Skrefi nær norrænum sjóði æskunnar fyrir líffræðilega fjölbreytni og loftslagsmál

04.11.21 | Fréttir
ungdomar demonstrerar utanför folketinget
Ljósmyndari
Scanpix
Mikill norrænn þingstuðningur er fyrir stofnun norræns sjóðs æskunnar fyrir líffræðilega fjölbreytni og loftslagsmál. Norðurlandaráð samþykkti tillöguna sem verður nú tekin til skoðunar hjá ráðherranefndinni.

Tillagan felur í sér stofnun sjóðs á norrænum vettvangi til stuðnings þátttöku ungs fólks í loflagsmálum og málefnum líffræðilegrar fjölbreytni. Ungt fólk þarf að geta sótt fjármuni úr sjóðnum fyrir samnorræn verkefni, verkefni sem þróa hugvitsamlegar lausnir og sem stuðla að uppfyllingu Parísarsamkomulagsins og samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Ungt fólk þarf að geta haft áhrif

„Markmið okkar er að skapa betri tækifæri fyrir ungt fólk til að hafa áhrif í málefnum líffræðilegar fjölbreytni og loftlagsmálum, sem er í raun ein leið til að flýta fyrir grænum umskiptum. Það er gríðarlega mikið gleðiefni að þessi tillaga hafi hlotið stuðning og ég vona að hún verði áfram í forgangi í norrænu samtarfi,“ segir Magnus Ek, sænskur formaður Norrænu sjálfbærninefndarinnar.

Áhuginn kannaður

Tillagan var lögð fram í sjálfbærninefndinni og á árinu hafa Norðurlandaráð æskunnar og nefndin skoðað hugmyndina og kannað áhuga fyrir henni hjá norrænum æskulýðssamtökum. Æskulýðssamtökin hafa viljað tryggja að ungt fólk geti einnig stýrt og stjórnað sjóðnum.

„Við hjá Norðurlandaráði æskunnar höfum unnið hörðum höndum að því að skapa raunveruleg tækifæri fyrir ungmenni til að það geti verið hluti af lausninni á loftlagsvandanum. Hugmyndin með sjóðnum er að vinna með sýn ungs fólks á það hvernig fyrirbyggja má loftlagsvandann og aðlaga samfélagið að áhrifum hans,“ segir Rasmus Emborg, forseti Norðurlandaráðs æskunnar.

„Fyrir okkur í Norðurlandaráði æskunnar er bráðnauðsynlegt að í norrænu samstarfi framtíðarinnar verði ekki einungis rætt um hvernig virkja megi ungt fólk eða verkefni sett af stað fyrir ungmenni, heldur viljum við fá að vera fremst í rútunni og fá raunveruleg áhrif í norrænu samstarfi um loftlagsmál og líffræðilega fjölbreytni,“ bætir hann við.

Fjármögnunar leitað

Nú sendir Norðurlandaráð tillögu sína áfram til ráðherranefndarinnar. Ráðið vonast til þess að sjóðurinn verði stofnaður með samstarfi ráðsins, ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs æskunnar og vill að fjármögnunin komi bæði frá norrænu ríkisstjórnunum, sjóðum og einkageiranum.

Jákvæð viðbrögð

Í fjárhagsáætlun ársins 2022, sem samþykkt var af Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni, hefur 800.000 dönskum krónum verið úthlutað til undirbúnings og að endingu stofnunar norræns sjóðs æskunnar, þ.e. ef ráðherranefndin styður tillöguna og sjálfbær fjármögnun finnst. Norræna sjálfbærninefndin gaf sér tíma til að ræða um tillöguna við norrænu umhverfisráðherrana á samráðsfundi á þinginu í Kaupmannahöfn: Fyrstu viðbrögð margra ráðherra gagnvart tillögunni voru jákvæð.

Nýtist til að efla raddir ungs fólks í alþjóðasamhengi

„Þetta er mikilvæg tillaga og ef hún verður að raunveruleika tel ég að sjóðurinn nýtist til þess að raddir ungra Norðurlandabúa sem láta sig loftlagsmál varða heyrist betur allan heim. Á sama hátt verður staða okkar, norrænu ríkisstjórnanna, mun betri í alþjóðlegum viðræðum ef við vinnum saman að sameiginlegri norrænni stefnu,“ sagði Krista Mikkonen, umhverfis- og loftlagsráðherra Finnlands.

Tryggð fjármögnun er krafa unga fólksins

Norrænt samstarfsnet ungmenna fyrir líffræðilega fjölbreytni hefur með stuðningi norræna samstarfsins sett fram 19 kröfur sem eiga að koma líffræðilegri fjölbreytni til bjargar. 3000 ungir Norðurlandabúar tóku þátt í að þróa kröfurnar sem verða birtar í afstöðugreininni „Nordic Youth Position Paper“ og sem framlag til viðræðna Sameinuðu þjóðanna um ný alheimsmarkmið fyrir líffræðilega fjölbreytni. Ein af kröfunum er að tryggja fjármögnun til að nýta áhuga ungmenna og auka áhrif þeirra.