Atvinnuleit í Noregi

Í Noregi er algengt að leita að lausum störfum á starfagáttum eins og nav.no, í auglýsingum dagblaðanna eða á heimasíðum fyrirtækja og stofnana. Einnig er hægt að senda opna umsókn á vinnustaði eða skrá sig hjá starfsmannaleigu eða ráðningarskrifstofu.
Opinber vinnumiðlun í Noregi er á vegum NAV (norsku vinnumála- og trygginastofnunarinnar). Á heimasíðu NAV er að finna stærstu starfagáttina í Noregi. Þar er hægt að leita hnitmiðað að vinnu út frá starfsgreinum, landssvæðum og ráðningarkjörum (fullu starfi, hlutastarfi, afleysingum). Þar geturðu skráð þig sem vinnuleitanda og sett upp þína síðu þar sem þú vistar starfsumsóknir, birtir ferilskrána og færð tilkynningar þegar viðeigandi störf eru auglýst. Ef þú birtir ferilskrána þína geta atvinnurekendur haft beint samband við þig.
Atvinnuleit hjá evrópsku vinnumiðluninni EURES
Þú getur hafið atvinnuleit þína í Noregi hjá vinnumiðlun í heimalandinu. EURES-ráðgjafar í heimalandinu geta veitt þér ráðgjöf og leiðbeiningar. Í Noregi er EURES hluti af starfsemi NAV.
Atvinnuleit í Noregi á atvinnuleysisbótum frá hinum Norðurlöndunum
Ef þú flytur til Noregs frá öðru norrænu landi eða ESB/ EES-landi geturðu fengið almennar atvinnuleysisbætur frá heimalandinu í þrjá mánuði á meðan þú ert í atvinnuleit. Skilyrði þess er að þú sért á atvinnuleysisbótum og uppfyllir nokkur önnur skilyrði áður en þú flytur á milli landa.
Ef þú ert ekki búin/n að finna þér vinnu að þremur mánuðum liðnum verðurðu að snúa aftur til heimalandsins ef þú vilt halda bótaréttinum.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.