Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fagna tíu ára afmæli

28.05.23 | Fréttir
Pärmbilder för de böcker som vunnit Nordiska rådets barn- och ungdomslitteraturpris 2013-2022

Vinnare av Nordiska rådets barn- och ungdomslitteraturpris 2013-2022

Photographer
norden.org
Tíu ár eru frá því að barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru sett á laggirnar. Frá árinu 2013 hafa bækur frá öllum Norðurlöndum, þar sem bæði húmor, alvara og fantasía hefur ráðið ríkjum, verið verðlaunaðar.

Norrænar barna- og unglingabókmenntir fjalla um þemu á borð við jafnrétti, samband barna og fullorðinna, fjölbreytileika og inngildingu. Þær segja frá daglegu lífi eins og það er en innihalda líka tímalausar dystópískar og útópískar sögur. Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa átt þátt í að vekja athygli á þeim auði sem fólginn er í norrænum bókmenntum og myndskreytingum og gefið börnum og unglingum tækifæri til að njóta bókanna.

Verðlaunin þýðingarmikil fyrir höfunda og myndskreyta

Verðlaunin eru veitt fyrir fagurbókmenntaverk fyrir börn og unglinga sem samið er á einu af norrænu tungumálunum. Norski rithöfundurinn Nora Dåsnes, sem hreppti verðlaunin árið 2022 fyrir myndasögu sína Ubesvart anrop, segir að það að hljóta verðlaunin hafi verið ein stærsta upplifun hennar á ævinni.

„Þegar maður er að hefja vegferð sína sem listamaður ríkir óvissa um svo margt og mér hefur fundist ég þurfa að framleiða mikið og vera alls staðar til þess að ná athygli fólks. Með verðlaununum fylgdi meiri ró fyrir mig sem rithöfund. Í þeim felst viðurkenning sem ekki einu sinni blekkingarheilkennið mitt getur horft fram hjá, bæði vegna rökstuðnings dómnefndarinnar og þess hversu mikillar virðingar verðlaunin njóta á Norðurlöndum. Verðlaunin hafa orðið til þess að fullorðið fólk, sem alla jafna les ekki barnabækur eða teiknimyndasögur, er opið fyrir verkum mínum. Það var líka ótrúlega skemmtilegt að fá hamingjuóskir við upphaf allra samskipta sem ég átti mánuðum saman eftir verðlaunaafhendinguna.“

Samspil texta og myndmáls

Mörg verkanna sem hafa verið tilnefnd í gegnum árin hafa verið samstarfsverkefni höfunda og myndskreyta. Það á til dæmis við um bókina sem hlaut verðlaunin árið 2020, Vi är lajon, eftir sænska rithöfundinn Jens Mattsson og finnska myndskreytinn Jenny Lucander. Það kom Mattsson sérstaklega á óvart að fá verðlaunin fyrir fyrstu bók sína.

„Það var alveg ótrúlegt. Verðlaunin hafa opnað fyrir mér margar dyr og ég hef fengið að taka þátt í mörgum skemmtilegum viðburðum en að sama skapi hafa þau snaraukið væntingar til mín í framtíðinni.“

Fyrir myndskreytinn Jenny Lucander var mikilvæg viðurkenning fólgin í verðlaununum en jafnframt stuðluðu þau að dreifingu bókarinnar til fleiri landa.

„Fyrir mig sem myndskreyti fólst gríðarleg viðurkenning í verðlaununum.Mér fannst mikið til þess koma að finna að ég var hluti af norrænu samfélagi. Það kom mér gríðarlega á óvart þegar tilkynnt var um verðlaunin en síðar fann ég til þakklætis, heiðurs og mikillar gleði. Verðlaunin fela í sér viðurkenningu á að það sem ég geri sé gott og mikilvægt og þau gefa mér kraft til að halda áfram að vinna þótt daglegt líf listamanns geti stundum verið erfitt. Ég er innilega þakklát fyrir samstarfið við Jens Mattsson og að hafa fengið að skreyta hina einlægu sögu hans Vi är lajon. Þökk sé verðlaununum hefur bókin fengið mikla athygli og dreifingu og náð til fjölda lesenda og verið þýdd á mörg tungumál.“

Lucander bætir því við að tilnefningin ein og sér hafi verið sigur því henni hafi fylgt tækifæri til þátttöku í ýmsum bókmenntaviðburðum á Norðurlöndum þar sem hún hafi jafnframt getað hitt aðra höfunda og myndskreyta sem hún hafi unnið með og átt uppörvandi samtöl við.

Athygli sem skilar sér í fleiri lesendum

Kristin Roskifte frá Noregi, sem hlaut verðlaunin árið 2019 fyrir bók sína Öll með tölu (þýð. Sigrún Eldjárn), segir bók sína hafa náð til mun fleiri lesenda vegna verðlaunanna. Auk þess hafi tækifærið til að hitta norræna kollega verið henni mjög mikilvægt.

„Það besta við að hljóta barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs er sú tilfinning að það sem ég geri sé einhvers virði og að það sé tekið alvarlega. Það er mér hvatning og gefur mér hugrekki og öryggi til að halda áfram. Það gleður mig að vita að bókin hafi náð til fleiri lesenda. Útgáfufyrirtækin nota auðvitað verðlaunin við markaðssetningu. Það hefur verið stór bónus að kynnast mörgum góðum kollegum mínum frá öllum Norðurlöndum og fá að upplifa að þegar kemur að barnabókmenntum eigum við sameiginlega menningu sem teygir sig yfir landamæri.“

Mörg vel heppnuð verkefni í tengslum við barna- og unglingabókmenntir

Samhliða barna- og unglingabókmenntaverðlaununum fór Norræna ráðherranefndin af stað með verkefnið LYFTET (Lyftistöngin) í því skyni að vekja meiri athygli á norrænum barna- og unglingabókmenntum. Verkefnið skilaði sér meðal annars í árlegu málþingi á árunum 2019–2021 þar sem höfundar, myndskreytar og fólk úr útgáfugeiranum gat komið saman og miðlað af reynslu sinni hvert til annars.  Safnritið På tværs av Norden sem er í þremur hlutum er helgað málefnum sem eru ofarlega á baugi, svo sem vistfræðilegum straumum og félagslegri sjálfbærni í norrænum barna- og unglingabókmenntum.

„Málþingin hafa skipt miklu máli og leitt til nýrra samstarfsverkefna. Það sama á við um hátíðina þar sem barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru afhent því þar gefst höfundum færi á að hittast og fá nýjar hugmyndir og vinna saman þvert á landamæri,“ segir Kaisa Laaksonen, formaður dómnefndarinnar 2021–2023.

Hún bendir jafnframt á að mikilvægt sé að fleiri tilnefnd verk verði framvegis þýdd á öll norrænu tungumálin, að minnsta kosti sigurverkin.

Um barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan 2013 og eru ein af fimm verðlaunum Norðurlandaráðs. Þau eru afhent að ósk menningarráðherra Norðurlanda sem vilja efla og vekja athygli á barna- og unglingabókmenntum Norðurlanda.

Verðlaunaféð nemur 300 þúsundum danskra króna. Verðlaunin eru veitt fyrir fagurbókmenntaverk fyrir börn og unglinga sem þykir skara fram úr með tilliti til bókmenntalegs eða listræns gildis. Árlega tilnefnir dómnefnd 12–14 verk og er tilkynnt um verðlaunahafann á verðlaunahátíð í tengslum við þing Norðurlandaráðs að hausti.