„Norræna ráðherranefndin er sterkt afl þegar kemur að umskiptum á Norðurlöndum“

26.06.23 | Fréttir
statsministrar
Photographer
Bigs Gunnarsson
Norræna ráðherranefndin er tilbúin til þess að verða enn öflugra verkfæri í höndum ráðherranna í tengslum við umskipti Norðurlanda í átt til þess að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Þetta sagði Karen Ellemann, framkvæmdastjóri ráðherranefndarinnar, þegar hún fundaði með norrænu forsætisráðherrunum í Vestmannaeyjum á mánudag.

Loftslagsmálin, stríðið í Úkraínu, viðbúnaðarmál og mikilvægi hafsins fyrir sjálfbæra þróun voru á meðal margra mála sem norrænu forsætisráðherrarnir ræddu á sumarfundi sínum undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands sem í ár gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

 

Karen Ellemann, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, var boðið til fundarins til þess að leggja ásamt forsætisráðherrunum drög að áframhaldandi vinnu að því að koma Norðurlöndum í fremstu röð þegar kemur að sjálfbærni fyrir árið 2030. 

 

„Við verðum að gera betur“

„Loftslagsbreytingar og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika eru eitt af brýnustu verkefnunum sem við stöndum frammi fyrir. Norðurlöndin hafa sett fram skýra sýn um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims og á þeim grunni hafa áherslur Íslands á formennskuárinu byggt. Rannsóknir vísindamanna sýna með skýrum hætti hver staðan er og við þurfum að gera betur og vinna hraðar til þess að ná markmiðum okkar,“ segir Katrín Jakobsdóttir og bætir við:

 

„Verkefnið er umfangsmikið en um það ríkir einhugur meðal Norðurlandanna og ég er þess fullviss að við á Norðurlöndum höfum getu og vilja til þess að ná nauðsynlegum árangri.“

Umskiptin ganga of hægt

Nýútkomin áfangaskýrsla um vinnuna að framtíðarsýninni sýnir að grænu umskiptin eru of skammt á veg komin á Norðurlöndum.

Of hægt gengur að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og neysla Norðurlandabúa er enn ósjálfbær. Vernda þarf fleiri hafsvæði og fiskistofnar í Norður-Íshafi og Barentshafi fara minnkandi.

Norræna ráðherranefndin er sterkt afl

Karen Ellemann, sem stýrir starfi Norrænu ráðherranefndarinnar við að hámarka áhrif framtíðarsýnarinnar, bindur vonir við að traustara umboð skili sér í enn skýrari árangri.

 

„Norræna ráðherranefndin er sterkt afl. Styrkur okkar felst í því að fá almenning, fyrirtæki, borgarasamfélagið, vísindamenn og stjórnvöld á öllum Norðurlöndum til að vinna saman að því að finna lausnir á helstu áskorunum samfélagsins. Það er lykillinn að því að uppfylla framtíðarsýnina,“ sagði Karen Ellemann.

Norrænu næringarráðleggingarnar dæmi um árangurinn

Karen Ellemann nefndi Norrænu næringarráðleggingarnar, sem kynntar voru á Íslandi fyrr í vikunni, sem nýlegt dæmi um það hvernig norrænt samstarf getur stuðlað að auknu heilbrigði fyrir bæði fólk og umhverfið og um leið lagt línurnar í einu stærsta politíska máli samtímans.

Norðurlönd vinna með Kanada

Sem formennskuland bauð Ísland jafnframt Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, til fundarins. Norrænu forsætisráðherrarnir og Justin Trudeau ræddu öryggisógnir og sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu.