Stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum

Í norrænu samstarfi er forgangsverkefni að tryggja hagstæð skilyrði til að starfa, flytja, stunda nám og stofna og reka fyrirtæki þvert á landamæri Norðurlandanna. Það er mikilvægur liður í vinnunni við að ná þeirri framtíðarsýn að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.

Norrænu forsætisráðherrarnir undirrituðu yfirlýsingu um afnám stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndum á 65. þingi Norðurlandaráðs í október 2013.Stjórnsýsluhindranir eru lög, opinberar reglur eða starfsvenjur, sem hefta frjálsa för einstaklinga eða tækifæri fyrirtækja til að starfa þvert á landamæri á Norðurlöndum. Ólík bóta- og skattakerfi milli Norðurlandanna teljast ekki stjórnsýsluhindranir. Hins vegar er litið á það sem stjórnsýsluhindrun ef einstaklingur sætir verri kjörum en aðrir einstaklingar við sambærilegar aðstæður vegna þess að hann hefur nýtt réttindi sín til frjálsrar farar yfir landamæri og á þetta bæði við um búsetulandið og starfslandið.

Stjórnsýsluhindranaráðið

Stjórnsýsluhindrunarráðið tók til starfa 1. janúar 2014. Stjórnsýsluhindranaráðið er óháð nefnd sem stjórnvöld landanna hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. Stjórnsýsluhindranaráðinu er ætlað að ýta á stjórnvöld landanna meðal annars við lausn á stjórnsýsluhindrunum milli Norðurlanda. Markmiðið með starfi Stjórnsýsluhindranaráðsins og annarra aðila er að skapa skilyrði fyrir samþætt svæði þar sem íbúar geta á einfaldan hátt flutt búferlum, stundað nám og hafið fyrirtækjarekstur þvert á landamæri.

Stjórnsýsluhindranastarfið er unnið í nánu samstarfi við aðila eins og Norðurlandaráð, upplýsingaþjónustur, landamæranefndir, aðila vinnumarkaðarins, ráðuneyti, stjórnvöld, borgarasamfélagið og atvinnulíxfssamtök. Kreppur síðustu ára hafa haft áhrif á hreyfanleikann og ekki síst valdið fólki sem býr og starfar á landamærasvæðunum áskorunum. Forsætisráðherrarnir veittu Stjórnsýsluhindranaráðinu nýtt umboð fyrir árin 2022-2024 og fólu ráðinu þá að safna upplýsingum með stuttum fyrirvara og gera ríkisstjórnunum viðvart um vanda í tengslum við frjálsa för sem upp kemur á krepputímum og leggja til lausnir og vera tilbúið til að miðla þekkingu sinni þegar eftir því er leitað.Stjórnsýsluhindranaráðið vinnur einnig með vandmál og málaflokka sem falla ekki beint undir það sem nú er skilgreint sem stjórnsýsluhindrun en litið er sem hindrun fyrir frjálsri för og samþættingu innan Norðurlanda.

Sameiginlegur vinnumarkaður

Norðurlöndin hafa lengi verið með sameiginlegan vinnumarkað. Allt frá fimmta áratug síðustu aldar hafa Norðurlöndin getað dregið úr ójafnvægi milli landa þar sem hreyfanleiki vinnuafls hefur mætt bæði atvinnuleysi og mikilli þörf fyrir vinnuafl.Með sameiginlegum norrænum vinnumarkaði hafa Norðurlöndin betur getað tekist á við hagsveiflur og þar með hefur þróunin orðið hagstæðari en ella. Miðlun vinnuafls skiptir enn í dag miklu máli, ekki síst á norrænum landamærasvæðum.

Atvinnulíf á Norðurlöndum

Norrænt atvinnulíf hefur einnig stöðugt orðið samþættara síðasta áratuginn.Norrænu nágrannaríkin eru afar stór hluti innflutnings- og útflutningsmarkaðar hvers lands. Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið undanfarin ár eru erfiðleikar við að finna viðeigandi upplýsingar um reglur og þess háttar í hinu landinu stærsta einstaka hindrun fyrirtækja sem vilja reka starfsemi sína þvert á landamæri Norðurlandanna. Einnig hafa spurningar um skattarétt og tvöfalda stjórnsýslu reynst erfiðar viðureignar.Það er hagsmunamál allra þeirra landa sem við á að norrænu atvinnulífi sé fært að starfa eins greiðlega og kostur er þvert á landamæri. Þess vegna er áfram efnt til ýmiss konar verkefna sem ætlað er að brydda upp á nýungum og vera tilraun til lausnar á stjórnsýsluhindrunum í atvinnulífinu.

Norðurlönd og umheimurinn

Norðurlöndin hafa öll sterka tengingu við Evrópusambandið gegnum aðild að ESB eða samninga gegnum EES.Norðurlöndin eru því á flestum sviðum hluti innri markaðar ESB. Gegnum tengslin við ESB er Norðurlöndunum einnig skylt til að fara að reglugerðum og tilskipunum sambandsins.Í mörgum þeirra er tekið á rétti fólks til frjálsrar farar innan ESB/EES og sameiginlegum evrópskum markaði. Þannig fara hin sígildu norrænu markmið um opin Norðurlönd saman við hin evrópsku sem eru sama efnis.

Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíðarsýn fyrir árið 2030

Í framkvæmdaáætluninni er því lýst hvernig Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar með röð verkefna sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Hinar stefnumarkandi áherslur og markmið munu vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er í tólf hlutum og fjallar hver þeirra um eitt hinna tólf markmiða.