Hann upplýsir að tæknilegar lausnir séu þegar vel á veg komnar. Það sem nú skiptir mestu er hvað löndin gera hvert og eitt þegar hægt verður að tengjast.

„Norðurlöndin vilja vera í forystu varðandi notkun rafrænna auðkenna þvert á landamæri. Hér byggjum við á lagasetningu og öðru efni frá Evrópusambandinu.  Við vinnum nú að lausnum sem þurfa að komast í höfn. En til þess að það megi takast skiptir máli að löndin tengi rafræn auðkenni sín við þessa lausn og búi í haginn fyrir miðlun þeirra upplýsinga sem þarf til að fá aðgang að þjónustuþáttunum,“ segir Tor Alvik.

Við vinnum nú að lausnum sem þurfa að komast í höfn. En til þess að það megi takast skiptir máli að löndin tengi rafræn auðkenni sín við þessa lausn.

Tor Alvik, verkefnissjóri NOBID