Norðurlönd eiga að hafa líffræðilega fjölbreytni að leiðarljósi við uppbyggingu vindorkuvera á hafi úti

02.11.23 | Fréttir
havsbaserad vindkraft
Photographer
Pramod Kumar Sharma/Unsplash
Norðurlönd eiga að sýna með fordæmi sínu að hægt sé að byggja upp vindorkuver á hafi úti án árekstra við nærsamfélagið eða líffræðilega fjölbreytni. Þetta er álit sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs.

„Norðurlönd verða að taka sér forystuhlutverk þegar kemur að uppbyggingu vindorkuvera á hafi úti um leið og við tryggjum fiskveiðar og verndum náttúruna,“ segir Ola Elvestuen, formaður norrænu sjálfbærninefndarinnar.

Mörg norrænu landanna skoða nú möguleikann á að byggja upp vindorkuver á hafinu til þess að geta flýtt fyrir orkuskiptum.

Víða standa seinvirk leyfiskerfi, tæknileg vandamál og öryggis- og umhverfismál í vegi fyrir uppbyggingunni.

Þörf á hraðri uppbyggingu

Norræna sjálfbærninefndin hefur lengi unnið að lausn þess hvernig norrænu löndin geti unnið betur saman í tengslum við uppbyggingu vindorkuvera á hafi úti.

Meðal annars snýst málið um hafskipulag, að tryggja líffræðilega fjölbreytni og að miðla reynslu af leyfisveitingarferlum.

Vill ekki draga úr kröfum um umhverfisvernd

Seinvirkt leyfiskerfi er einnig ein af ástæðum þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði nýlega fram nýjan aðgerðapakka til stuðnings við vindorkuiðnaðinn í Evrópu sem einnig sætir mikilli samkeppni frá Kína.

Eigi markmið Evrópusambandsins um að minnsta kosti 42,5 prósent endurnýjanlega orku að nást þarf mikla aukningu á vindorku og ein af aðgerðum framkvæmdastjórnarinnar felst í stafrænu og miðlægu leyfisveitingaferli.

Á fundi sínum á þingi Norðurlandaráðs var nefndin sammála um að samræma þurfi leyfisveitingarferlið án þess að slegið yrði af kröfum varðandi umhverfismál.

Margs konar hagsmunir skarast

Sú aukning á virkjun vindorku á hafi úti sem fyrirhuguð er getur valdið auknu álagi á hafsumhverfi og keppt um pláss við siglingaumferð, fiskeldi og ferðaþjónustu.

Þörf er á nýjum lausnum til að forðast að lausnir í loftslagsmálum hafi neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni og til að lágmarka árekstra ólíkra hagsmuna og afla stuðnings við vindorku hjá almenningi.

Stuðningur almennings skiptir miklu máli

Norræna sjálfbærninefndin hefur átt samráð við norrænu þekkingar- og menningarnefndina um það hvernig efla megi rannsóknir-, þróun- og nýsköpun í norrænum háskólum.

Báðar nefndirnar eru jafnframt sammála um að stuðningur almennings sé lykilþáttur í grænu umskiptunum.

„Ég verð ánægður ef nefndin getur stuðlað að framþróun þegar kemur að því að takast á við hugsanleg neikvæð áhrif af uppbyggingu vindorkuiðnaðar. Forsenda þess að Norrænt frelsi sé jákvætt gagnvart málinu er að tekið verði tillit til áhrifanna og komist verði hjá neikvæðum umhverfisáhrifum og ég held að það sé jafnframt forsenda fyrir stuðningi almennings,“ segir Staffan Eklöv, sænskur þingmaður sem á sæti í sjálfbærninefndinni.

 


Nefndin vill einnig auka samvinnu á milli norrænna orkuveitufyrirtækja í tengslum við samræmd norræn dreifikerfi.

Næsta mun Norðurlandaráð í heild sinni fjalla um tillöguna í þingsal.