Neyðarviðbúnaður í brennidepli á 73. þingi Norðurlandaráðs
Heimsfaraldurinn og samstarfið eru á meðal þeirra mála sem rædd verða á leiðtogafundi Norðurlandaráðs og forsætisráðherra Norðurlandanna 3. nóvember. Á leiðtogafundinum fá fulltrúar ráðsins tækifæri til að taka þátt í þingumræðum með forsætisráherrunum.
„Leiðtogafundurinn með forsætisráðherrunum er mikilvægasti hluti þingsins. Á honum verður rætt um hvernig við getum lært af kórónufaraldrinum, hvernig við getum bætt samstarf okkar áður gripið er til aðgerða á borð við lokun landamæra, hvernig við getum forðast lokun þeirra og hvernig við getum aðstoðað hvort annað í stað þess að skapa vandamál fyrir hinn almenna borgara. Við skuldum borgurum okkar að vera betur undirbúin fyrir næstu neyðaraðstæður,“ segir Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs.
Listi með tillögum fyrir forsætisráðherranna
Forsætisnefnd hefur tekið saman lista fyrir leiðtogafundinn með tillögum um betri samræmingu neyðarviðbragða, sem hún óskar eftir að forsætisráherrarnir taki afstöðu til í umræðunum.
Ráðið hvetur forsætisráherrana meðal annars til þess að vinna að nýjum norrænum samningi um samstarf um viðbúnaðarmál og neyðarviðbrögð sem samræmist öðrum samningum, til dæmis um almannatryggingar og sameiginlegan vinnumarkað.
Norðurlandaráð kallar einnig eftir svipuðum eða sameiginlegum norrænum lögum um neyðarviðbúnað, eða að öðrum kosti samræmingu núverandi laga um neyðarviðbrögð á Norðurlöndum. Auk þess vill ráðið að nýrri norrænni viðbúnaðareiningu verði komið á laggirnar með því að styrkja og útvíkka núverandi samstarfsnet og stofnanir.
Þar að auki kallar ráðið eftir úttekt og endurskoðun á öllum norrænum samningum til að markmiðinu um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 verði náð.
Neyðarviðbúnaður er einnig gegnumgangandi þema í röð nefndarálita sem þingið mun taka til umfjöllunar þann 3. nóvember. Verði þau samþykkt verða að tillögum sem verða lagðar fyrir ríkisstjórnir Norðurlandanna.
Framkvæmdastjóri NATO heimsækir þingið
Einnig verður fjallað um varnar- og öryggismál á þinginu. Sú umræða fer fyrst og fremst fram í tengslum við heimsókn Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, gestafyrirlesara þingsins. Stoltenberg mun flytja ræðu fyrir Norðurlandaráði á degi leiðtogafundarins. Eftir ræðuna verða þingumræður um varnarmál.
Annette Lind, varaforseta Norðurlandaráðs, hlakkar til heimsóknar Stoltenbergs.
„Ég hlakka mjög mikið til að hitta flokksfélaga minn hann Stoltenberg. Sjálf er ég talsmaður utanríkismála í flokki jafnaðarmanna og því mun ég leggja vel við hlustir þegar framkvæmdastjórinn tekur til máls.
73. þing Norðurlandaráðs fer fram í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn. Allar þingumræður verða í beinu vefstreymi (hlekkur kemur síðar).
UPPLÝSINGAR:
- Þing Norðurlandaráðs sækja stjórnmálamenn frá öllum Norðurlöndum. Þar má meðal annars nefna fulltrúa Norðurlandaráðs, forsætisráherra Norðurlandanna, aðra norræna ráðherra og alþjóðlega gesti.
- Þingið fer fram á hverju hausti og er þingið í ár það 73. í röðinni.
- Þingið er sett kl. 14 að dönskum tíma þriðjudaginn 2. nóvember en það hefst þegar daginn áður, meðal annars með fundum flokkahópanna. Þinginu verður slitið fimmtudaginn 4. nóvember kl. 16.
- Á lokadegi þingsins verður kosið um forseta og varaforseta fyrir árið 2022. Þau verða frá Finnlandi, sem verður formennskuland Norðurlandaráðs á árið 2022.
- Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð auk Færeyja, Grænlands og Álandseyja.