Atvinnuleysisbætur í Finnlandi

Suomen työttömyysturvaetuudet
Hér segir frá rétti til atvinnuleysisbóta í Finnlandi.

Atvinnuleysistryggingar eru einn liður finnska almannatryggingakerfisins. Undir atvinnuleysistryggingar falla ýmsir styrkir og bætur sem ætlað er að tryggja framfærslu fólks sem missir atvinnu sína. Hér er fjallað um rétt til atvinnuleysisdagpeninga og vinnumarkaðsstyrks.

Atvinnuleysisdagpeningar

Dagpeningar til atvinnulausra eru greiddir samkvæmt tveimur mismunandi kerfum. Verði einstaklingur atvinnulaus getur hann fengið tekjutengda atvinnuleysisdagpeninga úr sínum atvinnuleysissjóði, að því gefnu að hann greiði í slíkan sjóð. Eigi viðkomandi ekki réttindi í neinum atvinnuleysisjóði á hann rétt á grunndagpeningum frá finnsku almannatryggingastofnuninni (Kansaneläkelaitos eða Kela). Einstaklingar sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisdagpeningum geta fengið vinnumarkaðsstyrk.

Átt þú rétt á atvinnuleysisdagpeningum?

Grunndagpeningar og tekjutengdir dagpeningar eru alla jafna greiddir á grundvelli sömu skilyrða. Til að eiga rétt á atvinnuleysisdagpeningum þarf að:

 • vera á aldrinum 17–64 ára,
 • vera atvinnulaus,
 • vera búsettur í Finnlandi,
 • hafa skráð sig í atvinnuleit hjá TE-þjónustunni,
 • leita að fullri vinnu,
 • vera vinnufær og tiltækur í vinnu og
 • uppfylla vinnuskyldu.

Til að uppfylla vinnuskyldu þarf að hafa verið í launaðri vinnu í að lágmarki átján stundir á viku í 26 vikur á undanförnum sex mánuðum, á launum sem samræmast kjarasamningum viðkomandi stéttar. Sé kjarasamningur ekki í gildi innan stéttarinnar þurfa launin að hafa numið tiltekinni lágmarksupphæð í evrum. Einstaklingur á rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum að því gefnu að hann hafi uppfyllt vinnuskyldu á sama tímabili og hann átti aðild að atvinnuleysissjóði. Ef þú starfaðir áður í öðru ESB-/EES-landi og misstir vinnuna í Finnlandi áður en vinnuskylda taldist uppfyllt geturðu kynnt þér réttindi erlendra launþega til finnskra atvinnuleysisbóta hér að neðan.

Hvernig er sótt um atvinnuleysisbætur?

Einstaklingar sem missa vinnuna þurfa að skrá sig eins fljótt og auðið er í atvinnuleit hjá vinnumálaskrifstofunni.

Eigir þú aðild að atvinnuleysissjóði getur þú sótt um tekjutengda atvinnuleysisdagpeninga beint úr sjóðnum sem þú átt aðild að. Nánari upplýsingar veitir starfsfólk hjá viðkomandi atvinnuleysissjóði eða sambandi finnskra atvinnuleysissjóða.

Eigir þú ekki aðild að atvinnuleysissjóði getur þú sótt um grunndagpeninga frá almannatryggingastofnun.

Hvenær hefst útborgun atvinnuleysisdagpeninga?

Útborgun atvinnuleysisdagpeninga hefst að loknu 5 daga sjálfsábyrgðartímabili. Þann tíma þarf viðkomandi að vera skráður atvinnulaus og í atvinnuleit hjá TE-þjónustunni. Sjálfsábyrgðartímabilið getur innifalið atvinnuleysisdaga á að hámarki átta vikna samfelldu tímabili.

Atvinnuleysisdagpeningar eru greiddir fyrir fimm daga vikunnar og eru skattskyldar tekjur.

Vinnumarkaðsstyrkur

Vinnumarkaðsstyrkur er fjárstyrkur sem greiddur er einstaklingum sem uppfylla ekki vinnuskyldu, sem hafa ekki verið á vinnumarkaði áður eða hafa fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisdagpeninga.

Vinnumarkaðsstyrkur er óháður fyrri þátttöku á vinnumarkaði. Hins vegar er skilyrði að hafa fasta búsetu í Finnlandi. Hægt er að fá vinnumarkaðsstyrk ef maður er á aldrinum 17–64 ára, uppfyllir ekki vinnuskyldu og hefur varanlega búsetu í Finnlandi.

Áður en vinnumarkaðsstyrkur er greiddur er gengið úr skugga um að umsækjandi þurfi á honum að halda. Í flestum tilfellum koma tekjur til skerðingar á styrknum. Vinnumarkaðsstyrkur er ekki greiddur meðan viðkomandi er í atvinnuleit í öðru norrænu landi.

Réttur erlendra launþega til atvinnuleysisbóta í Finnlandi

Þegar einstaklingur hefur störf í Finnlandi og vill fá sér tekjutengda atvinnuleysistryggingu skal hann gerast aðili að atvinnuleysissjóði innan fjögurra vikna frá flutningi til Finnlands.

Verði einstaklingur atvinnulaus í Finnlandi áður en lágmarks vinnuskylda hefur verið uppfyllt getur hann samt sem áður átt rétt á atvinnuleysisdagpeningum vegna vinnu sem unnin var í öðru ESB/EES-landi eða Sviss. Hafi umsækjandi áður starfað í Svíþjóð eða Danmörku eru aðeins talin með þau tímabil sem hann átti þar aðild að atvinnuleysissjóði. Auk þess er yfirleitt skilyrði að viðkomandi hafi starfað í Finnlandi í að minnsta kosti fjórar vikur samfleytt áður en hann varð atvinnulaus. Einstaklingar sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisdagpeningum geta átt rétt á vinnumarkaðsstyrk.

Það greiðir fyrir samskiptum við finnska atvinnuleysissjóðinn að hafa fengið eyðublað U1 frá atvinnuleysissjóði í heimalandinu.

Þegar flutt er aftur til Finnlands frá öðru norrænu landi

Samkvæmt Norðurlandasamningi um almannatryggingar er hægt að reikna starfstímabil í öðru norrænu landi beint inn í vinnuskyldu vegna atvinnuleysisdagpeninga, án þess að krafist sé fjögurra vikna vinnu eftir að flutt er aftur til Finnlands. Þetta á við þegar einstaklingur flytur aftur til Finnlands eftir að hafa verið að hámarki fimm ár í öðru norrænu landi.

Litið er svo á að einstaklingur flytji aftur til Finnlands ef hann hefur áður átt þar fasta búsetu. Einnig þarf viðkomandi að hafa verið í vinnu eða fengið atvinnuleysisdagpeninga frá Finnlandi á síðastliðnum fimm árum til þess að eiga rétt á atvinnuleysisdagpeningum.

  Nánari upplýsingar

  Spurning til Info Norden

  Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

  ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

  Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
  Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna