Staðreyndir um Noreg

Lysefjorden
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Olía og fjöll eru það sem margir tengja við Noreg. Ægifögur og stórbrotin náttúra teygir sig frá ströndum og klettum í suðri yfir víðáttumikið miðhálendið í miðnætursólina á Norðurkollu.

Í Noregi er mikið fjalllendi, stórir skógar og heiðarlönd og þess vegna eru einungis um þrjú prósent landsins ræktanleg.  Íbúar Noregs eru um 5,3 milljónir, þar af búa 1,2 milljónir í og við höfuðborgina Ósló.

Stjórnmál í Noregi

Í Noregi er þingbundin konungsstjórn. Haraldur V. Noregskonungur hefur engin raunveruleg pólitísk völd og þingið, Stórþingið, fer með æðsta valdið. Noregur á ekki aðild að ESB en er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Noregur á aðild að NATO.

 • Þjóðhátíðardagur: 17. maí (Noregur fékk stjórnarskrá 17. maí 1814)
 • Stjórnarfar: Þingbundið konungsríki
 • Þing: Stórþingið (169 fulltrúar)
 • Aðild að ESB: Nei
 • Aðild að EES: Frá 1. janúar 1994
 • Þjóðhöfðingi: Haraldur V. Noregskonungur
 • Forsætisráðherra (september 2021): Jonas Gahr Støre (Arbeiderpartiet)

Íbúar Noregs

Í Noregi eru lítillega færri íbúar en í Danmörku, auk þess dreifast íbúar Noregs um miklu stærra svæði. Íbúar Noregs dreifast frá Lindesnes í suðri, til Kirkenes í norðri. 1,2 milljónir manna búa í og í nágrenni við Ósló.

 • Íbúafjöldi 2023: 5.488.984
 • Íbúar í Ósló 2023: 1.408.760

Íbúaþróun í Noregi

Efnahagslíf í Noregi

Helstu tekjulindir Norðmanna eru vinnsla og útflutningur á olíu og jarðgasi sem dælt er upp af hafsbotni. Fiskveiðar, málmvinnsla, skipaútgerð og ferðaþjónusta eru einnig mikilvægir atvinnuvegir fyrir efnahag landsins.

 • Þjóðarframleiðsla á íbúa: 45.700 evrur (2020)
 • Gjaldmiðill: Norsk króna (NOK)

Landafræði Noregs

Strandlengja Noregs er löng og landið er umlukið hafi. Landið er langt en það er hins vegar ekki mjög breitt. Náttúrufar er margbreytilegt með djúpum dölum og háum fjöllum. Hæsta fjall Noregs er Galdhøpiggen sem er 2469 metrar yfir sjávarmáli. Eyjarnar Svalbarði og Jan Mayen eru einnig hluti af Noregi.

 • Heildarflatarmál (fyrir utan Svalbarða og Jan Mayen): 323.781 km²
 • Stöðuvötn og fallvötn: 18.351 km²
 • Þurrlendi: 305.420 km²
 • Ræktanlegt land og garðar: 8.103 km²
 • Skógur: 125.301 km²
 • Stærsta stöðuvatn: Mjøsa 365 km²
 • Hæsti tindur: Galdhøpiggen 2469 m
 • Strandlengja meginlandsins: 28.953 km
 • Landamæri: 2562 km (landamæri að Svíþjóð: 1630 km, Finnlandi: 736 km, Rússlandi: 196)
 • Snæhetta og jöklar: 2.790 km²

Loftslag og umhverfi í Noregi

Loftslag í Noregi er breytilegt og endurspeglar hinar miklu fjarlægðir innan landsins. Við landamæri Finnlands og Rússlands í norðri geta vetur verið langir og kaldir en í suðri er mildara úthafsloftslag. 

 • Meðalhiti í Ósló (2021): 5,4° C (hæsti hiti 29,8 °C, lægsti hiti -15,6 °C)

Meðalhiti (gráður á selsíus) í Ósló

Norska

Opinbert tungumál í Noregi er norska Sérkenni norska ritmálsins er að það á sér tvær jafngildar útgáfur, bókmál og nýnorsku. Ivar Aasen var upphafsmaður nýnorskunnar sem var andsvar við bókmáli en það byggist aðallega á danska ritmálinu. Markmiðið með nýnorsku var að hún endurspeglaði hinar mörgu og mismunandi mállýskur sem talaðar eru í Noregi.

 • Opinber vefsíða: www.norge.no
 • Opinbert tungumál: Norska

Langar þig að flytja til Noregs?

Ef þig langar að flytja til Noregs má hafa samband við Info Norden sem er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar.

Langar þig að vita meira um Noreg og önnur norræn lönd?

Skýrslan State of the Nordic Region er gefin út annað hvert ár og veitir yfirgripsmikla og einstaka innsýn undir yfirborðið í norrænu ríkjunum. Í skýrslunni er unnið úr tölfræði um lýðfræði, vinnumarkað, menntun og hagkerfi Norðurlanda.

Langar þig að sjá meiri tölfræði?

Við höfum tekið saman mikið magn norrænna talnagagna sem máli skipta í gagnagrunninum Nordic Statistics database . Þar má verða margs vísari um tölfræði ýmissa málaflokka á Norðurlöndum.