Norðurlandaráð samþykkti nýja stefnu um samstarf á sviði samfélagsöryggis
Í stefnuskjalinu lýsir Norðurlandaráð meðal annars eftir sameiginlegum norrænum æfingum og námskeiðum í neyðarviðbúnaði, auknu samstarfi um friðsamlega lausn deilumála, efldu samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um netöryggi og auknu lögreglusamstarfi.
Auk þess vill ráðið að metin verði þörf á samnorrænum flota slökkviliðsflugvéla.
„Ég fagna því að Norðurlandaráð hafi samþykkt stefnumörkunina einróma. Það veitir henni aukið vægi og sýnir að ráðið telur þessi mál skipta miklu,“ segir Hans Wallmark, forseti Norðurlandaráðs 2019.
Öflugur stuðningur almennings
Þá opnar Norðurlandaráð á aukið norrænt samstarf um utanríkismál. Í stefnuskjalinu er einnig lagt til að skoðað verði hvernig Norræna ráðherranefndin geti átt þátt í að „styðja norrænt samstarf um utanríkis- og öryggismál, þar á meðal samstarf um samfélagsöryggi og viðbúnað“.
Utanríkis-, varnar- og öryggismál eru ekki á borði Norrænu ráðherranefndarinnar. Sama á við um samstarf um viðbúnað, stórslys og neyðarástand.
Almenningur á Norðurlöndum er afar hlynntur samstarfi um varnar- og öryggismál. Könnun sem gerð var árið 2017 leiddi í ljós að varnar- og utanríkismál voru sá málaflokkur sem flestir Norðurlandabúar vildu að löndin ættu að starfa saman að.
„Með hliðsjón af ástandinu í heiminum í dag, þar sem togstreita eykst í víðtækum skilningi, og einnig með hliðsjón af víðtækum stuðningi almennings við samstarf um öryggismál, er löngu tímabært að Norræna ráðherranefndin – helsti samstarfsvettvangur ráðherra á Norðurlöndum – fái skýrt umboð í þessum málum,“ segir Hans Wallmark.
Sameiginlegar ógnir
Stefnuskjalið byggist á því að Norðurlöndin standa öll frammi fyrir sams konar áskorunum á sviði samfélagsöryggis. Þar má nefna netárásir, hryðjuverk, veðuröfgar og náttúruhamfarir, farsóttir, framboðsbrest á orku og ýmsar aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður sem geta komið upp.
Þetta eru ógnir sem geta steðjað að einu Norðurlandanna en einnig haft afleiðingar yfir landamæri. Enn eru fyrir hendi stjórnsýsluhindranir sem geta komið í veg fyrir öflugt samstarf milli landanna.
„Norðurlandaráð vill sjá virkan sameiginlegan neyðarviðbúnað sem gerir löndunum kleift að bregðast skjótt við neyðarástandi og hjálpast að án þess að stjórnsýsluhindranir eða álitamál um verkaskiptingu og ábyrgð standi þar í vegi.“
Í stefnuskjalinu er einnig lagt til að norrænu ríkisstjórnirnar tilnefni óháða nefnd sem verði falið að kanna hvernig efla megi norrænt samstarf um samfélagsöryggi.
Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlandanna en Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur ríkisstjórnanna. Hlutverk Norðurlandaráðs er að leggja tillögur og tilmæli fyrir ráðherranefndina og ríkisstjórnir Norðurlandanna.