Um þing Norðurlandaráðs

Nordiska rådets session 2017
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
Norðurlandaráðsþing er æðsta samkunda ráðsins. Regluleg þing eru haldin í 44. viku hvers árs í formennskulandinu og þemaþing fer fram á vorin. Þingin eru einstakur vettvangur þar sem þingmenn, forsætisráðherrar og aðrir ráðherrar ræða málefni Norðurlanda.

Þingið

Þingið fer fram á haustdögum, yfirleitt í lok október eða í byrjun nóvember. 

Þingið er æðsta ákvörðunarvald norræna þingmannasamstarfsins. Um er að ræða einstakan vettvang fyrir svæðasamstarf þar sem saman koma þingmenn sem þjóðþingin tilnefna til setu í Norðurlandaráði og ráðherrar úr ríkisstjórnum Norðurlanda. Allir taka þátt í umræðum um mikilvæg málefni í norrænu samstarfi en eingöngu þingmennirnir hafa atkvæðisrétt.

Gestir og þingmenn frá öðrum alþjóðlegum og norrænum stofnunum hafa nú í tvö ár getað tekið þátt í umræðum á þingi. Einkum eru það gestir frá Eystrasaltsríkjunum sem nýta sér þann rétt. Á þemaþing er boðið gestum sem tengjast því þema sem er á dagskrá hverju sinni. 

Þingin færast milli landa

Norrænt land sem gegnir formennsku í Norðurlandaráði er jafnframt gestgjafi þingsins og fer það fram í húsakynnum þjóðþingsins. Ísland er þar undantekning þar sem Alþingishúsið er ekki nógu stórt. Þemaþing er haldið í því landi sem gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

Við setningu reglulega þingsins greina forsætisráðherrarnir frá áætlunum sínum í norrænu ríkisstjórnasamstarfi á komandi ári. Skýrsluna flytur forsætisráðherra þess lands sem gegna mun formennsku í ríkisstjórnasamstarfinu á komandi ári.

Venjan er að allir forsætisráðherrar Norðurlandanna séu til staðar og taki þátt í umræðu með þingmönnunum á eftir.

Utanríkis- og varnarmálaráðherrar og aðrir fagráðherrar á þingi

Utanríkis- og varnarmálaráðherrarnir gefa einnig skýrslu um norrænt samstarfi á sínum sviðum. Þeir taka einnig þátt í umræðum á þingi.

Þátttaka annarra ráðherra fer eftir því hvaða pólitísku málefni verða til umræðu. Umræðuefnið ræðst af þingmannatillögum sem lagðar hafa verið lagðar fram í Norðurlandaráði á árinu og ákveðið hefur verið að taka afstöðu til á þingi.

Tillögur sem samþykktar eru á þingi eru sendar áfram til Norrænu ráðherranefndarinnar eða norrænu ríkisstjórnanna með það fyrir augum að þær verði framkvæmdar.

Norrænu samstarfsráðherrarnir eru viðstaddir allt þingið og fyrirspurnatími þeirra er mjög vinsæll þar sem þingmenn geta varpað fram allskonar fyrirspurnum um norrænt samstarf.

Forsetakjör

Forseti og varaforseti norræna þingmannasamstarfsins á næsta ári eru kjörnir á þingi.

Fulltrúar í forsætisnefnd Norðurlandaráðs (pólitískri forystu ráðsins sem fer með æðsta ákvörðunarvald milli þinga) og fulltúar í fagnefndum eru einnig kjörnir á þinginu.

Afhending verðlauna Norðurlandaráðs

Verðlaun Norðurlandaráðs í bókmenntum, tónlist, kvikmyndum og umhverfismálum eru afhent á Norðurlandaráðsþingi. Verðlaunaafhendingin fer fram við hátíðlegt tækifæri að kvöldi til. 

Norrænir leiðtogafundir

Þar sem mikill fjöldi norræns stjórnmálafólks er saman kominn eru haldnir ýmsir fundir í tengslum við þingið. Árið 2006 var tekinn upp sá siður að halda norrænan leiðtogafund í aðdraganda þingsins. Þar ræða forsætisráðherrarnir og þingmennirnir mál sem eru í brennidepli eins og hnattvæðinguna og loftslagsvána.

Norðurlandaráð æskunnar ríður á vaðið

Næsta kynslóð stjórnmálafólks á Norðurlöndum, Norðurlandaráð æskunnar, þingar í aðdraganda Norðurlandaráðsþings. Þar ræða þingfulltrúar tillögur sem varða norrænt samstarf og taka afstöðu til þeirra. Fulltrúar æskunnar kynna mál sín á þingi Norðurlandaráðs þar sem þeir hafa málfrelsi, taka þátt í umræðum og leggja fram tillögur.

Fundir með öðrum þingmönnum

Norrænir þingmenn eru vanir að funda með kollegum af Eystrasaltsþinginu, sem er þingmannasamstarf Eistlands, Lettlands og Litáen, frá Rússlandi og fulltrúum annarra samstarfsstofnana í Evrópu.

Fréttamannafundir og málþing

Á þinginu eru haldnir fréttamannafundir, hádegisverðarmálþing og fundir. Þá gefast tækifæri til óformlegra samskipta á kvöldin.