Norrænir fjármálaráðherrar ræða peningaþvætti og starfsemi á sviði loftslagsmála

19.10.19 | Fréttir
De nordiska finansministrarna 2019
Photographer
Anders Hedberg
Baráttan gegn peningaþvætti og fjármögnun alþjóðlegs samstarfs á sviði loftslagsmála var á dagskrá fundar norrænu fjármálaráðherranna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum, IMF, í Washington 18. október.

Peningaþvætti er verkfæri þeirra sem vilja auðgast á spillingu og annarri skipulagðri glæpastarfsemi og er ógn við alþjóðlega fjármálakerfið. Á síðustu árum hafa mörg norrænu ríkjanna orðið fyrir þess háttar glæpum og augljóst er að þörf er á öflugum aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Slík starfsemi fer iðulega fram þvert á landamæri ríkja og krefjast aðgerðirnar því alþjóðlegs samstarfs.

Alþjóðlegri baráttu gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er stýrt gegnum samtökin Financial Action Task Force (FATF). Öll norrænu ríkin eru aðilar að FATF en aðilar samtakanna eru 39 alls. Starfsemi samtakanna er ekki þjóðréttarlega bindandi en þau hafa öflugar heimildir til viðurlaga. Norrænu ríkin hafa hag að því að auka samstarf sitt á þessu sviði á eins metnaðarfullan hátt og kostur er. Um leið er nauðsynlegt að vinnan gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verði markvissari innan Evrópusambandsins.

„Til þess að hin norræna rödd heyrist betur í þessu mikilvæga starfi væri hagur í því að við gætum unnið saman að málefnum þar sem hagsmunir okkar eru sameiginlegir og að samræma starf okkar enn betur,“ segir fjármálaráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson, sem stýrði norræna ráðherrafundinum.

Áhersla á loftslagsmál

Ráðherrarnir ræddu einnig útgáfu ársins af Nordic Economy Policy Review (NEPR) sem Norræna ráðherranefndin gaf út í vor. Efni NEPR 2019 er hagkvæmni í loftslagsstefnu norrænu ríkjanna. NEPR er kostað af Norrrænu ráðherranefndinni og kemur út á hverju ári. Í skýrslunni í ár er fylgt eftir yfirlýsingunni um norrænt kolefnishlutleysi sem undirrituð var af norrænu forsætis- og loftslagsmálaráðherrunum í janúar 2019.

Loftslagsmál eru einnig meginviðfangsefni nýs samstarfs sem nefnt er ”Coalition of Finance Ministers for Climate Action” sem allir norrænu fjármálaráðherrarnir taka þátt í. Finnland gegnir formennsku þess samstarfs 2019-2020 og kynnti starfsemina á fundinum.

Þá ræddu ráðherrarnir aðrar sameiginlegar áskoranir, meðal annars Brexit og hvernig auðvelda megi aðlögun innflytjenda á norrænan vinnumarkað.