Nefnd vill skapa aukin tækifæri fyrir norræna vinaskóla
Norræn samkennd, tungumálaskilningur og menning nýtur góðs af stöðugu og langvarandi samstarfi norrænu landanna og þar gegna skólar og menntastofnanir veigamiklu hlutverki. Þetta á sér stað með margvíslegum hætti, meðal annars á milli einstaklinga í gegnum nám í öðru norrænu landi eða með skiptum á námsefni, til dæmis í gegnum Norðurlönd í skólanum. Einnig getur þetta gerst í gegnum bein skipti og samstarf við annan skóla í öðru landi, svokallaðan vinaskóla sem líkja má við vinabæi sem þekkjast í mörgum sveitarfélögum og löndum.
„Með þessari tillögu viljum við þrýsta á ráðherrana að útfæra og bæta umgjörð fyrir bæði æðri menntastofnanir og grunnskóla til að koma á langvarandi samstarfi við skóla í öðrum norrænum löndum,“ segir Camilla Gunell, formaður þekkingar- og menningarnefndarinnar.
Óplægður akur
Vannýtt tækifæri eru fólgin í hugmyndinni um vinaskóla og að mati þekkingar- og menningarnefndarinnar gætu þeir aukið áhuga og þekkingu ef aðstæður yrðu bættar, ekki síst á meðal yngstu Norðurlandabúanna. Varaformaður nefndarinnar, Aron Emilsson frá Norrænu frelsi sem flutti tillöguna, segir:
„Samstarf vinaskóla er í dag oft algerlega háð eldhugum sem leggja fram tíma og vinnu. Við þurfum að líta á hugmyndina um vinaskóla sem langvarandi samband sem byggist upp á lengri tíma á milli bæði nemenda, kennara og menntastofnana, og til þess þarf allt aðra umgjörð en þá sem í dag er til staðar. Ákjósanlegt væri til dæmis að sænskur framhaldsskóli gæti átt danskan „vinaframhaldsskóla“ og eins væri farið með grunnskólann.
Vefvettvangur er leiðin fram á við
Tillagan felur í sér að komið verði upp vefvettvangi þar sem skólar geti fundið aðra skóla sem geta orðið vinaskólar þeirra. Á vefvettvangnum verði að finna einfaldar reglur og umgjörð um hvernig samstarf vinaskóla getur litið út. Markmiðið með vinaskólum er að auka miðlun menningar og reynslu á milli skóla og þannig auka áhuga og þekkingu á öðrum norrænum löndum. Með því móti eykst að sama skapi áhuginn á að stunda nám og vinnu í öðru norrænu landi.
Unnið verður áfram með tillöguna, m.a. með því að fá innlegg frá viðeigandi aðilum og verður nefndarálit svo lagt fyrir nefndina til afgreiðslu á næsta fundi hennar í lok mars.