Ríkisborgararéttur í Svíþjóð

Statsborgerskab i Sverige
Hér geturðu lesið um hvernig þú verður sænskur ríkisborgari og um sænskar reglur um tvöfalt ríkisfang.

Sænskur ríkisborgararéttur við fæðingu

Ríkisfang barns við fæðingu ákvarðast af ríkisfangi foreldra.

Börn sem fædd eru síðar en 1. apríl 2015 verða sjálfkrafa sænskir ríkisborgarar óháð því hvar þau fæðast ef annað foreldrið er sænskur ríkisborgari.

Börn sem fædd eru fyrr en 1. apríl 2015 í öðru landi en Svíþjóð og eiga sænskan föður og erlenda móður sem ekki eru gift verða ekki sjálfkrafa sænskir ríkisborgarar. Til þess að barnið verði sænskur ríkisborgari þarf faðir þess að skila inn yfirlýsingu um sænskan ríkisborgararétt fyrir barnið.

Barnið getur einnig orðið sænskur ríkisborgari með skilríkjum, það er ef foreldrarnir ganga í hjónaband síðar og barnið er yngra en 18 ára og ógift.

Sænskur ríkisborgararéttur fyrir norræna ríkisborgara

Hægt er að sækja um sænskan ríkisborgararétt og halda ríkisfangi sínu í öðru norrænu landi. Þannig er hægt að fá tvöfalt ríkisfang.

Sem ríkisborgari í norrænu landi geturðu orðið sænskur ríkisborgari á tvo mismunandi vegu: með yfirlýsingu eða með því að sækja um ríkisborgararétt.

Sænskur ríkisborgararéttur með yfirlýsingu

Länsstyrelsen afgreiðir yfirlýsingar um sænskan ríkisborgararétt.

Uppfylla þarf ákveðin skilyrði til að fá sænskt ríkisfang. Til að geta gefið yfirlýsingu um að verða sænskur ríkisborgari

  • þarftu að hafa náð 18 ára aldri þegar þú tilkynnir Länsstyrelsen um ósk þína að verða sænskur ríksiborgari.
  • þarftu að hafa búið í Svíþjóð í að minnsta kosti fimm ár, talið aftur frá þeim degi þegar þú tilkynnir Länsstyrelsen um ósk þína að verða sænskur ríkisborgari.
  • máttu ekki hafa hlotið refsidóm undanfarin fimm ár (undantekningar eru fyrir einstaklinga sem orðnir eru 18 ára en ekki 20 ára).

Þú þarft að gefa yfirlýsingu um sænskan ríkisborgararétt á því svæði þar sem þú býrð.

Greiða þarf gjald til að senda inn yfirlýsing um ríkisborgararétt fyrir fullorðna og ungt fólk á aldrinum 18–20 ára. Gjaldið greiðist til Länsstyrelsen á því svæði þar sem þú býrð. Ekki er greitt gjald fyrir börn yngri en 18 ára sem eru með í yfirlýsingu foreldra/forráðamanna.

Einnig þarftu að senda inn vottorð fyrir þig og börn þín sem búa í Svíþjóð. Þetta vottorð nefnist „Ansökan om svenskt medborgarskap“ og má ekki vera eldra en tveggja mánaða.

Ef þú uppfyllir skilyrði færðu sænskan ríkisborgararétt. Lénsstjórnin sendir staðfestingu á sænskum ríkisborgararétti heim til þín.

Veiting ríkisborgararéttar

Ef þú uppfyllir ekki skilyrðin um að gefa yfirlýsingu um sænskan ríkisborgararétt getur þú sem norrænn ríkisborgari sótt um sænskan ríkisborgararétt. Þú sendir umsóknina til sænsku útlendingastofnunarinnar, Migrationsverket, sem afgreiðir umsóknir um sænskan ríkisborgararétt.

Þegar þú sækir um að sænskan ríkisborgararétt þarftu

  • að geta sýnt fram á hver þú ert
  • að vera orðin/n 18 ára
  • að hafa búið í Svíþjóð í að minnsta kosti tvö ár
  • að hafa hagað þér vel
Sænskur ríkisborgararéttur fyrir börn og foreldra samtímis

Ef þú ert foreldri eða forráðamaður barns geturðu gefið lénsstjórninni yfirlýsingu um að barnið eigi að fá sænskan ríkisborgararétt.

Ef báðir foreldrar/forráðamenn senda lénsstjórninni yfirlýsingu um ríkisborgararétt eða sækja um ríkisborgararétt hjá útlendingastofnuninni fá ógift börn þeirra undir 18 ára aldri sjálfkrafa sænskan ríkisborgararétt.

Ef annað foreldranna/forráðamannanna sækir um eða eða sendir yfirlýsingu um sænskan ríkisborgararétt fá ógift börn viðkomandi undir 18 ára aldri sjálfkrafa sænskan ríkisborgararétt ef:

  • foreldrið/forráðamaðurinn fer einn með forræði
  • foreldrarnir/forráðamennirnir hafa sameiginlegt forræði og annað foreldrið er sænskur ríkisborgari

Sænskur ríkisborgararéttur fyrir aðra en Norðurlandabúa

Ef þú ert ríkisborgari í öðru landi en Norðurlöndum þarftu að sækja um sænskt ríkisfang hjá Migrationsverket.

Tvöfalt ríkisfang

Svíþjóð leyfir tvöfalt ríkisfang eins og hin Norðurlöndin.

Hægt er að sækja um sænskan ríkisborgararétt og halda ríkisfangi sínu í öðru norrænu landi. Þannig er hægt að fá tvöfalt ríkisfang.

Ef þú ert sænskur ríkisborgari og færð ríkisborgararétt í öðru norrænu landi geturðu haldið sænska ríkisborgararéttinum.

Öll Norðurlöndin leyfa að barn fái tvöfalt ríkisfang við fæðingu. Norðurlöndin hafa þó þá reglu að barnið missir sjálfkrafa ríkisborgararéttinn ef barnið hefur ekki búið í viðkomandi landi fyrir 22 ára aldur.

Réttindi og skyldur sem fylgja sænskum ríkisborgararétti

Sænskum ríkisborgararétti fylgja ákveðin réttindi og skyldur. Til dæmis mega einungis einstaklingar með sænskan ríkisborgararétt kjósa í sænskum þingkosningum. Sænskir ríkisborgarar geta þurft að gegna herskyldu, þeir fá sænskt vegabréf og rétt til aðstoðar utanríkisþjónustunnar erlendis. Alla jafna þarf að hafa sænskt ríkisfang til að geta keppt fyrir Svíþjóðar hönd í íþróttum. Einnig eru til ákveðnar stöður í opinbera geiranum og innan lögreglunnar og hersins sem aðeins þeir sem eru með sænskan ríkisborgararétt mega gegna.

Hvað flestum öðrum réttindum og skyldum viðvíkur, svo sem almanntryggingum, rétti til grunnskólanáms og skattskyldu, skiptir ríkisborgararéttur litlu eða takmörkuðu máli. Þetta ræðst venjulega af því hvar viðkomandi býr og/eða starfar.

Á vefsvæði Migrationsverket má finna nánari upplýsingar um réttindi og skyldur sem fylgja sænsku ríkisfangi. Einnig má lesa um kosti og galla þess að hafa sænskt ríkisfang og að hafa tvöfalt ríkisfang.

Börn sem búa í Svíþjóð og eiga að vera skráð sem ríkisborgarar í öðru norrænu landi

Ef þú eða foreldi barnsins þíns hefur ríkisborgararétt í öðru norrænu landi og barnið á að fá ríkisborgararétt frá viðkomandi landi skaltu hafa samband við sendiráð viðkomandi lands í Svíþjóð. Sendiráðið getur veitt þér nánari upplýsingar og gefið út vegabréf fyrir barnið ef við á.

Hafa skal meðferðis fæðingarvottorð og hjónavígsluvottorð eða önnur gögn um foreldrana ef foreldrar eru ekki giftir.

Að endurheimta ríkisborgararétt í öðru norrænu landi

Hafi maður áður haft ríkisborgararétt í öðru norrænu landi og misst hann við að fá sænskan ríkisborgararétt er í sumum tilvikum hægt að endurheimta upprunalega ríkisborgararéttinn.

Danmörk

Hvernig fer ég að ef ég hef áður verið danskur ríkisborgari og vil verða það aftur?

Hafi maður áður haft danskan ríkisborgararétt og misst hann við að fá sænskan ríkisborgararétt er, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, hægt að fá danskan ríkisborgararétt á ný með yfirlýsingu.

Upplýsingar má nálgast á vefsvæði danska útlendinga- og aðlögunarráðuneytisins.

Finnlandi

Hvernig fer ég að ef ég hef áður verið finnskur ríkisborgari og vil verða það aftur?

Hafi maður áður haft finnskan ríkisborgararétt og misst hann við að fá sænskan ríkisborgararétt er hægt að gefa yfirlýsingu. Uppfylli maður tiltekin skilyrði fær maður finnskan ríkisborgararétt á ný.

Nánari upplýsingar um endurheimt finnsks ríkisborgararéttar má finna á vefsvæði finnska sendiráðsins í Stokkhólmi.

Ísland

Hvernig fer ég að ef ég hef áður verið íslenskur ríkisborgari og vil verða það aftur?

Þú þarft að hafa samband við Útlendingastofnun til að fá upplýsingar um endurheimt íslensks ríkisborgararéttar.

Noregur

Hvernig fer ég að ef ég hef áður verið norskur ríkisborgari og vil verða það aftur?

Hafi maður áður haft norskan ríkisborgararétt og misst hann við að fá sænskan ríkisborgararétt er hægt að gefa yfirlýsingu. Uppfylli maður tiltekin skilyrði fær maður norskan ríkisborgararétt á ný.

Upplýsingar um endurheimt norsks ríkisborgararéttar má nálgast á vefsvæði norskra útlendingayfirvalda (Utlendingsdirektoratet).

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna