Yfirlýsing um sjálfbæra hráefnaöflun á Norðurlöndum

14.09.21 | Yfirlýsing
Við viljum tryggja sjálfbæra hráefnaöflun á Norðurlöndum

Upplýsingar

Samþykkt
16.09.2021
Staðsetning
Helsingfors

Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (IPCC) staðfestir í nýjustu skýrslu sinni að loftlagsbreytingar séu þegar hafnar og að neikvæð áhrif þeirra fari vaxandi. Metnaðarfyllri aðgerða er þörf sem fyrst um allan heim og Norðurlönd ættu að taka forystu í umskiptum yfir í sjálfbær og kolefnislaus hringrásarsamfélög. Baráttan gegn loftlagsbreytingum og græn umskipti krefjast mikillar rafvæðingar samfélagsins. Tæknilausnir eru til staðar en til að útfæra þær þarf mikilvæga málma og jarðefni. Fordæmalausar aðstæður í heiminum hafa sýnt að samfélagið er háð hráefnum sem eru nauðsynleg fyrir tæknina, svo sem sjaldgæfum jarðmálmum, vinnslu þeirra og virðiskeðjum afurðanna. Um leið þarf að taka önnur umhverfismarkmið með í reikninginn á öllum stigum.

 

Þann 25. júní 2020 kynnti forsætisráðherrann Sanna Marin framlag Finnlands til norræns samstarfs um neyðarviðbúnað fyrir hinum norrænu forsætisráðherrunum. Finnland mun vinna að neyðarviðbúnaði og viðbragðsaðgerðum í formennsku sinni á ýmsum norrænum samstarfsvettvangi árið 2021. Sjálfbær og ábyrg hráefnaöflun er ein af grunnstoðum öruggs samfélags.

 

Norrænar rannsóknarstofnanir hafa safnað upplýsingum um jarðefnabirgðir, framleiðslu og þörf á hráefnum innan landanna. Aðrir mögulegir hráefnagjafar hafa einnig verið greindir. Þannig er búið að greina bæði upplýsingaþörf og þarfir innan rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Við viljum að Norðurlönd fjárfesti í samstarfi og samræðum sem og framsýnum upplýsingum til að tryggja jafna, rekjanlega og ábyrga hráefnaöflun landanna. Löndin þurfa einnig að geta undirbúið sig fyrir áskoranir í tæka tíð. Hinar ýmsu stofnanir á Norðurlöndum búa yfir mikilli þekkingu sem hægt er að nýta í ýmiss konar samstarfi til að efla sjálfbærar lausnir og aðferðir. Norðurlönd hafa tækifæri til að vera í fararbroddi og styðja alþjóðlega staðla og vottunarkerfi.

 

Samkvæmt spám mun hráefnaþörf heimsins tvöfaldast fram að árinu 2060 og sjálfbær hráefnaöflun er um leið háð framgangi hringrásarhagkerfa. Norðurlönd verða að leggja áherslu á hringarásarhagkerfi. Við þurfum að uppfylla þarfir okkar með betri auðlindanýtingu og nota minna til að ná lengra.

 

Í sjálfbæru hringrásarhagkerfi þarf stöðugt að vera samtal milli einkaaðila og hins opinbera og á ólíkum skipulagsstigum. Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar hefur það verkefni innan ramma ráðherranefndarinnar að tryggja að markvissar samræður og upplýsingaskipti eigi sér stað milli Norðurlanda með langtímasjónarmið í huga.