Jonas Eika

Jonas Eika
Photographer
Lil B. Wachmann
Jonas Eika: Efter Solen. Smásagnasafn, Basilisk, 2018. Tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Rökstuðningur:

Jonas Eika kvað sér fyrst hljóðs árið 2015 með skáldsögunni Lageret Huset Marie, sem fjallar um að vinna á næturvöktum í hátæknivæddri birgðageymslu. Bókin er vinnustaðarsaga sem fjallar um að vera innilega ástfanginn og þótti sérlega góð frumraun. 

Árið 2018 kom önnur bók Eika út. Efter Solen er smásagnasafn sem samanstendur af fjórum löngum sögum: „Alvin“, „Bad Mexican dog“, sem skiptist í tvo hluta, „Rachel, Nevada“ og „Mig, Rory og Aurora“. Hver og ein þessara sagna kemur lesandanum á óvart og má segja að þær séu spennandi nýlunda í dönskum bókmenntum. Sögurnar eru ófyrirsjáanlegar og drifnar áfram af óvenjulegum þáttum: lesandinn er einfaldlega dreginn inn í annan heim og veit ekki hvað bíður handan við næsta horn. Það er einn af kostum bókarinnar. Annar kostur er að hún er afar vel skrifuð og stíllinn skarpur og myndrænn. Myndunum skýtur stöðugt upp í nýjum fléttum og samhengi verður til, en það er engin leið að vita hvert leiðin liggur næst. Sögurnar eiga sér rætur í tiltölulega kunnuglegum veruleika. Sögusviðið er Kaupmannahöfn, Mexíkó, Lundúnir og Nevada og til umfjöllunar eru spákaupmenn, heimilislausir drengir sem vinna fyrir sér á dýrum sumarleyfisstað í Cancun, fíkniefnaneytendur og fólk sem trúir á geimverur. Allt fyrirfinnst þetta í raun og veru, en í raunsæi smásagnanna leynast töfrar að því leyti að textarnir reyna stöðugt á mörk skynjunarinnar hjá lesandanum. Það sem við getum séð, það sem við getum skynjað, er tekið skrefinu lengra. Þess vegna verka sumar lýsingarnar ekki raunsæjar heldur fremur eins og útvíkkun á skynsviðinu. Skilningarvitin gegna mikilvægu hlutverki. Í bókinni er mikið um lykt, hljóð, bragð, snertingu og sýnir. Textinn er fullur orku sem einnig er erótísk, kynferðisleg.

Efter Solen er mörkuð þeim erfiðleikum sem steðja að heiminum í dag. Arðrán og misrétti, örvæntingarfull tilvera og ofbeldisfull og dimm reynsla eru mikilvægir þættir frásagnarinnar. Þó má greina von í formi möguleika á breytingum. Von um að annar heimur sé í raun mögulegur og kannski þegar til staðar, en þurfi að vera vakinn til lífsins og lagður fram. Ef það er rétt að tungumálið sé steingerð ljóðlist, þá virkjar Efter Solen ákafa og sjálfbæra úrvinnslu á eldsneyti tungumálsins, sem er hrífandi í sjálfu sér. En bókin slær einnig nýjan tón fullvissu í bókmenntum sem fást við þau viðfangsefni sem enginn getur sneitt hjá: Áhrif misréttis í heiminum, hnattræna hlýnun og öll hin vandamálin sem herja á jörðina. 

Efter Solen hlaut dönsku bókmenntaverðlaunin Den svære Toer, Montana-verðlaunin og Michael Strunge-verðlaunin.