Íslenskur ríkisborgararéttur

Ríkisborgararéttur
Hér má finna upplýsingar um íslenskan ríkisborgararétt og hvernig sótt er um hann og um tvöfalt ríkisfang.

Barn öðlast íslenskt ríkisfang við fæðingu ef móðir þess er íslenskur ríkisborgari eða ef faðir þess er íslenskur ríkisborgari og kvæntur móðurinni. Barn íslensks föður og erlendrar móður, sem ekki eru í hjúskap, öðlast sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu ef það er fætt á Íslandi og faðernið er staðfest samkvæmt barnalögum.

Ef barnið fæðist erlendis getur faðirinn óskað eftir því við innanríkisráðuneyti að barnið öðlist íslenskt ríkisfang. Hafa ber samráð um þetta við börn sem eru tólf ára eða eldri. Gangi foreldrar barns í hjúskap og það hefur ekki þegar hlotið íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt leiðunum sem nefndar eru hér að ofan þá öðlast barnið íslenskt ríkisfang við hjúskap foreldranna. Þetta á þó aðeins við börn fædd eftir 1. október 1988. Nánari upplýsingar veitir innanríkisráðuneyti á heimasíðu sinni auk þess sem skoða má lögin á heimasíðu Alþingis.

Sótt um íslenskt ríkisfang

Útlendingastofnun tekur við umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt. Almennt búsetuskilyrði fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar er að umsækjandi hafi búið á Íslandi í sjö ár. Ríkisborgarar norrænna ríkja eru þó undantekning, þeir þurfa aðeins að hafa átt lögheimili á Íslandi í fjögur ár. Umsækjandi þarf að hafa átt samfellda dvöl í landinu síðustu ár áður en umsókn um ríkisborgararétt er lögð fram. Undantekningar á samfelldri dvöl eru þó mögulegar.

Eftirfarandi skilyrði eru einnig sett:

  • Óheimilt er að hafa þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi síðastliðin þrjú ár.
  • Umsækjandi má ekki hafa verið sektaður eða hlotið fangelsisdóm, hérlendis né erlendis, né heldur eiga ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi samkvæmt íslenskum lögum. Að ákveðnum tíma liðnum er þó heimilt að víkja frá þessu.
  • Frá og með ársbyrjun 2009 þurfa umsækjendur að hafa staðist próf í íslensku. Menntamálastofnun semur prófin og yfirfer þau, en Mímir símenntun heldur prófin. Undantekningar eru heimilar í vissum tilvikum.
  • Greiða þarf sérstakt umsóknargjald auk þess sem þátttökugjald er greitt fyrir íslenskupróf.

Tvöfaldur ríkisborgararéttur

Þegar útlendingi er veittur íslenskur ríkisborgararéttur með lögum frá Alþingi er ekki gerð krafa til þess að hann afsali sér fyrri ríkisborgararétti sínum til þess að fá íslenska ríkisborgararéttinn. Lög þess ríkis þar sem útlendingurinn átti ríkisborgararétt gætu þó kveðið á um að ríkisborgararétturinn þar falli niður. Öll Norðurlöndin heimila tvöfalt ríkisfang. 

Íslenskum ríkisborgurum er heimilt að halda íslensku ríkisfangi sínu þótt þeir sæki um ríkisborgararétt í öðru ríki. Íslenskir ríkisborgarar sem sækja um erlendan ríkisborgararétt gætu þó þurft að afsala sér íslenska ríkisborgararéttinum ef lög í því ríki heimila ekki tvöfaldan ríkisborgararétt. 

Nánari upplýsingar um ríkisborgararétt fást hjá Útlendingastofnun. 

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna