Einu ári eftir samninginn um líffræðilega fjölbreytni: Eru Norðurlönd á réttri leið í náttúrumálum?

02.11.23 | Fréttir
rundabordssamtal biodiversitet
Photographer
Elias Rasch
Brátt er eitt ár liðið frá því að þjóðir heims komu sér saman um áætlun um að bjarga líffræðilegri fjölbreytni í heiminum á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Montreal. Hvernig gengur Norðurlöndum að uppfylla samninginn? Þeirri spurningu var velt upp í hringborðsumræðum með æskulýðshreyfingum og norrænum stjórnmálamönnum í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Ósló.

„Sögulegur samningur fyrir náttúruna og menn“ var sagt þegar alþjóðasamningur um líffræðilega fjölbreytni var loks í höfn þann 20. desember 2022.

Nú, einu ári síðar, bauð norrænt samstarf upp á tækifæri til þess að fylgja eftir þeim skuldbindingum sem Norðurlönd og önnur ríki heimsins gengust undir í Montreal 2022.

Við hringborðsumræður með Norðurlandaráði æskunnar, Nordic Youth Biodiversiy Network og norrænu stjórnmálafólki komu fram leiðir til þess að byrja fljótt að uppfylla samninginn.

Samráð ungs fólks og stjórnmálafólks á Norðurlöndum um næstu skref

Fyrst greindi þó Lova Eveborn, sænskur meðlimur í Nordic Youth Biodiversity Network, frá sinni sýn á stöðuna á Norðurlöndum.

„Við sjáum að norrænu löndin eru að vinna að því að gera áætlanir um að framfylgja samningnum. En við sjáum líka alvarleg dæmi um að stefnan í náttúruverndarmálum gengur í öfuga átt: Námuvinnsla á hafsbotni, ósjálfbær skógariðnaður, dauð hafsvæði vegna áburðarmengunar og hvalveiðar í atvinnuskyni,“ sagði Lova Eveborn.

„Löndin verða að uppfylla markmiðin“

Þáttakendur í hringborðsumræðunum fengu það verkefni að koma með tillögur að því hvað Norðurlönd geti gert í sameiningu til þess að uppfylla samninginn.

„Norðurlönd þurfa að koma sér saman um túlkun á samningnum þannig að uppfylla megi markmiðið um 30 prósent innan hvers lands í stað þess að túlka það sem loðið alþjóðlegt markmið. Norðurlönd geta líka komið sér saman um reglur fyrir skógariðnaðinn og fiskveiðar til þess að koma í veg fyrir einhæf vistkerfi. Auk þess þarf alltaf að hafa frumbyggja með í ráðum, það ætti að vera norræn stefna,“ sagði Jonas Kittelsen, norskur meðlimur í Nordic Youth Biodiversity Network.

Krafa um samnorrænar aðgerðir

Önnur tillaga sem kom fram fólst í að Norðurlönd réðust í sameiginlegar aðgerðir í tengslum við líffræðilega fjölbreytni. Ola Elvestuen, formaður norrænu sjálfbærninefndarinnar, tók undir það.

„Nú þurfum við að koma á víðtækara samstarfi, almennri samstöðu um að við fylgjum Montrealsamningnum og að hvert land um sig nái markmiðum hans fyrir árið 2030. Löndin þurfa að gera sér sínar eigin áætlanir um hvernig þau ætla sér að gera það en við eigum að læra hvert af öðru, sýna að við stöndum við orð okkar og vinna saman þvert á landamæri. Það eru tegundir, náttúrusvæði og hafsvæði sem teygja sig yfir landamærin og þess vegna verðum við að standa saman að því að uppfylla markmið Montrealsamningsins,“ sagði Ola Elvestuen.

Hefur sömu þýðingu og Parísarsamningurinn

Montrealsamningurinn um líffræðilega fjölbreytni er álitinn hafa jafn mikla þýðingu fyrir náttúruna og Parísarsamningurinn hefur fyrir loftslagið.

Hann felur í sér 23 markmið sem eiga að vernda 30 prósent af land-, strand- og vatnasvæði heimsins fyrir árið 2030. Jafnframt skal hefja endurheimt 30 prósenta af ónýtum vistkerfum heimsins.

Allir norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir tóku þátt í samningaviðræðunum hjá SÞ fyrir einu ári auk þess sem viðstaddir voru þingmenn og 18 fulltrúar norrænna ungmenna.

Niðurstöðurnar kynntar norrænum stjórnmálamönnum

Fulltrúar unga fólksins komu með 19 kröfur að samningaborðinu í Montreal, tillögur sem unnar voru með þriggja ára ferli og höfðu stuðning bæði æskulýðshreyfinga og norrænu ríkisstjórnanna.

 

Niðurstöður hringborðsumræðnanna að ári liðnu verða teknar saman og kynntar fyrir norrænum ráðherrum umhverfismála og sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs.