Stafræn þjónusta sem einfaldar daglegt líf

05.03.20 | Fréttir
MR-Digital i København
Ljósmyndari
André Jamholt/norden.org
Ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem bera ábyrgð á stafrænni þróun vilja einfalda daglegt líf bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum með því að gera stafræna þjónustu aðgengilega yfir landamæri ríkjanna.

Norðurlandabúar hafa alltaf farið milli landanna innbyrðis til náms, starfa og búsetu. Norræn yfirvöld hafa einnig hvatt til þess og notið góðs af því. Samt sem áður hefur ekki alltaf verið einfalt að takast á við skriffinnsku einstakra ríkja, jafnvel þótt yfirvöld hafi gert þjónustu sína stafræna. Samhliða aukinni stafrænni væðingu landanna aukast einnig væntingar íbúa og fyrirtækja um að geta nýtt sér þjónustu óháð stað og stund.

Ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hyggjast vísa veginn varðandi stafræna aðlögun svæðisins og er það liður í að styrkja samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um „cross border digital service“. Áhersla er lögð á stafræna þjónustu sem tengist öllum gerðum lífsviðburða þegar einstaklingar og fyrirtæki hreyfa sig yfir landamæri norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkjanna.

Aðgengi þvert á landamæri styrkir hreyfanleika og samkeppnishæfni og aðlögun á svæðinu. Löndin okkar eru smá og við erum sterkari þegar við þróumst saman.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Í nýju framtíðarsýninni um norrænt samstarf er meginmarkmiðið að Norðurlöndin verði sjálfbærustu og samþættustu ríki heims. Stafrænar lausnir þvert á landamæri skipta þarna sköpum. Öll norrænu ríkin og Eystrasaltsríkin hafa náð langt í stafrænni þróun. Það veitir forskot en um leið þarf stöðuga þróun til þess að halda því forskoti.

„Aðgengi þvert á landamæri styrkir hreyfanleika og samkeppnishæfni og aðlögun á svæðinu. Löndin okkar eru smá og við erum sterkari þegar við þróumst saman,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Á fundinum í Kaupmannahöfn 6. mars ræddu ráðherrarnir meðal annars stafræna framtíð Evrópu við varaforseta framkvæmdastjórnar ESB, Margrethe Vestager. Með samstarfinu um stafræna þjónustu taka Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin stórt og mikilvægt skref og ganga á undan varðandi það að raungera stafrænan innri markað sem tengir ríki ESB og EES stafrænt.