Framkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum: Samstaða verður að nást um grænu umskiptin!

22.12.20 | Fréttir
Elizabeth Maruma Mrema
Ljósmyndari
CBD/int
Stjórnvöld á Norðurlöndum verða að tala við íbúa landanna, við fyrirtækin, bændurna og frumbyggja landanna og unga fólkið - um umskiptin sem þurfa að eiga sér til þess að stöðva tap á líffræðilegri fjölbreytni. Þetta sagði Elizabeth Maruma Mrema, framkvæmdastjóri líffræðilegrar fjölbreytni hjá Sameinuðu þjóðunum, í umræðum sem hún tók þátt í með ungum umhverfisaðgerðasinnum og norrænu stjórnmálafólki.

„Við þurfum metnaðarfull loforð frá stjórnvöldum allra ríkja heims til þess að stöðva útrýmingu tegundanna. En ef þau eiga að komast til framkvæmda verður að tryggja samstöðu um þau á öllum sviðum samfélagsins,“ segir hún. 

 

Þegar árinu 2020 lýkur eftir fáeina daga er tími hinna 20 markmiða um líffræðilegan fjölbreytileika sem lönd heimsins komu sér saman um einnig runninn út.

Ekkert þessara markmiða hefur náðst. 

Tegundir deyja út

Markmiðin snúast meðal annars um vernd hafsins, um að draga úr eyðingu skóga, auka sjálfbærni í landbúnaði, draga úr mengun sem skaðar umhverfið og nýtingu vistkerfa.

Staðan er hins vegar sú að í öllum heiminum dregur með auknum hraða úr líffræðilegri fjölbreytni. Tegundir deyja út og munu aldrei koma aftur.

 

Sérfræðihópur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreyni, IPBES, varar við því að útrýming tegunda muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir mannfólkið og allt líf á jörðinni. 

Heimsfaraldurinn liður í kreppu náttúrunnar

„Síðustu rannsóknaskýrslurnar komu út á tímum kreppunnar af völdum covid-19. Það er áskorun að við þurfum að hugsa okkur tvisvar um þegar kemur að sambandi okkar við náttúruna og íhuga afleiðingar taps á lífræðilegri fjölbreytni fyrir okkur sjálf.  Það sýnir bráða þörf á róttækum breytingum - en breytingarnar verða að vera sanngjarnar,“ segir Elizabeth Maruma Mrema framkvæmdastjóri á sviði líffræðilegrar fjölbreytni hjá Sameinuðu þjóðunum.

 

Hvernig er hægt að hrinda „róttækum breytingum“ í framkvæmd án þess að skapa atvinnuleysi og félagsleg bil og virkja um leið allan almenning til þátttöku í baráttunni?

Þessari spurningu var reynt að svara á umræðufundi með ungu áhugafólki um umhverfismál og norrænu stjórnmálafólki sem haldinn var 8. desember.

Stjórnmálafólk verður að sýna „hvernig“

Sænski þingmaðurinn Cecilie Tenfjord Toftby sem einnig situr í sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs, tók á eigin ábyrgð forystu varðandi þessar breytingar í kjördæmi sínu. 

„Í mínum huga felur réttlát umbreyting í sér að ég sem stjórnmálamaður ræði við kjósendur mína um það hvaða leið við ætlum og hvernig við ætlum að fara hana. Ég verð að tryggja að fólk sé með mér. Við sem erum í stjórnmálum verðum að sýna hvernig við getum lifað þessu lífi og hvernig við getum unnið öðruvísi en áður. Við verðum að geta boðið upp á eitthvað í staðinn og megum ekki skilja neinn eftir,“ segir Cecilie Tenfjord Toftby.

Andstæðir pólar í umræðu um umhverfismál

Annika Lepistö, fulltrúi í Nordic Youth Biodiversity Network frá Álandseyjum tengdi saman nærsamfélag og heimsbyggðina. 

„Á heimsvísu sjáum við að loftslagskreppan og kreppa líffræðilegrar fjölbreytni eykur félagsleg bil og kemur ójafnt niður á fólki. Ójafnréttið torveldar fólki líka að standa saman. Grænu umskiptin krefjast þess að við stöndum saman og hrindum þeim breytingum í framkvæmd sem nauðsynlegar eru. Þess vegna verðum við alltaf að tengja saman stefnumótun í félagsmálum og stefnumótun í umhverfismálum,“ segir Annika Lepistö. 

 

Tekjubil og ólíkir hagsmunir skapa andstæður í umhverfisumræðunni, einnig á Norðurlöndum og í Evrópu,“ segir Christian Schwarzer frá Global Youth Biodiversity Network í Þýskalandi. 

 

„Fyrir mig sem berst fyrir varðveislu náttúrunnar er nýja landbúnaðarstefna Evrópusambandsins hrikaleg. En hún er sigur fyrir þá ungu bændur sem ég tala við. Það verður að brúa bilið milli okkar, við þurfum miklu meiri samræður milli ólíkra hópa,“ segir hann.

Líffræðileg fjölbreytni er ekki málefni forréttindahópa

Nýjan alþjóðlegan samning um líffræðilega fjölbreytni verður að vinna í ítarlegu samráði við hina ólíku geira og hópa sem græn umskipti hafa áhrif á,“ segir hann.

„Hér í hinu vestræna samfélagi er allstór efri millistétt sem lætur sig náttúruna varða. En jaðarsettari hópar samfélagsins tengja ekki við þessar hugmyndir. Það er ekki hægt að reka náttúruverndarhreyfinguna á forréttindahópi í millistétt sem hefur efni á að kaupa lífrænar vörur. Venjulegt verkafólk og bændur verða líka að vera með þegar næsti alþjóðlega samningur um líffræðilega fjölbreytni verður til,“ segir Christian Schwarzer.

 

Norðurlöndin eru í hópi efnaðri ríkja heims sem með ofneyslu sinni stuðla að örri útrýmingu tegunda. Hvernig geta Norðurlöndin orðið hluti af lausninni í stað þess að vera hluti af vandanum?

Norðurlöndin geta verið afl til breytinga

„Norðurlöndin leggja þegar sitt af mörkum með því styðja vinnuna við samninginn um líffræðilega fjölbreytni og með því að hjálpa öðrum löndum í baráttunni gegn fátækt. „Við viljum að Norðurlöndin verði áfram breytingaafl með því að þróa nýjar aðferðir til þess að vernda náttúruna og stuðla að félagslegu réttlæti,“ segir Elizabeth Maruma Mrema.

 

Leiðtogar heimsins munu koma saman í Kumming í Kína á næsta ári til þess að ná samkomulagi um ný markmið sem draga eiga úr tapi á líffræðilegri fjölbreytni innan ramma samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD).

Samningafólkið verður að njóta stuðnings almennings 

Elizabeth Maruma Mrema, framkvæmdastjóri samningsins, vonar að nýi samningurinn verði metnaðarfullur og nái að stöðva útrýmingu líffræðilegrar fjölbreytni.

En áður en til þess kemur vill hún að fólkið sem að samningagerðinni kemur vinni heimavinnuna sína og sé með almenning í heimalöndum sínum með sér í liði. 

„Við viljum hitta fyrir samningafólk sem er ekki aðeins fulltrúar höfuðborga sinna heldur hefur tryggt sér stuðning og hugmyndir af landsbyggðinni, frá frumbyggjum í löndum sínum og frá unga fólkinu. Stjórnvöld verða að tengja líffræðilega fjölbreytni við alla geira samfélagsins - og um leið bera virðingu fyrir rétti fólks til að njóta góðrar atvinnu og félagslegrar verndar,“ segir hún. 

Einstakt tækifæri nú

Í skýrslum sérfræðingahóps Sameinuðu þjóðanna er þrátt fyrir allt von. Hægt er að varðveita, endurheimta og nýta náttúruna á sjálfbæran hátt um leið og við uppfyllum önnur heimsmarkmið í þágu samfélagsins, svo sem að draga úr ójöfnuði. 

 

„Tækifæri okkar til breytinga er einstakt. Á aðeins fáum mánuðum hafa stjórnvöld í heiminum varið mörgum milljörðum dollara til þess að takast á við heimsfaraldurinn. Ef stjórnvöld geta varið svona miklu fé til þess að bjarga efnahagnum þá er ég viss um að þau hafa líka efni á því að bjarga jörðinni,“ segir Christian Schwarzer frá Global Youth Biodiversity Network.