Stjórnsýsluhindranahópur Norðurlandaráðs

Stjórnsýsluhindranahópurinn er starfshópur skipaður þingmönnum Norðurlandaráðs sem vilja beita sér fyrir málefnum er varða stjórnsýsluhindranir og frjálsa för á Norðurlöndum. Fulltrúarnir skulu leggja sig fram um að knýja á um málefni er varða afnám stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndum í heimalöndum sínum. Markmiðið er að allir flokkahópar, lönd, sjálfstjórnar- og landamærasvæði eigi fulltrúa í starfshópnum.

Stjórnsýsluhindranahópurinn er sjálfstæður og óháður starfshópur og verkefni hans er hreyfanleiki íbúa og atvinnulífs. Hópurinn á að leggja sitt af mörkum til norræns samstarfs með því að setja norræn málefni er varða stjórnsýsluhindranir á dagskrá í öllum þjóðþingum landanna í því skyni að skapa sem bestar forsendur fyrir íbúa og fyrirtæki á Norðurlöndum til að fara óheft milli Norðurlandanna.

Áhersla á almenna borgara og fyrirtæki

Markmiðið með vinnu stjórnsýsluhindranahópsins er að einfalda Norðurlandabúum að búa og starfa þvert á landamæri. Verkefni hópsins er bæði að vinna gegn stórum og víðfeðmum vandamálum á sviði hreyfanleika og áþreifanlegum smærri vandamálum sem einstaklingar og forráðamenn fyrirtækja standa frammi fyrir í daglegu lífi. 

Þegar þess gerist þörf er hópnum einnig ætlað að styðja Stjórnsýsluhindranaráð Norrænu ráðherranefndarinnar í starfi þess við að leysa úr og ryðja úr vegi tilteknum hindrunum fyrir frjálsri för á Norðurlöndum með því að beita þrýstingi á þingi í málum sem Stjórnsýsluhindranaráðið kemst ekki lengur áfram með. Hópurinn getur forgangsraðað málum sem lögð hafa verið til hliðar, gömlum hindrunum sem ekki hefur verið leyst úr en nauðsynlegt er að leysa til að ná fram framtíðarsýn forsætisráðherranna um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. 

Hópurinn á að gegna rannsóknarhlutverki með því að hafa eftirlit með norrænu samstarfi á grundvelli sjónarmiða um frjálsa för, jafnt á Norðurlöndunum í heild sem í hverju landi fyrir sig. 

Hópurinn getur einnig efnt til samtals við atvinnulífið og borgarasamfélagið til þess að knýja fram lausnir á aðstæðum sem hefta hreyfanleika en eru ekki að forræði opinberra aðila.

Jafnframt skulu fulltrúar Stjórnsýsluhindranahópsins vinna forvarnarstarf í þjóðþingum sínum til að koma í veg fyrir að nýjar stjórnsýsluhindranir verði til við setningu nýrra laga.