Atvinnumálaráðherrar fjárfesta í samstarfi á sviði ferðaþjónustu og sjálfbærri námuvinnslu

16.09.21 | Fréttir
Turister i Helsinki
Photographer
Benjamin Suomela / Norden.org
Norrænu atvinnumálaráðherrarnir munu verja 20 milljónum danskra króna í norræn samstarfsverkefni um ferðaþjónustu. Ráðherrarnir tóku þessa ákvörðum á fjarfundi fimmtudaginn 16. september. Á fundinum var einnig ákveðið að styrkja samstarf um sjálfbæra námuvinnslu- og framleiðslu á Norðurlöndum.

Upphæðin sem nú er fjárfest í ferðamennsku mun ganga til ýmissa norrænna samstarfsverkefna á árunum 2021–2024. Um er að ræða ákveðin verkefni sem meðal annars beinast að sjálfbærri ferðaþjónustu, upplýsingaskiptum, markaðssetningu, framleiðsluþróun með áherslu á menningartengda ferðaþjónustu og framsæknum stafrænum lausnum.

Fjárfestingin er afrakstur norrænu ferðaþjónustuáætlunarinnar fyrir árin 2019–2021 sem atvinnumálaráðherrarnir samþykktu árið 2019 og sem mun styðja við ferðaþjónustustefnu og -áætlanir landanna. Verkefnin eru hluti af framkvæmd ferðaþjónustuáætlunarinnar en fjárfestingin snýst einnig um að styðja við atvinnugrein sem hefur orðið illa fyrir barðinu á heimsfaraldrinum.

„Við reiknum með því að ferðalög og ferðaþjónusta komist að endingu aftur í samt horf eftir heimsfaraldurinn. En ferðaþjónustan stendur frammi fyrir gjörbreyttum markaði með nýjum ferðavenjum og nýjum kröfum frá viðskiptavinum. Það þýðir einnig að þörf er á annars konar aðgerðum og samstarfsleiðum, en markmið þessarar fjárfestingar er að styðja samstarfsverkefni sem við sjáum að muni nýtast Norðurlöndum,“ segir atvinnumálaráðherra Finnlands, Mika Lintilä, sem er formaður norrænna ráðherra ferðaþjónustu árið 2021.

Sjálfbær jarðefnavinnsla

Á fundi atvinnumálaráðherranna var einnig samþykkt að efla samstarf um sjálfbæra námuvinnslu til að tryggja að Norðurlönd geti að eins miklu leyti og hægt er sett á laggirnar aðfanga- og virðiskeðjur fyrir nauðsynleg hráefni. Bakgrunnurinn er að græn umskipti og sú mikla rafvæðing sem er framundan kalla á tækni sem krefst hráefna í miklum mæli.

Ráðherrarnir voru sammála um að þörf er á auknu samstarfi til að tryggja afhendingaröryggi hráefna. Einnig er þörf á auknu samstarfi innan hringrásarhagkerfis jarðefna, til dæmis á sviði rannsókna og nýsköpunar, um endurnotkun jarðefna og norræna hagsmuni innan ESB og á alþjóðavísu, þar á meðal Norðurslóðum. Um leið þarf málum að vera þannig háttað að önnur umhverfismarkmið séu tekin með í reikninginn á öllum stigum.

Ráðherrarnir samþykktu á fundi sínum yfirlýsingu um markmiðið að stuðla að norrænni samvinnu og sjálfbærum lausnum fyrir námugröft, vinnslu, framleiðslu og endurvinnslu hráefna. Í yfirlýsingunni segir að Norðurlönd þurfi meðal annars að fjárfesta í samstarfi og samræðum til að tryggja jafna, rekjanlega og ábyrga hráefnaöflun landanna.

Mikilvægt til að ná loflagsmarkmiðum

Hráefnaaðgengi er lykilatriði ef Norðurlönd ætla að ná metnaðarfullum markmiðum sínum í loftlagsmálum sem og háleitum markmiðum Græna sáttmálans og Fit for 55-áætlun ESB. Covid-19-heimsfaraldurinn hefur leitt í ljós hversu viðkvæm framleiðsla og afhending hráefnaiðnaðarins er og í framtíðinni má gera ráð fyrir enn harðari alþjóðlegri samkeppni eftir því sem lönd reyna að tryggja eigin þarfir.

Sjálfbær námuvinnsla er einnig mikilvægur hluti af því að uppfylla framtíðarsýnina um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.

Heimsfaraldurinn og áskoranir Norðuranda

Á fundinum var einnig rætt um áhrif heimsfaraldursins á atvinnulífið. Risto Siilasmaa, stofnandi og stjórnarformaður upplýsingatæknifyrirtækisins F-Secure, hélt ræðu sem gaf ráðherrunum innblástur fyrir umræður um áskoranir og tækifæri sem heimsfaraldurinn skapar fyrir fyrirtæki og hvað hann hefur í för með sér fyrir norrænt samstarf.