Norrænt tungumálasamstarf

Gagnkvæmur tungumálaskilningur greiðir fyrir hreyfingu fólks milli landa og eflir samkennd íbúanna. Í því starfi sem unnið er til að bæta gagnkvæman málskilning á Norðurlöndum og tryggja hann til framtíðar beinist norrænt tungumálasamstarf einkum að skilningi barna og ungmenna á talaðri og ritaðri dönsku, norsku og sænsku.

Sameiginlegt tungumál er forsenda samskipta. Danska, norska og sænska eru nátengdar tungur að þær þjóðir sem þær tala skilja hver aðra. Söguleg skýring er á því hvers vegna staða dönskunnar er sterk sem erlent tungumál á Íslandi og að sænska er önnur tveggja þjóðtunga í Finnlandi. Danskan stendur einnig traustum fótum á Grænlandi og í Færeyjum en á Álandseyjum er þjóðtungan sænska.

Tvær ráðherranefndir bera ábyrgð á norrænu tungumálasamstarfi. Meginábyrgð er í höndum Norrænu ráðherranefndarinnar um menntamál og rannsóknir en Norræna ráðherranefndin um menningarmál ber einnig ábyrgð á málaflokknum. Hjá báðum ráðherranefndum er norrænt málasamfélag í forgangi og börn og ungmenni eru markhópur í samstarfsáætlunum þeirra. Málefni barna og ungmenna er þverfagleg vídd í starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar.

Samningar á sviði tungumála

Fjórir samningar eru stjórntæki í samstarfinu um tungumál: Helsingforssamningurinn, menningarsamningur Norðurlanda, Yfirlýsingin um málstefnu Norðurlanda og Tungumálasáttmálinn.

Í Helsingforssamningnum stendur að Norðurlöndin eigi að reyna að varðveita og efla enn frekar samstarf sitt á sviði réttarfars, menningarmála, félagsmála og efnahagsmála og á sviði samgöngumála og umhverfisverndar. Um gagnkvæman tungumálaskilning segir: „Fræðsla og menntun í skólum í sérhverju Norðurlandanna skal í hæfilegum mæli taka til fræðslu í tungumálum og um menningu og almennt þjóðfélagsástand á hinum Norðurlöndunum […]“.

Menningarsamningurinn byggist einnig á því markmiði að styrkja og efla samstarf landanna á sviði menningarmála. Samningurinn á að auka heildarárangur af fjárveitingum ríkjanna til menntunar, vísindarannsókna og annarrar menningarstarfsemi og tryggja að löndin starfi saman að því að þróa norræn menningartengsl, meðal annars með því að „[…] efla kennslu í tungumálum annarra Norðurlandaþjóða og fræðslu um menningu þeirra og þjóðfélagshætti […]“.

Í Tungumálayfirlýsingunni (Yfirlýsingu um málstefnu Norðurlanda) eru skilgreind áherslusvið sem Norðurlöndin eru sammála um að stefna að í tungumálastarfi heima fyrir. Yfirlýsingin markar þannig meginstefnu en löndin eiga hvert um sig að framfylgja þeirri hugsun sem býr að baki. Ólíkir hagsmunir landanna geta valdið því að þau leggja ekki alltaf áherslu á sömu atriðin samtímis. Þau málstefnusvið sem fjallað er um í yfirlýsingunni eru: Kennsla í skandinavískum málum sem grannmálum og erlendum málum, samhliða notkun ensku og undirstöðutungumála Norðurlanda, fjöltyngd samfélög og einstaklingar, og málnotkun yfirvalda (skýr málnotkun; sæ. klarspråklighet). Annað hvert ár skilar Norræna ráðherranefndin Norðurlandaráði skýrslu um það sem löndin hafa gert til að framfylgja tungumálayfirlýsingunni.

Til viðbótar við þá samninga sem nefndir hafa verið hefur einnig verið gerður norrænn tungumálasáttmáli. Sáttmálinn tók gildi árið 1987 og er lagalega bindandi fyrir öll norrænu ríkin fimm. Tungumálasáttmálanum er beint til ríkisstjórnanna og á að stuðla að því að almenningur á Norðurlöndum geti við ákveðnar aðstæður átt í samskiptum við yfirvöld í öðrum norrænum löndum á sínu eigin tungumáli. Ábyrgð á því að fylgja eftir og gæta ákvæða sáttmálans er í höndum yfirvalda í hverju landi og réttindi einstaklinga eru tryggð í landsbundinni löggjöf..

Þátttakendur

Samhæfing norræns samstarfs um tungumál í menntageiranum er í umsjón skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar og embættismannanefndin um menntun og rannsóknir (EK-U) er stýrihópur samstarfsins. Áætlun um tungumálanámskeið inniheldur ferns konar námskeið sem ætluð eru kennurum og kennara- og háskólanemum: Nordkurs, Nordsprog, námskeið Norrænu perlanna fyrir kennaranema og Nordiske Sprogpiloter. Námskeiðin eiga það sameiginlegt að áhersla er á norrænan tungumálaskilning og kunnáttu í og um tungumál og menningu Norðurlanda. Þá er um tvenns konar samstarfsnet að ræða: Samstarfsnet málnefnda á Norðurlöndum og samstarfsnet um táknmál á Norðurlöndum.

Styrkir til tungumálaverkefna

Ýmsir styrkir eru í boði fyrir tungumálaverkefni á Norðurlöndum.

Aðilar á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum geta sótt um styrki til Nordplus-áætlunarinnar.

Norræna menningargáttin er umsýslustofnun ýmissa styrkjakerfa menningargeirans. Mörg þeirra henta fyrir tungumálaverkefni. Þau eru:

  • Menningar- og listaáætlunin, sem veitir styrki til nýskapandi verkefna í fremstu röð og
  • Ferðastyrkjaáætlunin sem styrkir samstarfsverkefni milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

Menningar- og tungumálaverkefni sem börn og ungmenni taka beinan þátt í að skipuleggja og framkvæma, geta sótt um styrk hjá NORDBUK eða VOLT.

Í sumum tilvikum er hægt að sækja um styrki til tungumálaverkefna hjá Norræna menningarsjóðnum.

Framkvæmdaáætlun um Framtíðarsýn okkar 2030

Framkvæmdaáætlunin lýsir því hvernig Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar með röð verkefna sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Stefnumarkandi áherslurnar og markmiðin munu vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er í tólf hlutum og fjallar hver þeirra um eitt markmið.