Ríkisborgararéttur í Danmörku
Danskur ríkisborgararéttur við fæðingu
Þegar barn fæðist ræðst ríkisfang þess af ríkisborgararétti foreldranna og af því þeim lögum sem giltu um danskan ríkisborgararétt við fæðingu.
Um börn sem fædd eru 1. júlí 2014 eða síðar gildir að þau verða sjálfkrafa danskir ríkisborgarar ef móðirin, faðirinn eða meðmóðirin er danskur ríkisborgari. Það gildir óháð fæðingarstað barnsins og hjúskaparstöðu foreldranna. Þetta á jafnframt við um ættleidd börn yngri en 12 ára sem ættleidd eru samkvæmt dönsku ættleiðingarleyfi eða samkvæmt erlendri ákvörðun sem viðurkennd er samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga um ættleiðingar.
Á vef danska útlendinga- og aðlögunarráðuneytisins geturðu lesið um þær reglur sem gilda um danskan ríkisborgararétt við fæðingu. Þar finnurðu einnig reglur sem gilda um börn fædd fyrir 1. júlí 2014.
Ef þú ert ríkisborgari í öðru norrænu landi og vilt fá danskan ríkisborgararétt
Sem ríkisborgari í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð eða á Íslandi geturðu öðlast danskan ríkisborgararétt með tvennum hætti: Með yfirlýsingu (erklæring) eða með veitingu ríkisborgararéttar (naturalisation).
Ef þú ert norrænn ríkisborgari geturðu undir vissum kringumstæðum orðið danskur ríkisborgari með því að gefa yfirlýsingu til útlendinga- og aðlögunarráðuneytisins.
Þetta á við ef þú hefur fengið ríkisborgararétt í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð eða á Íslandi við fæðingu, ættleiðingu eða hjúskap foreldra þinna en ekki ef þú hefur fengið ríkisborgararétt með veitingu (naturalisation) (þ.e. eftir umsókn eða með lagasetningu). Til þess að fá danskt ríkisfang með yfirlýsingu verðurðu jafnframt að:
- hafa náð 18 ára aldri,
- búa í Danmörku og hafa átt heima þar undanfarin sjö ár, og
- hafa á þeim tíma ekki hlotið fangelsisdóm eða aðra samsvarandi refsingu.
Nánari upplýsingar um ríkisborgararétt með yfirlýsingu má nálgast á vef útlendinga- og aðlögunarráðuneytis Danmerkur.
Ef þú ert norrænn ríkisborgari en uppfyllir ekki fyrrnefnd skilyrði um að fá ríkisborgarararétt með yfirlýsingu geturðu sótt um veitingu ríkisborgararéttar. Danska útlendinga- og aðlögunarráðuneytið afgreiðir umsóknir um danskan ríkisborgarétt. Ef þú uppfyllir kröfur um danskan ríkisborgararétt er nafn þitt nefnt í frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar sem afgreitt er á Þjóðþinginu.
Til þess að fá ríkisborgararétt með lagasetningu þarftu að uppfylla eftirfarandi skilyrði. Nánari upplýsingar um kröfur má nálgast á vef útlendinga- og aðlögunarráðuneytis Danmerkur og í umburðarbréfi nr. 9461 frá 17. júní 2021.
- Þú þarft að undirrita yfirlýsingu um tryggð og hollustu.
- Þú þarft að eiga heima í Danmörku og hafa dvalist þar samfleytt í tvö ár.
- Þú mátt ekki hafa hlotið ákæru fyrir lögbrot eða tekið út refsingu.
- Þú mátt ekki eiga gjaldfallnar skuldir til hins opinbera.
- Þú mátt ekki hafa hlotið aðstoð á grundvelli félagsmálalöggjafar (aktiv socialpolitik) eða aðlögunarlöggjafar (integrationsloven) undanfarin tvö ár. Þú mátt heldur ekki hafa hlotið aðstoð á grundvelli félagsmálalöggjafar (aktiv socialpolitik) eða aðlögunarlöggjafar (integrationsloven) í samtals fjóra mánuði á undanförnum fimm árum.
- Þú verður að hafa verið í fullri vinnu í að minnsta kosti þrjú ár og sex mánuði eða hafa stundað sjálfstæðan atvinnurekstur í samsvarandi tíma á síðustu fjórum árum.
- Þú þarft að sýna fram á dönskukunnáttu með því að skila gögnum um tiltekin próf. Sænsku- og norskumælandi umsækjendur geta sýnt fram á dönskukunnáttu sína með því að sýna gögn um að þeir hafi staðist lokapróf úr sænsku- eða norskumælandi grunnskóla.
- Þú þarft að sýna fram á þekkingu á dönskum samfélagsmálum, danskri menningu og sögu með því framvísa vottorði um að þú hafir staðist próf vegna ríkisborgararéttar (indfødsretsprøve). Sænsku- og norskumælandi umsækjendur sem sýnt geta fram á að þeir hafi staðist lokapróf úr sænsku- eða norskumælandi grunnskóla þurfa ekki að þreyta prófin.
- Þér ber að taka þátt í stjórnarskrárathöfn hjá sveitarfélaginu þínu.
Ef þú óskar eftir dönskum ríkisborgararétti en ert ekki norrænn ríkisborgari
Ef þú óskar eftir því að verða danskur ríkisborgari en ert ekki ríkisborgari annars staðar á Norðurlöndum geturðu lesið um skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá danskan ríkisborgararétt á vefsíðu danska útlendinga- og aðlögunarráðuneytisins.
Tvöfalt ríkisfang
Danskir ríkisborgarar geta haldið dönsku ríkisborgararétti sínum ef þeir fá ríkisborgararétt í öðru landi með umsókn eða yfirlýsingu eftir 1. september 2015.
Einnig geta erlendir ríkisborgarar haldið ríkisborgararétti sínum ef þeir fá danskan ríkisborgararétt.
Þó ber að hafa í huga að sum lönd utan Norðurlanda gera kröfu um afsal fyrirliggjandi ríkisborgararéttar til að geta fengið ríkisborgararétt þar.
Ef þú fæddist erlendis og ert ríkisborgari í Danmörku og að minnsta kosti einu öðru landi.
Ef þú fæddist erlendis og hefur aldrei búið í Danmörku eða dvalist í Danmörku við aðstæður sem benda til tengsla við Danmörku missir þú danskan ríkisborgararétti þinn þegar þú verður 22 ára, nema þú verðir ríkisfangslaus við það.
Ef þú hefur ekki haldið dönskum ríkisborgararétti þínum vegna búsetu eða dvalar getur útlendinga- og aðlögunarráðuneytið veitt undanþágu til að þú haldir dönskum ríkisborgararétti, á grundvelli nákvæms mats. Ráðuneytið getur þó ekki veitt undanþágu til að þú haldir dönskum ríkisborgararétti ef þú sækir um það eftir að þú nærð 22 ára aldri.
Útlendinga- og aðlögunarráðuneytið mælir því með því að þú sækir um að fá að halda dönskum ríkisborgararétti þínum áður en þú verður 22 ára.
Nánari upplýsingar um skilyrði og hvernig sótt er um er að finna á vef útlendinga- og aðlögunarráðuneytisins.
Veiting dansks ríkisborgararétts á ný
Ef þú varst áður danskur ríkisborgari getur þú að uppfylltum tilteknum skilyrðum endurheimt danska ríkisborgararéttinn. Meginreglan er að uppfylla þarf ákveðin búsetuskilyrði. Sérstakar reglur gilda ef þú varðst ríkisborgari Finnlands, Íslands, Noregs eða Svíþjóðar síðan þú misstir danska ríkisborgararéttinn. Þú getur lesið þér til um möguleikann á að endurheimta danskan ríkisborgararétt að uppfylltum búsetuskilyrðum á vefsíðum útlendinga- og aðlögunarráðuneytisins.
Ef þú uppfyllir ekki búsetuskilyrði er engu að síður mögulegt að þú getir endurheimt danska ríkisborgararéttinn. Þá þarftu að hafa misst danskan ríkisborgararétt vegna þess að þú sóttir um og fékkst ríkisborgararétt í öðru landi og þú mátt ekki hafa verið dæmd/ur til fangelsisvistar síðan þú misstir danska ríkisborgararéttinn. Þetta eru bráðabirgðareglur sem gilda frá 1. júlí 2021 til 30. júní 2026. Nánari upplýsingar um skilyrði bráðabirgðareglnanna er að finna á vefsíðum útlendinga- og aðlögunarráðuneytisins.
Nánari upplýsingar
Hægt er að finna allar upplýsingar um ríkisborgararétt í Danmörku á vef útlendinga- og aðlögunarráðuneytisins.
Nálgast má nánari upplýsingar á ensku á lifeindenmark.dk.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.