Vinnumarkaðsgreiðslur við atvinnuleysi á Grænlandi

Rød båt utenfor Ilulissat
Photographer
Silje Bergum Kinsten/norden.org
Hér er að finna upplýsingar um vinnumarkaðsgreiðslur sem þú kannt að eiga rétt á við atvinnuleysi á Grænlandi.

Á Grænlandi eru engir atvinnuleysissjóðir (a-kassar) eins og í Danmörku. Þú getur samt átt rétt á vinnumarkaðsgreiðslum frá þínu sveitarfélagi þegar þú ert án atvinnu.

Verðir þú atvinnulaus skaltu byrja á því að hafa samband við þjónustumiðstöð Majoriaq á þínu búsetusvæði. Þjónustumiðstöðvar Majoriaq eru í öllum grænlenskum bæjum og byggðarlögum. Þær þjónusta atvinnulausa, hafa umsjón með málsafgreiðslu þeirra og umsóknum og koma fólki sem hefur verið atvinnulaust til lengri tíma í endurhæfingu. Majoriaq getur hjálpað þér ef þú vilt taka þátt í starfsemi sem eflir þig í atvinnuleitinni eða endurmennta þig til að bæta horfur þínar á vinnumarkaði.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla?

Til að eiga rétt á vinnumarkaðsgreiðslum þarft þú að hafa orðið atvinnulaus að ósekju. Upphæð greiðslna fer eftir atvinnuþátttöku þinni síðustu 13 vikurnar áður en þú misstir vinnuna. Þú getur því ekki fengið vinnumarkaðsgreiðslur ef þú hefur nýlokið námi.

Auk þess þarftu að: 

  • Hafa náð 18 ára aldri eða hafa einhvern á framfæri þínu
  • Vera í þjóðskrá á Grænlandi
  • Hafa verið á vinnumarkaði og unnið minnst 182 klukkustundir á undangengnum 13 vikum

Fáir þú vinnumarkaðsgreiðslur þarftu að uppfylla tilteknar skyldur meðan þú þiggur þær. Séu þær ekki uppfylltar gætir þú misst rétt þinn til greiðslna. Þess vegna verður þú að:

  • Taka þeim atvinnutilboðum sem sveitarfélagið beinir til þín
  • Taka þátt í að semja aðgerðaáætlun þína

Halda samkomulag sem gert er um endurmenntun, atvinnu eða virkjun

Hvernig er sótt um vinnumarkaðsgreiðslur vegna atvinnuleysis á Grænlandi?

Þú færð aðstoð við að sækja um vinnumarkaðsgreiðslur vegna atvinnuleysis hjá þjónustumiðstöð Majoriaq á þínu svæði. Þar færðu umsóknareyðublað til að fylla út. Mundu að hafa meðferðis:

  • Staðfestingu á að þú sért ekki lengur með vinnu, t.d. uppsagnarbréf eða útrunninn ráðningarsamning
  • Launaseðla síðustu þriggja mánaða eða 13 vikna
  • Möguleg prófskírteini
  • Möguleg skírteini vegna lokinna námskeiða
  • Skattkortið þitt
  • Reikningsnúmerið þitt

Starfsfólk Majoriaq metur á staðnum hvort þú eigir rétt á vinnumarkaðsgreiðslum og upphæð greiðslna. Að því loknu færðu strax svar við umsókn þinni.

Upplýsingaskylda

Þér ber skylda til að upplýsa þjónustumiðstöð Majoriaq á þínu svæði um breytingar á persónulegum högum þínum sem kunna að hafa áhrif á rétt þinn til vinnumarkaðsgreiðslna. Slíkar breytingar geta tengst flutningum, atvinnu eða því að þú hafir fengið samþykkta umsókn um annars konar greiðslur frá hinu opinbera.

Vanrækir þú upplýsingaskyldu þína hættir þú á að þurfa að endurgreiða vinnumarkaðsgreiðslur sem þú hefur fengið.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna