Ekki sannanir fyrir því að samfélagsmiðlar séu skaðlegir ungu fólki

11.06.19 | Fréttir
Liggende pike
Photographer
Zulmaury Saavedra / Unsplash
Viðteknar fullyrðingar um skaðleg áhrif samfélagsmiðla á ungt fólk eru hraktar í nýrri skýrslu. Vísindamennirnir sem eru höfundar skýrslunnar telja að ungu fólki sem líður vel í lífinu almennt líði einnig vel á samfélagsmiðlum. Bæði vísindamenn og fjölmiðlar hafa tilhneigingu til þess að steypa alla í sama mót. Í skýrslunni er fullyrt að þannig verði goðsagnir til.

Ungt fólk á Norðurlöndum eru stórnotendur samfélagsmiðla. Umræðan snýst oft um að unga fólkið sé of mikið á samfélagsmiðlum og að andleg heilsa þeirra geti borið skaða af því. Bæði vísindamenn og fjölmiðlar hafa tilhneigingu til þess að steypa alla í sama mót. Þannig verða goðsagnir til. Þess vegna vantar okkur meiri upplýsingar og blæbrigði að mati hóps norrænna vísindamanna.

Skýrslan #StyrPåSoMe – Er sosiale medier faktisk en trussel for unges trivsel en unnin af Institut for Lykkeforskning eftir pöntun Norrænu ráðherranefndarinnar og þar er skoðað nánar hvort samband sé milli andlegrar heilsu ungs fólks og notkunar þeirra á samfélagsmiðlum.

„Samtalið um líðan í tengslum við samfélagsmiðla verður oft að baráttu milli þeirra sem hafa sérstakan áhuga á tækni og hinna sem hræðast hana. Okkur vantar meiri blæbrigði,“ segir Anne Mette Thorhauge, lektor við Institut for Medier, Erkendelse og Formidling við Kaupmannahafnarháskóla.

Samtalið um líðan í tengslum við samfélagsmiðla verður oft að baráttu milli þeirra sem hafa sérstakan áhuga á tækni og hinna sem hræðast hana. Okkur vantar meiri blæbrigði.

Anne Mette Thorhauge, lektor við Kaupmannahafnarháskóla

Meginniðurstaða skýrslunnar er að samfélagsmiðlar einir skipta ekki sköpum fyrir líðan ungs fólks. Útskýra má niðurstöðuna með því að notkun ungs fólks á samfélagsmiðlum endurspegli félagslegt líf þeirra og líðan að öðru leyti. Vísindamennirnir telja sig geta sýnt fram á að ungu fólki sem líður vel í lífinu almennt líði einnig vel á samfélagsmiðlum.

„Þegar um er að ræða ungt fólk er ekki hægt að aðskilja félagslegt líf þess og lífið á samfélagsmiðlum. Þetta er órofa tengt,“ segir Laura Sillanpää, félagsfræðingur hjá Sällskapet för mediefostran.

Þegar um er að ræða ungt fólk er ekki hægt að aðskilja félagslegt líf þess og lífið á samfélagsmiðlum. Þetta er órofa tengt.

Laura Sillanpää, félagsfræðingur hjá Sällskapet för mediefostran

Erum við komin með öll svörin?

Í skýrslunni er ekki að finna leiðbeiningar varðandi það hversu löngum tíma heppilegt sé talið að ungt fólk verji á samfélagsmiðlum. Höfundar hennar eru sannfærðir um að ekki séu enn fyrir hendi nægilega nákvæm gögn um það hvernig ungt fólk ver tíma sínum til þess að hægt sé að álykta um það hvort skjátíminn sé í sjálfu sér skaðlegur.

Aðalhöfundur skýrslunnar, Michael Birkjær frá Institut for Lykkeforskning mælir hins vegar með því að við látum ógert að kenna samfélagsmiðlum um vanlíðan ungs fólks. Hann telur að þess í stað eigi að líta til þeirra vandamála sem ungt fólk glímir við og snúa að einmanaleika og skorti á stuðningi frá foreldrum og birtast í notkun á samfélagsmiðlum.

„Mikilvægast er að átta sig á því að ungt fólk aðskilur ekki líf sitt á samfélagsmiðlum frá félagslegu lífi sínu að öðru leyti. Það er einmitt þetta sem við sjáum í rannsókninni. Þetta er atriði sem margir af eldri kynslóðum hafa ekki áttað sig á og þess vegna verðum við að breyta áherslum: Við verðum að skoða með nákvæmari hætti hver það eru sem nota samfélagsmiðla, hvernig þau nota þá og hvaða miðla þau nota. Einungis þannig getum við hjálpað því unga fólki sem líður verulega illa,“ segir Michael Birkjær að lokum

Við verðum að hætta að kenna samfélagsmiðlum um vanlíðan ungs fólks. Þess í stað verðum við að líta til þeirra vandamála sem ungt fólk glímir við og snúa að einmanaleika og skorti á stuðningi frá foreldrum. 

Michael Birkjær, sérfræðingur á Institut for Lykkeforskning