Ný skýrsla: Staðlaðar kynjahugmyndir eru áskorun í tengslum við grænu umskiptin

28.11.22 | Fréttir
Mann i butikk
Photographer
Johnér
Norræna upplýsingaveitan um kynjafræði, NIKK, gefur skýrsluna út en hún inniheldur stærstu kortlagninguna til þessa á sambandi kynjahugmynda og loftslagsáhrifa þvert á norrænu löndin. Meðal þess sem hún sýnir er að aukin áhersla á umönnun getur verið mikilvægur þáttur í grænum umskiptum.

Matar-, ferða- og neysluvenjur okkar eru stór áhrifaþáttur loftslagsbreytinga í norrænulöndunum. Það hafa fjölmargar rannsóknir sýnt. En það er aðeins nýlega sem bent hefur verið á að kynjahugmyndir okkar hafa einnig áhrif á vistspor okkar. Þess vegna hóf norrænt samstarf fyrr á árinu verkefni sem ætlað var að varpa ljósi á einumitt þetta og nú er skýrslan komin.

Í henni er skoðað hvernig hefðbundnar staðalmyndir hafa áhrif á neyslu okkar og lífsstíl. Þannig stuðlar skýrslan að betri skilningi á því hvernig kynjamunur verður til og er endurskapaður. Jafnframt er fjallað um þýðingu staðalmynda þegar kemur að fúsleika almennings á Norðurlöndum til að breyta neysluvenjum sínum í þágu loftslagsins.

Hugmyndir og venjur hafa áhrif á loftslagið

„Sé litið til hópa má sjá greinilegan mun á milli karla og kvenna sem kemur ekki sérstaklega á óvart. Til dæmis borða karlar að jafnaði meira kjöt en konur og við vitum að kjötneysla hefur meiri neikvæð áhrif á loftslagið en matvæli unnin úr plöntum. En auk þess sýnir greining okkar að venjur og hugmyndir eru hér undirliggjandi þáttur, frekar en kyn í sjálfu sér. Það er að segja að karlar sem vilja teljast „sannir karlmenn“ borða meira kjöt. Á hinn bóginn leiðir dæmigerð kvenleg líkamsímynd frekar til grænmetismataræðis sem þarf ekki endilega að vera tengt við umhyggju fyrir loftslaginu,“ segir Jimmy Sand, höfundur skýrslunnar og greinandi hjá NIKK og háskólanum í Gautaborg.

Niðurstöður skýrslunnar benda því til þess að samhengi sé á milli neysluhegðunar okkar og þeirra venja og hugmynda sem skiptir hvert og eitt okkar mestu máli. Kortlagningin bendir einkum til þess að við höfum tilhneigingu til þess að láta staðlaðar hugmyndir í tengslum við umönnun og tækniáhuga hafa áhrif á okkur og að þessi svið séu oft tengd við annars vegar kvenleika og hins vegar karlmennsku. Þessar hugmyndir leiða síðar til meiri eða minni áhrifa hvers einstaklings á loftslagið. Samkvæmt kortlagningunni láta konur sem hópur sig sjálfbærni meira varða en karlar og meta jafnframt umönnun meira en karlar og verja meiri tíma til hennar.

Niðurstöður skýrslunnar benda hins vegar til þess að tengja megi áhuga á sjálfbærni við þá einstaklinga, óháð kyni, sem bera meginábyrgð á daglegum húsverkum og umönnun og sem jafnframt álíta það mikilvæga vinnu.

„Loftslag, kyn og neysla – rannsókn á kynjasjónarmiðum til sjálfbærs lífsstíls“

Umönnun ýtir undir sjálfbæran lífsstíl – bæði hjá körlum og konum

Þetta þýðir þó ekki að allar konur séu sjálfkrafa hlynntari sjálfbærum umskiptum. Niðurstöður skýrslunnar benda hins vegar til þess að tengja megi áhuga á sjálfbærni við þá einstaklinga, óháð kyni, sem bera meginábyrgð á daglegum húsverkum og umönnun og sem jafnframt álíta það mikilvæga vinnu. Þetta má t.d. sjá á samgönguvenjum okkar í norrænu löndunum. Sá einstaklingur innan fjölskyldunnar sem vinnur hlutastarf eða sem ber t.d. ábyrgð á að skutla og sækja börn og sjá um dagleg innkaup til heimilisins notar oftar almenningssamgöngur en þeir sem eru fullri vinnu hafa tilhneigingu til að ferðast frekar beint á milli heimilis og vinnustaðar, oft með bíl.

„Kortlagningin hefur leitt í ljós að kyn hefur í sjálfu sér ekki endilega úrslitaáhrif. Í þeim tilvikum þegar karlar hafa verið drifkrafturinn í sjálfbærum umskiptum innan fjölskyldunnar hafa það jafnframt verið þeir sem bera mesta ábyrgð á heimilinu,“ segir Jimmy Sand.

 

Framtíðarsýn okkar 2030: Hvernig getum við gert það kleift að lifa sjálfbæru lífi í norrænu löndunum?

Markmið 12 í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, ábyrg neysla og framleiðsla, er nefnt sem eitt þeirra sviða sem Norðurlönd standa helst frammi fyrir áskorunum á í tengslum við sjálfbæra þróun. Þetta er jafnframt það sem verkefnið „Sjálfbær lífsstíll“ sem Norræna ráðherranefndin fjármagnar, snýst um.

Í skýrslunni „Climate, Gender and Consumption: A research overview of gender perspectives on sustainable lifestyles“ (Loftslag, kyn og neysla – rannsókn á kynjasjónarmiðum til sjálfbærs lífsstíls) sem gefin er út af NIKK er fjallað um stöðu mála í alþjóðlegum rannsóknum á sjö mismunandi sviðum er varða: Matvæli, húsnæðis- og orkumál, fatnað og neysluvörur, samgöngur, vinnu og tímanotkun, menningu og ferðaþjónustu, og aktívisma og áhrif.