Atvinnuleysisbætur á Íslandi

Atvinnuleysisbætur á Íslandi
Hér er að finna upplysingar um hvernig einstaklingur verður atvinnuleysistryggður á Íslandi og tryggir sér innkomu verði hann fyrir atvinnumissi.

Mikilvægt er að kynna sér reglur um tekjur í atvinnuleysi við flutninga milli norræna ríkja. Á Íslandi sér Vinnumálastofnun um alla umsýslu atvinnuleysistrygginga, skráningu, ráðgjöf og eftirlit.

Atvinnuleysisbætur

  Launamenn og sjálfstætt starfandi

  Til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum á Íslandi er nauðsynlegt að hafa einhvern tímann starfað þar. Það eru fyrst og fremst launþegar og sjálfstætt starfandi á aldrinum 18-70 ára sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum:

  Bótaþegi þarf að hafa starfað í að minnsta kosti 25% starfi í þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum.

  Gerð er krafa um að einstaklingur sé atvinnulaus, í virkri atvinnuleit, vinnufær og tilbúinn að taka öllum almennum störfum og hvar sem er á landinu.

  Bótaþegi þarf einnig að vera búsettur og staddur hér á landi.

  Námsmenn

  Námsmenn eru ekki tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nema þegar námið er hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunnar.

   

   

  Hversu lengi er hægt að fá atvinnuleysisbætur?

  Einstaklingur getur samtals átt rétt á atvinnuleysisbótum í 30 mánuði frá því að hann sótti um bætur hjá Vinnumálastofnun.

  Hversu háar bætur er hægt að fá?

  Fyrsta hálfan mánuð atvinnuleysis eru greiddar grunnbætur en síðan eru bætur tekjutengdar í þrjá mánuði ef skilyrði um tekjutengingu bóta eru uppfyllt.

  Greiða þarf lögbundið lífeyrissjóðsgjald af atvinnuleysisbótum en Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir mótframlag sem atvinnurekandi greiðir ella. Vinnumálastofnun sér um greiðslu stéttarfélagsgjalds af bótum sé þess óskað.

  Athugið að tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru nú  lengdar tímabundið úr 3 mánuði í 6 mánuði. þetta á við um alla þá sem ekki hafa fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Ákvæði gildir til og með 30. september 2021.

   

  Hvernig er sótt um atvinnuleysisbætur á Íslandi?

  Sótt er um atvinnuleysisbætur á vefsíðu Vinnumálastofnunar eða hjá þjónustuskrifstofum stofnunarinnar. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur skráir sig jafnframt í atvinnuleit.

   

  Fyrir fólk sem starfar í fleiri en einu landi

  Grundvallarreglan er sú að einstaklingar eiga að vera atvinnuleysistryggðir í því landi sem þeir starfa. Hafa skal samband við þann atvinnuleysistryggingasjóð sem viðkomandi á aðild að til að leita nánari upplýsinga um reglur sem gilda um fólk sem starfar í tveimur löndum.

   

  Atvinnuleysisbótaréttindi flutt milli landa

  Mögulegt er að flytja atvinnuleysisbótaréttindi milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins (Evrópusambandsríkin, Noregur, Ísland og Liechtenstein) með vottorðinu PD U1. Skilyrði til að eiga rétt á vottorðinu U1 er að hafa unnið í tryggingaskyldri vinnu sem launþegi eða sjálfstætt starfandi. Þeir sem hafa verið sjálfstætt starfandi þurfa að hafa gert skil á tryggingagjaldi af reikuðum launum sínum. Vinnumálastofnun veitir nánari upplýsingar um það. Til þess að geta nýtt atvinnuleysistryggingar frá öðru landi með U1 þarf að hafa unnið á Íslandi í minnst mánuð.

  Einstaklingar sem hafa áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta á Íslandi einhvern tíma á síðustu fimm árum geta viðhaldið rétti sínum til atvinnuleysistrygginga, með því að vera samfellt atvinnuleysistryggðir þegar þeir starfa á Norðurlöndunum. Geri þeir það geta þeir átt rétt til atvinnuleysisbóta á Íslandi án þess að vinna þar í landi eftir heimkomuna. Skilyrði er að hafa átt rétt til atvinnuleysisbóta á Íslandi fyrir brottför. Þessir einstaklingar eiga að útvega sér U1 vottorð til að staðfesta atvinnuleysistryggingu sína.

  Framfærsla barna yngri en 18 ára

  Þegar greiddar eru grunnatvinnuleysisbætur er greitt 6% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum eða 18.445 kr. á mánuði með hverju barni.

  Meðan greiddar eru tekjutengdar atvinnuleysisbætur er greitt 4% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum eða 12.297 kr. á mánuði með hverju barni.

  Einstaklingar sem hafa starfað í Danmörku

  Hafi viðkomandi starfað í Danmörku og átt aðild að dönskum a-kassa þarf hann að sækja um skjalið PD U1 frá danska a-kassanum sínum. Hafi viðkomandi ekki átt aðild að dönskum a-kassa er eyðublaðið gefið út af dönsku vinnumálastofnuninni, Styrelsen for Arbejdsmarked og Rekruttering.

  Einstaklingar sem hafa starfað í Finnlandi

  Hafi viðkomandi starfað í Finnlandi og átt aðild að finnskum a-kassa þarf hann að sækja um skjalið PD U1 frá finnska a-kassanum sínum. Einstaklingar sem ekki hafa átt aðild að a-kassa geta fengið vottorðið hjá finnsku tryggingastofnuninni. Folkepensionsanstalten.

   

  Einstaklingar sem hafa starfað í Noregi

  Hafi viðkomandi starfað í Noregi gefur NAV út vottorðið PD U1 sem er notað er til að færa atvinnuleysisdagpeningaréttinn til Íslands. Á vefsíðu NAV eru upplýsingar um hvernig sótt er um vottorðið PD U1 og hvaða staðfestingar þurfa að liggja fyrir til að hægt sé að sækja um. Senda skal umsóknina til NAV ásamt staðfestingu á starfi í Noregi, afriti af starfssamningi og afriti af launaseðlum og skattayfirlit fyrir það tímabil sem sótt er PD U1-vottorðið fyrir.

  Einstaklingar sem hafa starfað í Svíþjóð

  Hafi viðkomandi starfað í Svíþjóð og átt aðild að sænskum a-kassa þarf hann að sækja um skjalið PD U1 frá sænska a-kassanum sínum. Einstaklingar sem ekki hafa átt aðild að a-kassa geta fengið vottorðið hjá Alfa-kassen.

  Íslenskar atvinnuleysisbætur á meðan leitað er að vinnu erlendis

  Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum er mögulegt að halda atvinnuleysisbótum í allt að þrjá mánuði þegar haldið er til norræns lands í atvinnuleit. Við atvinnuleit innan Evrópska efnahagssvæðisins (ESS), þar á meðal á Norðurlöndum, þarf að útvega sér vottorðið U2 í heimalandinu. Ekki er mögulegt að dvelja erlendis við atvinnuleit og þiggja atvinnuleysisbætur án U2 vottorðs.

  Aðalskilyrði þess að fá útgefið U2 vottorð, eru að þú þarft að vera algjörlega atvinnulaus, hafa þegið bætur samfellt í fjórar vikur fyrir brottför og ekki hafa hafnað atvinnutilboði.

  Sækja þarf um vottorðið  3 vikum fyrir brottför. Gildistími þess er allt að 3 mánuðir.

  Þegar komið er til þess lands sem viðkomandi hyggst sækja um starf skal hann tilkynna sig á vinnumiðlun innan sjö daga frá þeim degi sem hann fór úr landi, til þess að eiga rétt á að fá greidda atvinnuleysisdagpeninga frá þeim degi. Ef viðkomandi skráir sig á vinnumiðlun eftir að þessir sjö dagar eru liðnir á hann aðeins rétt á dagpeningum frá þeim segi sem hann skráði sig. Vakin er athygli á því að fylgja ber þeim reglum sem gilda í því norrænu landi sem við á þegar sótt er um starf.

   Ef atvinnuleit ber ekki árangur

   Ef einstaklingur fær ekki vinnu erlendis á þessum þremur mánuðum, verður hann að snúa aftur til Íslands til þess að halda réttinum til íslensku atvinnuleysisbótanna og skrá sig hjá Vinnumálastofnun. Ef einstaklingur fer ekki heim eftir þriggja mánaða dvöl erlendis, á hann ekki lengur rétt á bótum.

   Ef atvinnuleit ber árangur

   Ef viðkomandi fær vinnu erlendis þarf hann venjulega að gerast aðili að atvinnuleysistryggingum í nýja starfslandinu. Það þýðir að viðkomandi skal skrá sig í atvinnuleysistryggingasjóð í nýja landinu. Nota skal eyðublaðið PD U1 til þess að flytja réttindi frá Vinnumálastofnun til atvinnuleysistryggingasjóðsins í nýja starfslandinu. Á Íslandi gefur Vinnumálastofnun út PD U1-vottorðið

   Við hvern á að hafa samband ef spurningar vakna?

   Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Vinnumálastofnunnar. Einnig er hægt að fá upplýsingar símleiðis (+354) 515 4800. 

   Hafa samband við yfirvöld
   Spurning til Info Norden

   Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

   ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

   Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
   Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna