Ungar fyrirmyndir í loftslagsmálum kalla eftir aðgerðum

08.07.19 | Fréttir
Ungdom på konferansen Youth Leading a Sustainable Lifestyle på Island i april.

Ungdom på konferansen Youth Leading a Sustainable Lifestyle på Island i april.  

Ljósmyndari
Norden.org

Ungt fólk á ráðstefnunni Youth Leading a Sustainable Lifestyle á Íslandi í apríl.

Þau eru ung, þau eru áhugasöm, þau taka málin föstum tökum og vísa veginn að breyttu neyslumynstri og lífsstíl, en ný rannsókn leiðir í ljós að þeim finnst norrænt stjórnmálafólk gera of lítið til að auðvelda almenningi að lifa á sjálfbærari hátt. Norræn ungmenni vilja aðgerðir núna.

Í nýrri norrænni rannsókn sem var liður í 2030-kynslóðinni, sjálfbærniáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, kemur fram að ungmenni í norrænu löndunum hafi mikinn vilja til að breyta lífsstíl sínum og neyslumynstri til að draga úr loftslagsspori af eigin völdum og samfélagsins.

„Þetta byrjaði allt þegar ég var ellefu ára. Ég fylltist loftslagskvíða og fannst mér bera skylda til að bjarga heiminum – ellefu ára gamalli stelpu!“ segir hin finnska Julia Degerth, sem er 25 ára og ein sautján fyrirmyndarungmenna sem rætt var við í tengslum við rannnsóknina.

Um rannsóknina

Rannsakendur skoðuðu sýn norrænna ungmenna milli 13 og 29 ára á tólfta sjálfbærnimarkmið SÞ um sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur og þýðingu þess fyrir uppfyllingu þrettánda markmiðsins um bráðaaðgerðir gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra – tvær stórar og samtengdar áskoranir sem Norðurlönd standa frammi fyrir.

Lesið meira um Norðurlönd og tólfta sjálfbærnimarkmiðið

Greiningin er byggð á megindlegri spurningakönnun sem 1.211 svöruðu, og eigindlegri rannsókn þar sem ítarleg viðtöl voru tekin við 17 ungar fyrirmyndir í sjálfbærum lífsstíl í norrænu löndunum.

Greiningin var unnin af ráðgjafarfyrirtækinu Naboskap fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar og áætlunarinnar „2030-kynslóðin“, sem miðar að því að hrinda hinum 17 sjálfbærnimarkmiðum SÞ í framkvæmd á Norðurlöndum og fræða almenning um þau, með sérstakri áherslu á tólfta markmiðið um sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur.

Halið niður greiningunni „Nordic Youth as sustainable changemakers“

Nánari upplýsingar um áætlunina „2030-kynslóðin“

Algengustu skrefin sem ungt fólk tekur í átt að sjálfbærara líferni er að flokka eigið rusl (84 prósent), draga úr matarsóun (78 prósent), versla minna (64 prósent) og forðast að nota einnota plast (60 prósent). 

En þau vilja gera svo miklu meira.

Áhyggjufull en reiðubúin til aðgerða

Norræn ungmenni eru reiðubúin að breyta högum sínum umtalsvert til að leggja sitt af mörkum svo um muni í umskiptunum til sjálfbærs samfélags.  

83 prósent aðspurðra sögðust afar reiðubúin til að leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar. Unga fólkið er nefnilega áhyggjufullt. 89 prósent sögðust afar uggandi um framtíðina vegna ástandsins í loftslags- og umhverfismálum.

„Ég held að flest fólk eigi erfitt með að tileinka sér sjálfbæran lífsstíl vegna þess hve sterk hefð er í samfélagi okkar fyrir ofneyslu og því að kaupa stöðugt nýja hluti. Ég held að það sé mikilvægt að koma ekki inn sektarkennd hjá fólki og tel árangursríkara að sýna hvað það getur verið skemmtilegt og hvetjandi að lifa á sjálfbærari hátt,“ segir Tess Waltenburg frá Svíþjóð, sem er 26 ára.

Svekkt út í stjórnmálafólkið

Rannsóknin sýnir jafnframt að norrænum ungmennum þykir svekkjandi að norrænu löndin skuli ekki vera betur í stakk búin fyrir sjálfbærari neyslu en raun ber vitni. 48 prósent svara að þeim finnist erfitt að lifa sjálfbærum lífsstíl. Aðeins 26 prósent segja það auðvelt.

Svo virðist sem helsti vandinn felist ekki í peningum eða upplýsingum heldur aðgengi að sjálfbærum neysluvörum, auk skorts á vottunum, pólitískum umbótum og reglugerðum.

„Það er mótsagnakennt að stjórnmálafólk tali stöðugt um loftslagsbreytingar sem stærstu áskorun mannkyns en haldi jafnframt áfram að gera það sem veldur þessum breytingum til að byrja með,“ segir hinn 23ja ára gamli Gaute Eiterjord frá Noregi.

Allir verða að grípa til aðgerða

Norrænu ungmennin telja að ábyrgðin á því að grípa til aðgerða liggi hjá almenningi, stjórnmálafólki og atvinnulífi, en að stjórnmálafólk og stór alþjóðleg fyrirtæki beri þó sérstaka ábyrgð. Þau eru almennt óánægð með skortinn á pólitískum aðgerðum og krefjast metnaðarfyllri og róttækari breytinga sem fyrst, samkvæmt rannsókninni.

Norræna ráðherranefndin mun meðal annars kynna niðurstöður rannsóknarinnar á viðburði Sameinuðu þjóðanna undir yfirskriftinni High-level Political Forum on Sustainable Development (HLPF) í New York þann 16. júlí.

„Það er afar hvetjandi að sjá unga fólkið sýna slíkan vilja til að breyta lífsstíl sínum og auka sjálfbærni í samfélaginu, og að þau skuli gera skýrar kröfur til stjórnmálafólks. Þessi greining veitir okkur einstaka innsýn í skoðanir og vilja ungmennanna. Niðurstöður hennar munu koma að góðum notum í áframhaldandi starfi okkar að framkvæmd sjálfbærnimarkmiða SÞ í norrænu samstarfi,“ segir Anniina Kristinsson, aðalráðgjafi og verkefnisstjóri 2030-kynslóðarinnar.

Tengiliður