Stefnum saman að grænni, stafrænni framtíð

09.10.20 | Fréttir
5G_Autonomous_Tractor
Ljósmyndari
Thomas Sonne / Common Ground Media
Stafrænar tæknilausnir og tól þróast ört og eru mikilvægur drifkraftur fyrir græn umskipti, hagvöxt og baráttuna við COVID-19 og heimsfaraldra framtíðar. Því er mikilvægt að Norðurlönd og Eystrasaltsríkin leggi áfram rækt við sitt öfluga samstarf á sviði sjálfbærra og grænna stafrænna umskipta.

Með því að setja ný markmið fyrir samstarfið á sviði stafrænna umskipta hafa Norðurlönd og Eystrasaltsríkin tekið afgerandi skref í að raungera þá framtíðarsýn að vera orðið samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030. Í því sambandi er þýðingarmikið að geta nýtt nýjar tæknilausnir og gögn og deilt þeim með sanngjörnum, opnum og lýðræðislegum hætti til að takast á við samfélagslegar áskoranir.

Þann fyrsta október 2020 samþykktu forsætisráðherrar norrænu landanna og Eystrasaltsríkjanna yfirlýsingu undir yfirskriftinni Digital North 2.0. Í yfirlýsingunni er bent á þrjú meginmarkmið fyrir samstarfið á tímabilinu 2021–2024:

  1. Að auka hreyfanleika og samþættingu innan Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna með því að byggja upp sameiginlegan vettvang fyrir stafræna þjónustu þvert á landamæri, sem byggi á öruggum gagnaskiptum og samvirkni rafrænna auðkenna
  2. Að stuðla að grænum hagvexti og efnahagsþróun innan Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna með gagnadrifinni nýsköpun og sanngjörnu upplýsingahagkerfi til að deila og endurnota gögn með skilvirkum hætti
  3. Að efla forystu Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í málefnum stafrænna umskipta innan ESB/EES og á heimsvísu, á sjálfbæran hátt og með víðtækri þátttöku, til dæmis með því að hvetja til þróunar á nýjum prófunarbúnaði fyrir 5G-tækni og hafa eftirlit með þróun á notkun 5G.

Vinnunni að nýju yfirlýsingunni var stýrt af danska fjármálaráðherranum undir formennsku Danmerkur í Norrænu ráðherranefndinni árið 2020. Finnland tekur við keflinu árið 2021 og mun í formennskutíð sinni vinna að því að hrinda í framkvæmd hinum metnaðarfullu markmiðum nýju yfirlýsingarinnar og beina sjónum að því að efla stafræna samþættingu svæðisins.

„Árið 2020 og COVID-19 hafa kennt okkur ýmislegt um það hvers stafræn tækni er megnug. Í framtíðinni verður metnaðarfull, nýskapandi, örugg og siðleg þróun og notkun stafrænna hátæknilausna og gagna afar þýðingarmikil þegar kemur að því að bæta og auka hreyfanleika og samþættingu innan Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þetta eru mikilvæg tól fyrir hinn öfluga og græna hagvöxt sem við þörfnumst,“ segir Sirpa Paatero, ráðherra sveitarstjórnamála í finnska fjármálaráðuneytinu.

Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Paula Lehtomäki, fagnar því að ráðherrarnir sem fara með málefni stafrænnar þróunar hafi ákveðið að halda samstarfinu á því sviði áfram og efla þau enn frekar á næstu fjórum árum.

„Norrænu löndin og Eystrasaltsríkin eru á meðal forystuþjóða heimsins þegar kemur að stafrænni stjórnun. Mikilvægt er að nýta þau góðu skilyrði sem eru fyrir hendi og axla ábyrgð með því að sýna hvernig stafræn umskipti geta gert samfélög okkar sterkari, þrautseigari, samþættari og réttlátari. Við verðum að setja öryggi, ábyrgð, rekjanleika og siðferðileg álitamál í fyrsta sæti við hönnun stafrænna tóla til að efla traust á stafrænum lausnum í samfélögum okkar,“ segir Lehtomäki.