Atvinnuleysisbætur í Danmörku

Danske regler for arbejdsløshedsforsikring og -dagpenge
Hér geturðu lesið um hvernig þú skráir þig í atvinnuleysistryggingasjóð í Danmörku og hvenær þú átt rétt á atvinnuleysisbótum.

Ef þú verður atvinnulaus geturðu átt rétt á atvinnuleysisbótum. Krafan er að þú hafir áunnið þér tryggingarétt. Í sumum norrænum löndum gerist það sjálfkrafa þegar þú ert í vinnu en annars staðar þarftu að skrá þig í atvinnuleysistryggingasjóð. Ef þú hefur búið í einu norrænu landi en starfað í öðru, eða ef þú flytur úr einu norrænu landi í annað þarftu að kynna þér vandlega hvaða reglur eiga við um um þig.

Atvinnuleysistryggingar

Ef þú starfar í Danmörku eru það í langflestum tilvikum danskar reglur um almannatryggingar sem eiga við um þig. Það þýðir að þú þarft að skrá þig í atvinnuleysistryggingasjóð (a-kasse) til þess að ávinna þér tryggingarétt ef til atvinnumissis kemur.

Í Danmörku er fólki valfrjálst að skrá sig í atvinnuleysistryggingasjóð en flestir gera það því tryggingaréttur veitir fjárhagslegt öryggi við atvinnumissi.

Þú getur valið að tryggja þig að fullu eða að hluta til. Full trygging er dýrari en hlutatrygging en skilar sér í hærri atvinnuleysisbótum ef til kemur.

Þú þarft að hafa samband við atvinnuleysistryggingasjóð til að skrá þig.

Skrá yfir danska atvinnuleysistryggingasjóði er að finna hjá Styrelsen for Arbejdsmarked og Rekruttering en nánari upplýsingar um sjóðina veita samtök atvinnuleysistryggingasjóða, Danske A-kasser.

Ef þú býrð í Danmörku en starfar í öðru norrænu landi

Ef þú býrð í Danmörku en starfar í öðru norrænu landi eru það yfirleitt reglurnar í starfslandinu sem gilda.

Ef þú býrð í öðru norrænu landi en starfar í Danmörku

Ef þú býrð í einu norrænu landi en starfar í öðru eru það yfirleitt reglurnar í starfslandinu sem gilda.

Ef þú starfar í tveimur eða fleiri löndum

Ef þú starfar í tveimur eða fleiri löndum ræðst skráning þín í atvinnuleysistryggingasjóð af því hvar þú býrð og hve mikið þú vinnur í hverju landi um sig. Meginreglan er sú að danskar reglur gilda ef þú býrð í Danmörku og vinnur meira en 25% af vinnutíma þínum þar í landi. Ef þú ert með frekari spurningar geturðu haft samband við Udbetaling Danmark.

Þegar þú flytur til Danmerkur eða hefur störf í Danmörku

Einstaklingur sem hefur störf í Danmörku eða lútir af öðrum ástæðum dönskum reglum þarf að skrá sig í danskan atvinnuleysistryggingasjóð áður en átta vikur eru liðnar frá flutningnum til þess að atvinnuleysistryggingatímabilið rofni ekki..

Að starfa fyrir danskan atvinnurekanda í öðru landi

Ef þú starfar fyrir danskan atvinnurekanda í öðru norrænu landi í allt að tvö ár geturðu sótt um hjá Udbetaling Danmark að þú njótir áfram danskra almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga í Danmörku. Udbetaling Danmark getur gefið út A1-vottorð sem staðfestingu þessa gagnvart erlendum yfirvöldum.

Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

Ef þú starfar í stuttan tíma erlendis

Ef þú ert í vafa um hvar þú eigir að skrá þig í atvinnuleysistryggingasjóð, skaltu fá úr því skorið hjá yfirvöldum í starfs- eða búsetulandinu.

Ef þú starfar tímabundið á Grænlandi

Ef þú starfar tímabundið fyrir danskan atvinnurekanda á Grænlandi en átt lögheimili í Danmörku þegar þú flytur til Grænlands geturðu skráð þig í danskan atvinnuleysistryggingasjóð. Leitaðu svara svið spurningum hjá atvinnuleysistryggingasjóðnum.

Ef þú ert sjálfstætt starfandi

Þú getur öðlast rétt á atvinnuleysisbótum þegar þú ert sjálfstætt starfandi. Þó gilda aðeins aðrar reglur en um launafólk. Þú þarft til dæmis að leggja fyrirtækið niður til að öðlast rétt til dagpeninga.

Ef þú ert sjálfstætt starfandi á landamærasvæði og ert atvinnulaus að fullu og býrð í ESB-landi þar sem ekkert atvinnuleysistryggingakerfi er fyrir sjálfstætt starfandi geturðu fengið bætur úr danska atvinnuleysistryggingasjóðnum ef þú uppfyllir ákveðin skilyrði.

Ef þú stundar nám

Sjá kaflann „Beint úr námi“ undir „Atvinnuleysisbætur“.

Udbetaling Danmark getur svarað spurningum þínum um hvar þú eigir að skrá þig í atvinnuleysistryggingasjóð.

Atvinnuleysisbætur

Í hvaða landi á ég að sækja um atvinnuleysisbætur?

Ef þú ert atvinnuleitandi geturðu sótt um atvinnuleysisbætur í búsetulandinu. Það á einnig við ef þú hefur starfað í öðru norrænu landi.

Hér að neðan geturðu lesið um reglurnar um rétt til danskra atvinnuleysisbóta. Ef þú býrð í öðru norrænu landi en hefur starfað í Danmörku, geturðu lesið um reglurnar um rétt til atvinnuleysisbóta á vefsíðunni sem fjallar um búsetulandið þitt (sjá „Upplýsingar um atvinnuleysistryggingar og atvinnuleysisbætur í norrænu löndunum“ neðst á þessari síðu).

Hvernig ávinnur þú þér rétt til danskra atvinnuleysisbóta ef þú ert launamaður eða sjálfstætt starfandi?

Þú þarft að uppfylla ákveðin skilyrði til að ávinna þér rétt til danskra atvinnuleysisbóta. Hér geturðu lesið yfirlit yfir þau. Greint er frá reglunum á vefnum borger.dk.

Þú þarft:

 • að vera skráð(ur) atvinnuleitandi á vinnumiðlun í nærumhverfi þínu frá fyrsta degi atvinnuleysis;
 • að hafa verið á skrá í atvinnuleysistryggingasjóði í að minnsta kosti eitt ár;
 • að hafa skráð tilteknar tekjur undanfarin þrjú ár;
 • að vera reiðubúin(n) að ráða þig til starfa;
 • að leggja fram fullgerða og samþykkta ferilskrá eigi síðar en tveimur vikum eftir að þú skráir þig í atvinnuleit hjá á vinnumiðlun.
Ef þú hefur nýlokið námi

Ef þú hefur nýlokið námi geturðu átt rétt á atvinnuleysisbótum mánuði eftir að þú lýkur námi. Miðað er við að um sé að ræða eina af eftirfarandi menntabrautum:

 • starfsnám sem er að minnsta kosti 18 mánuði að lengd;
 • verknám samkvæmt lögum um verknám;
 • aðlögunarmenntun samkvæmt lögum um aðlögunarmenntun - IGU;
 • starfstengd kandídatsmenntun sem hefst síðar en 1. júlí 2018 samkvæmt lögum um háskóla.

Til að eiga rétt á atvinnuleysisbætum að loknu námi þarftu:

 • að hafa staðist próf í dönsku 2 með a.m.k. 02 í einkunn eða dönskupróf á samsvarandi eða hærra stigi

eða

 • hafa skráð a.m.k. 600 vinnustundir í fullri vinnu og 400 vinnustundir vegna hlutastarfs í 12 mánuði á síðasta 24 mánaða tímabili.

Þú þarft að sækja um aðild að atvinnuleysistryggingasjóði eigi síðar en tveimur vikum eftir að þú lýkur námi. Aðildin hefst í fyrsta lagi sama dag og þú lýkur námi.

Ef þú hefur nýlokið námi færðu fasta upphæð atvinnuleysisbóta en hún ræðst af því hvort þú ert með fleiri á framfæri.

Ef þú stundaðir nám erlendis fer réttur þinn til atvinnuleysisbóta eftir því hvort þú uppfyllir kröfuna um að hafa búið og dvalist í Danmörku, Færeyjum eða á Grænlandi þegar þú fórst í nám og eigi síðar en tveimur vikum eftir að námi lauk.

Ef þú starfaðir erlendis og sækir um danskar atvinnuleysisbætur

Ef þú uppfyllir ekki kröfuna um danska atvinnuleysistryggingu vegna þess að þú starfaðir í öðru norrænu landi og varst atvinnuleysistryggð/ur þar í landi, þarftu að sýna fram á tryggingartímabilið erlendis, annað hvort með því að atvinnuleysistryggingasjóðurinn sæki upplýsingar beint til þess norræna lands sem þú hefur verið með atvinnuleysistrygging í, eða með PD U1-vottorðinu en það færðu hjá atvinnuleysistryggingasjóðnum í landinu þar sem þú starfaðir.

Ef þú hefur verið áður í atvinnuleysistryggingasjóði í Danmörku

Þú þarft að hafa verið í dönskum atvinnuleysistryggingasjóði eigi skemur en í eitt ár til þess að ávinna þér rétt til atvinnuleysisbóta eftir að hafa dvalist í öðru EES-landi, Sviss, Færeyjum eða Bretlandi.

Ef þú hefur verið í dönskum atvinnuleysistryggingasjóði einhvern tíma á undanförnum fimm árum geturðu lagt atvinnuleysistryggingatímabilin frá öðru EES-landi, Sviss, Færeyjum eða Bretlandi við atvinnuleysistryggingatímabil þín í Danmörku. Þú þarft að uppfylla tvö skilyrði eigi síðar en átta vikum eftir að atvinnuleysistryggingu þinni lýkur í öðru EES- landi, Sviss, Færeyjum eða Bretlandi:

 • Þú sækir skriflega um skráningu í danskan atvinnuleysistryggingasjóð.
 • Þú flytur til Danmerkur og dvelur þar.

Ef þú hefur ekki verið í dönskum atvinnuleysistryggingasjóði einhvern tíma á undanförnum fimm árum geturðu tekið með þér atvinnuleysistryggingatímabilin frá öðru EES-landi, Sviss, Færeyjum eða Bretlandi. Þú þarft að uppfylla eftirfarandi skilyrði eigi síðar en átta vikum eftir að atvinnuleysistryggingu þinni lýkur í öðru EES- landi, Sviss, Færeyjum eða Bretlandi:

 • Þú sækir skriflega um skráningu í danskan atvinnuleysistryggingasjóð.
 • Þú hefur ráðið þig í vinnu til ákveðins tíma eða hafið sjálfstæðan atvinnurekstur lengur en tímabundið. Nánari upplýsingar er að finna á vefnum borger.dk.

Atvinnuleysistryggingasjóðurinn sker úr um hvort þú færð aðild að sjóðnum og rétt til atvinnuleysisbóta.

Ef þú hefur starfað í Danmörku og sækir um atvinnuleysisbætur erlendis

Ef þú sækir um atvinnuleysisbætur í öðru norrænu landi geturðu átt rétt á að taka með í dæmið starfs- og tryggingatímabil frá Danmörku. Þú hefur samband við yfirvöld í því landi sem þú sækir um bæturnar ef þú ert í vafa um reglurnar.

Til þess að sýna fram á tryggingatímabil þín í Danmörku sækja stjórnvöld í því landi, sem þú sækir um atvinnuleysisbætur í, gögn um tryggingatímabil í Danmörku, eða þú getur framvísað PD U1-vottorði. Þú getur sótt um það á vefnum borger.dk

Hvernig sækir þú um danskar atvinnuleysisbætur?

Ef þú verður atvinnulaus þarftu þegar á fyrsta degi að skrá þig sem atvinnuleitanda á jobnet.dk. Ef þú hefur ekki aðgang að netinu geturðu leitað til næstu vinnumiðlunar eða atvinnuleysistryggingasjóðs eftir aðstoð við skráninguna.

Til þess að fá greiddar bætur úr atvinnuleysistryggingasjóðnum þarftu að skrá þig sem atvinnuleitanda á jobnet.dk og hjá atvinnuleysistryggingasjóðnum.

Þegar þú skráir þig sem atvinnuleitanda hjá vinnumiðlun færðu notendanafn og lykilorð fyrir heimasvæði þitt, „min side“ á jobnet.dk. Ef þú hefur skráð þig í atvinnuleit á jobnet.dk hefurðu einnig komið þér upp notendanafni og lykilorði. Hafi vinnumiðlunin skráð þig í atvinnuleit færðu upplýsingarnar sendar í rafæna pósthólfið þitt (e-boks). Ef þú ert undanþegin/n skyldubundnum rafrænum pósti færðu upplýsingarnar sendar bréfleiðis á skráð lögheimili þitt.

Þú þarft að semja ferilskrá á jobnet.dk. Auk þess þarftu að:

 • staðfesta að þú sért í atvinnuleit og skoðir vinnuauglýsingar
 • skrá atvinnuumsóknir þínar í atvinnuleitardagbók
 • tilkynna að þú sért vinnufær eftir veikindi
 • lesa tilkynningar á heimasvæðinu, Min Plan, um viðburði sem þú átt að taka þátt í á meðan þú ert í atvinnuleit og hvenær þú átt að mæta í viðtal á vinnumiðluninni og hjá atvinnuleysistryggingasjóðnum.

Auk þess er ýmis konar sjálfsafgreiðsla í boði. Þú getur til dæmis afskráð þig þegar þú færð vinnu, tilkynnt leyfi eða veikindi, bókað og afbókað viðtöl hjá vinnumiðlun.

Hve lengi geturðu fengið danskar atvinnuleysisbætur?

Ef þú hefur ekki nýlokið námi áttu rétt á atvinnuleysisbótum í tvö ár á þriggja ára tímabili. Ef þú hefur nýlokið námi áttu rétt á atvinnuleysisbótum í samanlagt eitt ár á tveggja ára tímabili.

Notkun þín á atvinnuleysisbótum er reiknuð í klukkustundum á „viðmiðunartímabili“, sem er tvö eða þrjú ár, eftir því hvort hefur útskrifast nýlega eða ekki. Á viðmiðunartímabilinu áttu samanlagðan rétt á bótum í ákveðinn fjölda klukkustunda. Sá tímafjöldi sem þú átt bótarétt á fyrnist ef þér tekst ekki að nýta hann á umræddu viðmiðunartímabili. Viðmiðunartímabilið má framlengja, til dæmis vegna veikinda eða fæðingarorlofs.

Að loknu því tímabili þegar þú átt rétt á atvinnuleysisbótum áttu rétt á að framlengja tímabilið með þeim fjölda greiddra vinnustunda sem þú hefur unnið frá því að greiðsla bótanna hófst.

Hver vinnustund lengir bótatímabilið um tvær stundir. Þessar aukastundir á bótum þarftu að nýta innan tímabils sem nemur þreföldum fjölda vinnustundanna.

Þú getur unnið þér inn tíma upp að vissu marki. Nánari upplýsingar um reglurnar eru á vefnum borger.dk.

Geturðu fengið danskar atvinnuleysisbætur greiddar út í öðru norrænu landi?

Ef þú færð danskar atvinnuleysisbætur geturðu í ákveðnum tilvikum tekið þær með þér til annars norræns lands í allt að þrjá mánuði á meðan þú stundar atvinnuleit þar í landi. Þetta á ekki við um Grænland.

Skilyrðin eru:

 • að þú sért ríkisborgari í EES-landi eða Sviss;
 • að þú eigir lögheimili og dveljir í Danmörku þar til þú ferð úr landi;
 • að þú sért í atvinnuleysistryggingasjóði;
 • að þú eigir rétt á atvinnuleysisbótum þegar þú ferð úr landi;
 • að þú hafir verið atvinnulaus að fullu á skrá hjá vinnumiðlun eigi skemur en í fjórar vikur fyrir áætlaða brottför;
 • að þú hafir sótt um PD U2-vottorðið hjá atvinnuleysistryggingasjóðnum áður en þú ferð en ekki fyrr en fjórum vikum fyrir áætlaða brottför.

Í ákveðnum tilvikum geturðu fengið undanþágu frá kröfunni um fjögurrra vikna skráningu hjá vinnumiðluninni. Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

Vottorðið PD U2 veitir rétt til dagpeninga á því tímabili sem getið er í vottorðinu. Til þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur þarftu að skrá þig hjá vinnumiðlun í viðkomandi landi eigi síðar en sjö dögum seinna en upphafsdagsetningin á vottorðinu. Annars færðu ekki atvinnuleysisbætur fyrr en frá þeim degi sem þú skráir þig hjá vinnumiðluninni.

Á því tímabili sem þú færð atvinnuleysisbætur í öðru norrænu landi þarftu að vera vera reiðubúin/n að ráða þig til starfa í viðkomandi landi. Ef þú færð vinnu geturðu ekki haldið áfram að þiggja danskar atvinnuleysisbætur. Þess í stað er meginreglan sú að þú sért með atvinnuleysistryggingu í sama landi og þú starfar.

Ef þú finnur ekki vinnu í öðru landi er mikilvægt að þú snúir aftur til Danmerkur og skráir þig á næstu vinnumiðlun áður en þriggja mánaða fresturinn er liðinn. Fresturinn stendur á PD U2-vottorðinu sem þú færð hjá atvinnuleysistryggingasjóðnum.

Geturðu fengið atvinnuleysisbætur frá öðru norrænu landi á meðan þú ert í atvinnuleit í Danmörku?

Ef þú færð atvinnuleysisbætur í öðru norrænu landi geturðu í ákveðnum tilvikum fengið bæturnar með þér til Danmerkur í allt að þrjá mánuði meðan þú ert í atvinnuleit. Krafan er að atvinnuleysistryggingarsjóður í sama landi og þú ert atvinnuleysistryggð/ur gefi út PD U2-vottorð.

Þegar þú kemur til Danmerkur þarftu að skrá þig í atvinnuleit hjá Work in Denmark.

Hvar færðu svör við spurningum?

Vakni spurningar um atvinnuleysistryggingar í Danmörku geturðu leitað til atvinnuleysistryggingasjóðs.

Ef þú ert með spurningar um hvaða reglur í hvaða landi eigi við um þínar aðstæður geturðu leitað til skrifstofu alþjóðlegra almannatrygginga hjá Udbetaling Danmark.

Upplýsingar um atvinnuleysistryggingar og atvinnuleysisbætur í norrænu löndunum

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna