19 kröfur ungs fólks á Norðurlöndum til þess að bjarga líffræðilegri fjölbreytni

02.06.21 | Fréttir
natur och utropstece
Photographer
Maria Uleskog/Marengdeluxe
Norðurlöndin eru meðal ríkustu svæða heims og hafa því enga afsökun: Löndin verða að ná markmiðum næsta alþjóðlega samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Til þess að það megi takast verður að koma á fót óháðri nefnd sérfræðinga sem metur umhverfisstefnuna og hefur ungt fólk með í ráðum við ákvarðanatöku. Þetta eru meðal krafna sem settar eru fram í „Nordic Youth Position paper on Biodiversity“ en 3000 ungmenni á Norðurlöndum hafa átt þátt í að móta stöðuskjalið.

Í stöðuskjalinu eru 19 afgerandi kröfur og verður það afhent umhverfis- og loftslagsráðherrum landanna í dag. 


„Þetta verkefni sýnir að margt ungt fólk hefur miklar áhyggjur af tapi á líffræðilegri fjölbreytni og er tilbúið til að grípa til aðgerða. Það er orðið tímabært að norrænu ríkisstjórnirnar gangi á undan í baráttunni fyrir alþjóðlegum samningi um skýra lausn á þessari kreppu,“ segir Emma Susanna Turkki, Nordic Youth Biodiversity Network í Danmörku.

 

„Parísarsamkomulag“ fyrir náttúruna 

Aðeins eru fimm mánuðir þangað til leiðtogafundur SÞ um líffræðilega fjölbreytni verður, ef aðstæður leyfa, haldinn í Kunming í Kína í október og honum er ætlað að skila heiminum nýjum samningi um líffræðilega fjölbreytni.


Nýi samningurinn verður að verða hliðstæða Parísarsamkomulagsins en snúa að náttúrunni og þar verður að krefjast lagalega bindandi úrræða og reglulegrar eftirfylgni að mati unga fólksins sem stendur að stöðuskjalinu.


Þau mæla einnig með alþjóðlegum lögum gegn umhverfisbrotum til að stöðva stórfelldan umhverfisskaða.


„Efnuð og vel skipulögð lönd eins og Norðurlöndin bera mikla ábyrgð, bæði gagnvart því að knýja þróunina áfram og liðsinna fátækari löndum við að fjármagna vernd náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni,“ segir í stöðuskjalinu. 

 

Norðurlöndin eiga að gera kröfur

„Við viljum að norrænu ríkisstjórnirnar tali ákveðið fyrir kerfi sem tryggir að lönd heims fái nægilegan stuðning til að uppfylla markmiðin sem þau hafa komið sér saman um. Okkur má ekki mistakast enn einu sinni,“ segir Gustaf Zachrisson, Nordic Youth Biodiversity Network í Svíþjóð.


Umhverfisáhrif Norðurlandanna eru of mikil og unga fólkið vill fleiri hvata til þess að draga úr óþarfa neyslu og stuðla að hringrásarhagkerfi á Norðurlöndum.
Meðal annars vilja þau að umhverfisálag fyrirtækja verði skattlagt.

Fylgjast þarf með stjórnvöldum

Unga fólkið leggur til að Norðurlöndin komi á fót óháðri nefnd sérfræðinga sem fari í saumana á stefnumörkuninni og stuðli að því að markmiðum samningsins um líffræðilega fjölbreytni verði náð, svipað og Klimatpolitiska rådet í Svíþjóð og Klimarådet í Danmörku. 


Margar tillögurnar snúast um að virkja ungt fólk og að frumbyggjar á Norðurlöndum eigi fulltrúa bæði í alþjóðlegum samningaviðræðum og í stefnumótun innan landanna. 

Ungt fólk ætti að sitja í samninganefndum landanna á sama hátt og í loftslagsviðræðunum. 

Norrænn hópur ungmenna tekur þátt í samningaviðræðunum 

Kröfurnar 19 í stöðuskjalinu eru lokaniðurstaða tveggja ára ferlis þar sem næstum 3000 Norðurlandabúar á aldrinum 16 til 30 ára hefur komið saman í vinnustofum, staðið fyrir vefþingum með stjórnmálafólki og sérfræðingum og tekið þátt í könnun á skoðun ungs fólks á líffræðilegri fjölbreytni (2.200 svarendur frá öllum Norðurlöndum).


Ritstjórnarhópur samstarfsnetsins Nordic Youth Biodiversity Network vann stöðuskjalið. 

Næstu mánuðir verða nýttir til þess að ræða tillögurnar í stöðuskjalinu opinberlega og kynna þær fyrir norrænu ríkisstjórnunum. Hópur fulltrúa ungs fólks frá öllum Norðurlöndunum mun eiga þess kost að taka þátt í lokaviðræðunum og koma sjónarmiðum sínum á framfæri þar. 

Umræður og kynning 2. júní

Stöðuskjalið verður kynnt 2. júní með umræðum ungs fólks og stjórnmálafólks á Norðurlöndum, kl. 16-18 að dönskum tíma.

Hér er hægt að fylgjast með beinni útsendingu frá umræðunum: 

Verið velkomin að taka þátt í umræðunum hér: