Den store klimadatabase – Danmörk

Den store klimadatabase
Photographer
norden.org
Veitir neytendum og framleiðendum yfirsýn yfir kolefnisspor algengra matvæla.

Den store klimadatabase er tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Gagnagrunnurinn Den store klimadatabase, frá grænu hugmyndasmiðjunni CONCITO í Danmörku, er sá fyrsti sinnar gerðar. Viðmót hans er einfalt og aðgengilegt og veitir samfélaginu og almenningi innsýn í kolefnisspor hinna ýmsu matvæla. Nýsköpun Den store klimadatabase felst í þeim aðferðum sem beitt er við gagnasöfnun, hinu mikla magni matvæla sem unnið er með og því að gagnagrunninum er beint að matvælageiranum. Verkefnið er gagnlegt fyrir aðrar sjálfbærar matvælalausnir sem ætlað er að breyta hegðun neytenda og er meðal annars valið vegna þess að verkefnið hefur breiða samfélagslega skírskotun og nýtist almenningi jafnt sem stjórnvöldum og fyrirtækjum. Stærstu tækifærin sem fólgin eru í gagnagrunninum eru þannig hið opna aðgengi að honum á netinu.

Þar sem fjórðungur allrar kolefnislosunar á rætur til matvæla skiptir það máli fyrir nauðsynlegar breytingar á matvælaframleiðslu og hegðun neytenda að fyrir hendi séu aðgengilegar upplýsingar á einum stað um það hvaða matvæli hafa stór kolefnisspor og hvaða matvæli lítil.

Þegar við þekkjum kolefnisspor hinna mismunandi matvæla getum við tekið afstöðu til þess hvernig eigi að forgangsraða matvælum, bæði í landbúnaði og í eldhúsunum.

Gagnagrunnurinn Den store klimadatabase er tilnefndur til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021 vegna þess að hann veitir aðgang að þessum upplýsingum á aðgengilegan hátt og stuðlar með því að sjálfbærara matvælakerfi.

Um þema ársins: Sjálfbær matvælakerfi

Þegar matvælaframleiðsla er sjálfbær eru matvælin eins og framast er unnt framleidd staðbundið og notaðar til þess umhverfislega sjálfbærar aðferðir. Á sviði landbúnaðar er fyrst og fremst lögð áhersla á endurnýjanlega næringu úr jurtaríkinu og umhverfisvænar landbúnaðaraðferðir sem taka tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar, líffræðilegrar fjölbreytni og góðrar nýtingar vatnsauðlindarinnar. Í dýrahaldi og fiskeldi er tekin umhverfisleg ábyrgð og gildi dýraverndunar tekin mjög hátíðlega. Náttúruauðlindir sem notaðar eru til matar, svo sem villtur fiskur og aðrar náttúruafurðir, eru skynsamlega nýttar.

Þegar hráefni eru ræktuð til matar er næringargildið látið halda sér eins vel og kostur er. Í matvælaiðnaðinum á sér ekki stað auðlindasóun, vörunum er pakkað á orkuvænan hátt og umhverfisáhrif dreifingarinnar eru eins lítil og mögulegt er. Fyrirtæki og verslanir bjóða viðskiptavinum sínum aðeins sjálfbæra valkosti og eru auk þess með eigin ráðstafanir til þess að draga úr matarsóun. Matur neytenda byggist á umhverfislega sjálfbærum valkostum, til dæmis grænmetisfæða sem löguð er að árstíðum. Við borðum eins margar hitaeiningar og við þurfum, enginn matur fer til spillis og lífrænn úrgangur er endurunninn.