Renewcell hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2023

31.10.23 | Fréttir
Renewcell vinder Nordisk Råds miljøpris 2023

Renewcell vinder Nordisk Råds miljøpris 2023

Ljósmyndari
Magnus Fröderberg, norden.org
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2023 hlýtur Renewcell frá Svíþjóð fyrir tímamótaaðferð til að endurvinna textílúrgang og skapa úr honum nýjan fatnað og aðra textílvöru.

Renewcell er eitt fremsta fyrirtæki heims á sviði sjálfbærra tæknilausna. Fyrirtækið safnar saman textílúrgangi og endurvinnur úr honum hið einkaleyfisvarða textílefni Circulose®, sem hægt er að framleiða úr nýjan fatnað. Eins og stendur er vara Renewcell eina textílefnið af háum gæðum sem hægt er að endurvinna úr textílúrgangi á stórum skala.

 

Fulltrúi sænska fyrirtækisins veitti verðlaununum viðtöku við verðlaunaathöfn Norðurlandaráðs á þriðjudagskvöld. Norsku krónprinshjónin afhentu verðlaunin. Verðlauunum fylgir 300 þúsund danskar krónur.

Innleiðir hringrásarhugsun í tískuiðnaði

Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2023 er sjálfbær framleiðsla og notkun á textíl. Með þemanu vill dómnefndin beina sjónum að því hvernig Norðurlönd geta verið í fararbroddi í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru í virðiskeðju textíls og stuðlað um leið að hringrásarhugsun í tískubransanum.

 

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir verðlaunahafa ársins segir meðal annars: „Staðan er sú að við verðum fyrst og fremst að draga úr neyslu, en einnig að lengja líftíma textíls og innleiða viðskiptalíkön byggð á hringrásarhugsun. Aðferð Renewcell markar tímamót í því að endurvinna textílúrgang og skapa úr honum nýjan textíl, og getur gegnt mikilvægu hlutverki við að loka hringnum innan textíliðnaðarins og gera hringrásargrundvallaðan tískuiðnað mögulegan.“


Alls voru sjö verkefni tilnefnd til verðlaunanna í ár.

 

Um þema ársins

Textíliðnaðurinn stendur frammi fyrir margs konar úrlausnarefnum, bæði félagslegum og umhverfis- og loftslagstengdum. Sjálfbær framleiðsla á textíl og aukin meðvitund um notkun hans á Norðurlöndum getur stuðlað að framþróun á heimsvísu. Það viðskiptalíkan sem er allsráðandi við framleiðslu og notkun á textíl byggist jafnan á hraðtísku, vörum sem eru af lágum gæðum og aukinni neyslu. Mannréttindi eru oft fótum troðin við textílframleiðslu og vinnuafl illa launað. Hin margþættu og kerfisbundnu vandamál textíl- og fataiðnaðarins kalla á margvíslegar breytingar, og það frá mörgum hlutaðeigandi.

Um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum. Hver sem er getur sent inn tillögur að tilnefningum. Umhverfisverðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem öðrum til eftirbreytni hefur tekist að samþætta umhverfissjónarmið starfsemi sinni eða framtaki eða á annan hátt lyft grettistaki í þágu umhverfisverndar. Verðlaunin nema 300 þúsundum danskra króna.