Um forsætisnefnd Norðurlandaráðs

Nordisk råds presidentskap 2024

Nordisk råds presidentskap 2024

Photographer
Stine Østby/Norden.org
Pólitísk stjórn Norðurlandaráðs, forsætisnefndin, ber ábyrgð á umfangsmiklum pólitískum málum, skipulagningu og fjárhagsáætlunum auk utanríkis- og varnarmálasamstarfi þjóðþinganna.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvaldið milli hinna árlegu funda, [þinganna],og hefur völd til að taka ákvarðanir fyrir hönd ráðsins. Forsætisnefndin stýrir og samræmir starf allra nefnda og ráða ráðsins, ber ábyrgð á umfangsmiklum pólitískum og stjórnsýslulegum málum, gerir framkvæmdaáætlun og fjárhagsáætlun og fer með ábyrgð á umfangsmiklum málefnum sem snerta utanríkis- og varnarmál.

Forsætisnefndin getur skipað undirnefndir eða vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma. Þetta á við um Fjárlagahópinn sem ræðir við Ráðherranefndina um norrænu fjárlögin.

Fundir forsætisnefndarinnar eru ekki opinberir, en forsætisnefndin getur leitað eftir aðstoð utan frá til að leysa samstarfsmál eða haldið námstefnur til að kanna skoðanir eða taka þátt í umræðum um norræn málefni. Til þessara viðburða er boðið bæði fagfólki og gestum.

Tengingar við þjóðirnar og á alþjóðavettvangi

Forsætisnefndin ber einnig ábyrgð á samræmingu tengsla við þjóðþing og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir. Forsætisnefndin hefur sérlega mikið samstarf við Eystrasaltsþingið, sem er vettvangur þingsamstarfs Eistlands, Lettlands og Litháens.

Öll lönd og flokkahópar ættu að taka þátt

Ellefu fulltrúar sitja í forsætisnefndinni auk forseta og varaforseta. Öll lönd og [flokkahópar] ættu að eiga þar fulltrúa. Fulltrúarnir eru kjörnir á hefðbundnu þingi ráðsins, sem haldið er á haustin, til eins árs í senn. Forsetinn og varaforsetinn eru frá því landi sem verður gestgjafi hefðbundna þingsins á því ári sem þeir sinna starfinu.

Tillögu sem lögð er fram af fulltrúa eða hópi fulltrúa er vísað til [nefndar] eða til forsætisnefndar til umfjöllunar. Forsætisnefndin getur valið að senda tillöguna til umsagnar hjá ýmsum aðilum í löndunum eða afla upplýsinga á annan hátt til stuðnings eða á móti tillögunni.

Forsætisnefndin má taka ákvarðanir í stað þingsins

Tillögur forsætisnefndarinnar sem nefnast álitsgerðir eru lagðar fyrir þingið, til ákvörðunar um hvað skuli leggja til við norrænu ríkisstjórnirnar eða Um Norrænu ráðherranefndina. Í sumum tilfellum kann forsætisnefnd að taka ákvörðun fyrir hönd þingsins. Þetta getur til dæmis átt við um mál sem forsætisnefnd vill að komi til framkvæmdar eins skjótt og auðið er.