Sjálfbærninefndin: Rannsakið hættuna af plastögnum í líkamanum!

15.09.20 | Fréttir
Plastskräp på strand
Ljósmyndari
Jasmin Sessler/Unsplash
Þær er að finna í bjór, skelfiski, salti og hunangi. Örsmáar agnir af plasti, svokallað örplast. Afla verður þekkingar um það á norrænum vettvangi hversu mikið örplast berst í líkama fólks og hvaða áhrif það hefur á heilsu okkar. Svo hljóðar krafa norrænu sjálfbærninefndarinnar.

„Ég vil ekki taka áhættuna á því að við upplifum skaðann af örplasti eftir 50 ár. Skaða sem við sáum ekki fyrir vegna skorts á þekkingu,“ segir Emilia Töyrä (s), nefndarfulltrúi frá Svíþjóð.

Tilmæli til ríkisstjórna

Hún og aðrir fulltrúar flokkahóps jafnaðarmanna lögðu fram tillöguna sem sjálfbærninefndin stendur nú öll á bak við. Nefndin sendi ríkisstjórnum Norðurlanda tilmæli um að rannsaka í hve miklu magni örplast berst í líkama fólks og hver áhrif þess eru.

„Það er vel þekkt hversu menguð heimshöfin eru af plasti og því miður er sömu sögu að segja á Norðurslóðum. Við lifum á fiski og fiskútflutningi og því er mjög mikilvægt að rannsaka magn og áhrif mengunarinnar bæði á auðlindir hafsins og á fólkið sem lifir á þeim. Okkur liggur á,“ segir Sofia Geisler (IA), fulltrúi sjálfbærninefndarinnar frá Grænlandi.

 

Skortur á þekkingu er vandamál

Í dag vita matvælayfirvöld á Norðurlöndum ekki til þess að heilsu manna stafi hætta af örplasti sem finnst í mat og drykk.En yfirvöld benda á að þörf sé á aukinni þekkingu á áhrifum örplasts á fólk og umhverfið.Ljóst er að við niðurbrot plasts myndast bæði örplast og nanóagnir sem berast í loft, náttúru, sjó og vötn og þaðan í matvæli.

Vísindamenn sátu fundinn

Annar þáttur sem verið hefur til umræðu er hvort örplast geti borið með sér sýkla eða kemísk efni.Sjálfbærninefndin hafði boðið vísindamönnunum Tönju Kögel frá norsku hafrannsóknarstofnuninni í Björgvin og Nönnu Hartmann frá Tækniháskólanum í Danmörku á septemberfund sinn. Staðfestu þær að þörf væri á betri þekkingu á áhrifum örplasts á umhverfi og heilsu.

 

Plastáætlunin

Norræna ráðherranefndin vinnur einnig að því að draga úr umhverfisáhrifum plasts með áætlun sem stendur frá 2017–2020. Hún gengur meðal annars út á fyrirbyggjandi aðgerðir, að auka endurvinnslu plastúrgangs, vinna saman gegn mengun í hafi og að auka þekkingu á örplasti í umhverfinu.