Atvinnuleysisbætur í Færeyjum

Færøske regler for arbejdsløshedsforsikring og arbejdsanvisning
Hér má lesa um færeyskar reglur um atvinnuleysistryggingar og dagpeninga.

Ef þú verður atvinnulaus geturðu átt rétt á atvinnuleysisbótum. Til þess þarftu að hafa áunnið þér tryggingarrétt. Í sumum norrænum löndum gerist það sjálfkrafa þegar þú ræður þig í vinnu en annars staðar þarf að skrá sig sérstaklega í atvinnuleysistryggingasjóð. Ef þú hefur búið í einu norrænu landi en starfað í öðru, eða ef þú flytur úr einu norrænu landi í annað, þarftu að kynna þér vandlega þær reglur sem gilda.

 

Atvinnuleysistryggingar og vinnumiðlun – ALS

Atvinnuleysistryggingasjóðurinn í Færeyjum kallast Arbeiðsloysisskipanin, skammstafað ALS, en hann er jafnframt vinnumiðlun. Öllu launafólki á aldrinum 16–67 ára er skylt að vera skráð þar sem launafólk.

Öllum atvinnurekendum sem greiða laun svo og öllu launafólki á aldrinum 16–67 ára sem er skattskylt að fullu í Færeyjum er gert að greiða hvor um sig 1,25 prósent af útborguðum launum. Félagsgjaldið er dregið sjálfkrafa af launum við útborgun en skattar og iðgjald til ALS greiðast gegnum skattana.

Útlendingum með tímabundið vinnu- og dvalarleyfi er gert að greiða umrætt gjald en þeir geta sótt um undanþágu frá greiðslu fyrir atvinnuleysistryggingar til eins árs í senn.

Sjálfstætt starfandi geta skráð sig í atvinnuleysistryggingasjóð.

Launafólk sem starfar í fiskiðnaði á landi er skráð í ALS gegnum sérkerfi.

ALS er í senn atvinnuleysistryggingasjóður og vinnumiðlun. Í Færeyjum er allt landið einn vinnumarkaður og krafan um að menn séu reiðubúnir að

ráða sig í vinnu felur í sér að menn þurfa að vera reiðubúnir að taka hvaða vinnu sem þeir hafa faglega færni til eða ef atvinnurekandinn vill ráða þá til sín í vinnu.

ALS sér einnig um að virkja atvinnuleitendur. 

Atvinnuleysisbætur miðast við laun síðustu 12 mánaða áður en atvinnuleysi tók við. Upphæð bóta nemur 75% af greiddum launum síðustu 12 mánuði deilt með 253 (sem er fjöldi útborgunardaga á ári. Dagpeningar eru ekki greiddir fyrir laugardaga, sunnudaga og rauða daga). Hámarksupphæð bóta nemur 210 þúsund færeyskum krónum á ári eða að hámarki 17.500 á mánuði. 

Dagpeningar eru greiddir fyrir 5 vinnudaga í viku sem nemur 40 vinnustundum. Launafólk sem starfar í fiskiðnaði fær greitt að hámarki fyrir 32 vinnustundir á viku.

Hvenær á ég rétt á bótum?

Ef þú verður atvinnulaus áttu að tilkynna það til ALS. Þar fyllir þú út 4 blaðsíðna umsókn þar sem m.a. er spurt um ástæðuna fyrir því að þú ert atvinnulaus, um menntun þína, starfsreynslu og óskir um störf.

Þér er skylt at vera reiðubúin/n að ráða þig í vinnu og þau störf sem þér er boðið geta verið hvers kyns sem er og hvar á landi sem er.

Afþakkir þú starf sem vinnumiðlunin eða atvinnurekandi bjóða þér getur tekið við biðtími án dagpeninga í ýmist 4 vikur, 8 vikur, 12 vikur eða 6 mánuði.

Hve lengi er hægt að fá dagpeninga?

Dagpeningar eru greiddir í 648 daga á 4 ára tímabili en að því loknu fellur réttur til dagpeninga niður í 24 mánuði. Að 24 mánuðum liðnum er hægt að sækja um dagpeninga að nýju með sömu skilyrðum og þegar sótt var um í fyrsta sinn.

Taktu atvinnuleysistrygginguna með til Færeyja

Ef þú flytur frá öðru norrænu landi til Færeyja geturðu tekið áunninn rétt þinn til atvinnuleysistryggingar með þér í færeyska atvinnuleysistryggingasjóðinn. Fáðu nánari upplýsingar hjá atvinnuleysistryggingasjóðnum þínum.

Ef þú ferð til Færeyja í atvinnuleit geturðu yfirleitt tekið með þér dagpeninga frá landinu sem þú flytur frá í allt að 3 mánuði. Fáðu nánari upplýsingar hjá atvinnuleysistryggingasjóðnum áður en þú leggur af stað.

Taktu atvinnuleysistrygginguna með frá Færeyjum

Ef þú flytur frá Færeyjum til annars norræns lands skaltu verða þér út um vottorð hjá ALS sem staðfestir aðild þína að atvinnuleysistryggingasjóði og fáðu jafnframt nauðsynlega leiðsögn um reglur atvinnuleysistryggingar sem gilda í hinu norræna landinu og hvernig aðild að atvinnuleysistryggingasjóði flyst milli landa.

Vottorðið kallast PDU1 attest. Þú færð það sent til þín ásamt útprentuðum launaupplýsingum frá TAKS.

Vottorðið og útprentuð gögnin færðu þörf fyrir þegar þú flytur aðild þína að atvinnuleysistryggingasjóði til nýja landsins. Auk þess getur verið að þú þurfir launayfirlit frá fyrri atvinnurekendum. Þú þarft að sækja strax um aðild að nýjum atvinnuleysistryggingarsjóði því það gilda ákveðnir frestir og reglur um dagpeninga sem þú þarft að uppfylla til að öðlast rétt til dagpeninga. Kröfurnar eru mismunandi í norrænu löndunum. Spurðu nánar um þetta í landinu sem þú flyst til.

Þú getur ferðast til annarra norrænna landa í atvinnuleit og haldið færeyskum dagpeningum í allt að 3 mánuði. Fáðu nánari upplýsingar hjá ALS áður en þú leggur af stað.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna