Framkvæmdastjóri NATO gestur á þingi Norðurlandaráðs

07.09.21 | Fréttir
Natos generalsekreterare Jens Stoltenberg
Photographer
NATO
Samstarf um varnarmál skipar æ veigameiri sess í norrænu samstarfi. Varnarmál verða til umfjöllunar þegar Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, heimsækir þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember. Hann mun flytja ávarp á þinginu þann 3. nóvember.

Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs, gerir ráð fyrir að ávarp framkvæmdastjórans verði kveikjan að líflegum umræðum um þörfina á aukinni áherslu á samnorræna stefnu í öryggis- og viðbúnaðarmálum.

Á septemberfundi sínum ræddi forsætisnefnd Norðurlandaráðs nokkur mál sem tengjast viðbúnaðarmálum með beinum hætti. Að sögn forsetans er það regla fremur en undantekning nú orðið. 

Hann leggur áherslu á að það hafi mikla táknræna þýðingu að framkvæmdastjóri NATO ávarpi Norðurlandaráð.

„Á tímum kalda stríðsins hefði verið óhugsandi að ræða varnarmál og bjóða framkvæmdastjóra NATO á þing Norðurlandaráðs,“ segir Bertel Haarder. „En vægi varnarsamstarfsins hefur aukist. Í dag er norrænt varnarsamstarf skipulagt hjá NORDEFCO. Norður-Atlants- og Norðurskautssvæðið er orðið þýðingarmeira í samstarfinu, bæði með tilliti til umhverfis og umferðar og ekki síst öryggis. Það verður áhugavert að heyra hvað Jens Stoltenberg hefur að segja.“

Annette Lind, varaforseti Norðurlandaráðs, er einnig spennt fyrir heimsókninni.

„Norrænt samstarf er virðisskapandi fyrir löndin og byggist á sameiginlegum gildum okkar. Á meðan heimurinn brennur verða Norðurlönd að færa sér landfræðilega staðsetningu sína í nyt og vera fyrirmynd annarra. Þess vegna hlakka ég til að Norðurlandaráð fái tækifæri til að ræða varnar- og öryggismál við framkvæmdastjóra NATO á þinginu í Kaupmannahöfn,“ segir Annette Lind. 

Sem fyrrverandi forsætisráðherra Noregs hefur Jens Stoltenberg mikla þekkingu á málefnum Norðurlanda og aðstæðum á svæðinu.

„Friður og stöðugleiki einkenna Norðurlönd sem svæði,“ segir Stoltenberg. „NATO á sinn þátt í því, ásamt bandamönnum og samstarfsaðilum okkar.“

Áhugi á viðbúnaðarsamstarfi hefur aukist vegna COVID-19

„Kórónuveirufaraldurinn hefur sýnt okkur að það er virkileg þörf á að við aukum skilvirkni sameiginlegs viðbúnaðarstarfs okkar,“ segir forseti Norðurlandaráðs. Næsta vá sem steðjar að getur verið af allt öðrum toga en þessi og það liggur í augum uppi að við erum betur í stakk búin til að takast á við þann vanda sem að höndum ber ef við bregðumst við í sameiningu.“

„Norðurlandaráð kom sér saman um stefnu um samfélagsöryggi árið 2019 og síðan þá höfum við unnið að því hörðum höndum að innleiða þær tillögur sem þar voru settar fram,“ segir Bertel Haarder. Á fundi forsætisnefndar var m.a. rætt um hugmyndina um samnorræna birgðageymslu. Það er í fullu samræmi við þær hugmyndir sem fram koma í stefnunni.

 

 

Viðræður á milli Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um fjárhagsáætlun

Á fundinum var einnig fjallað um yfirstandandi viðræður Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um fjárhagsáætlun ársins 2022. Norðurlandaráð er m.a. andvígt niðurskurði í fjárveitingum til menningar- og menntamála. Endanleg tillaga að fjárhagsáætlun verður lögð fram á þingi Norðurlandaráðs í nóvember.