Atvinnuleysisbætur í Finnlandi

Suomen työttömyysturvaetuudet
Á þessari síðu segir frá atvinnuleysisbótum í Finnlandi. Fyrst er sagt frá atvinnuleysisbótum og skilyrðum þar að lútandi, hvernig á að sækja um bæturnar og hvernig þær eru greiddar út. Atvinnuleysisbætur eru greiddar af mismunandi stofnunum eftir því hvort bótaþeginn á aðild að atvinnuleysissjóði eða ekki. Einnig er sagt frá sérstökum reglum í tengslum við atvinnuleysisbætur er varða fólk sem flytur frá Finnlandi eða til Finnlands vegna vinnu, fólk sem vinnur á landamærasvæðum, fólk sem flytur aftur til Finnlands og atvinnulausa sem flytja frá Finnlandi til atvinnuleitar annars staðar. Neðst á síðunni segir frá rétti til finnsks vinnumarkaðsstyrks.

Atvinnuleysistryggingar eru einn liður í finnska almannatryggingakerfinu. Undir atvinnuleysistryggingar falla ýmsir styrkir og bætur sem ætlað er að tryggja framfærslu fólks sem missir atvinnu sína. Á þessari síðu er fjallað um rétt til atvinnuleysisbóta í formi dagpeninga og rétt á vinnumarkaðsstyrk.

Hvar ert þú atvinnuleysistryggð/t/ur?

Almenna reglan er sú að fólk sé atvinnuleysistryggt í landinu sem það starfar í eða því landi hvers lög og reglur eiga við í þess tilviki. Það þýðir að ekki er hægt að eiga áfram aðild að finnskum atvinnuleysissjóði, hafir þú flutt til annars lands vegna vinnu og sért almannatryggð/t/ur í því landi.

Nánari upplýsingar um það hvar þú átt aðild að almannatryggingum eftir flutninga milli landa eru á síðunni Almannatryggingakerfi hvaða lands tilheyrir þú?

Atvinnuleysisbætur

Dagpeningar atvinnulausra í Finnlandi eru greiddir samkvæmt tveimur mismunandi kerfum. Verðir þú atvinnulaus/t getur þú fengið tekjutengdar atvinnuleysisbætur úr þínum atvinnuleysissjóði. Eigir þú ekki réttindi í neinum atvinnuleysisjóði átt þú rétt á grunnbótum frá finnsku almannatryggingastofnuninni (Kansaneläkelaitos eða Kela).

Eigir þú ekki rétt á atvinnuleysisbótum getur þú fengið vinnumarkaðsstyrk. Nánari upplýsingar um vinnumarkaðsstyrk eru hér fyrir neðan undir fyrirsögninni Vinnumarkaðsstyrkur.

Atvinnuleysissjóðir í Finnlandi

Ef þú vilt eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skaltu sækja um aðild að atvinnuleysisjóði. Hægt er að eiga aðild að atvinnuleysissjóði annað hvort gegnum stéttarfélag eða sem einstaklingur. Tengiliðaupplýsingar atvinnuleysissjóða eru á vefsvæði Sambands finnskra atvinnuleysissjóða (Työttömyyskassojen yhteisjärjestö eða TYJ) og nánari upplýsingar um stéttarfélög má finna á síðunni Stéttarfélög í Finnlandi.

Þú skalt almennt sækja um aðild að atvinnuleysissjóði í því landi sem þú starfar í, eða í landinu hvers lög gilda um þitt tilvik. Þú getur kynnt þér sérstakar reglur sem gilda um tiltekna hópa hér fyrir neðan, undir fyrirsögninni Sérstakar reglur um tiltekna hópa. 

Einnig er hægt að sækja um aðild að finnskum atvinnuleysissjóði þegar flust er til Finnlands án atvinnu frá öðru ESB/EES-landi. Til þess að þú getir flutt með þér vinnu- og tryggingartímabil sem þú hefur áunnið þér í öðru landi þarft þú að fá aðild að sjóðnum innan átta vikna ef þú ert að snúa aftur til Finnlands eftir fimm eða færri ár í öðru norrænu landi. Í öðrum tilvikum er tímaramminn fyrir aðild einn mánuður.

Átt þú rétt á atvinnuleysisbótum?

Grunnbætur og tekjutengdar bætur eru alla jafna greiddar á grundvelli sömu skilyrða. Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum í Finnlandi þarf að uppfylla öll eftirtalin skilyrði:

 • vera á aldrinum 17–64 ára,
 • vera atvinnulaus/t,
 • vera búsett/ur í Finnlandi,
 • hafa skráð sig í atvinnuleit hjá TE-þjónustunni,
 • vera í leit að fullri vinnu,
 • vera vinnufær/t og tiltæk/t/ur í vinnu og
 • uppfylla vinnuskyldu.

Til að uppfylla vinnuskyldu þarf að hafa verið í launaðri vinnu í að lágmarki átján stundir á viku í 26 vikur á undanförnum sex mánuðum, á launum sem samræmast kjarasamningum viðkomandi stéttar. Sé kjarasamningur ekki í gildi innan stéttarinnar þurfa launin að hafa numið tiltekinni lágmarksupphæð í evrum. Þú átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum að því gefnu að þú hafir uppfyllt vinnuskyldu á sama tímabili og þú áttir aðild að atvinnuleysissjóði. 

Ef þú starfaðir áður í öðru ESB-/EES-landi og misstir vinnuna í Finnlandi áður en vinnuskylda taldist uppfyllt geturðu kynnt þér réttindi erlendra launþega til finnskra atvinnuleysisbóta hér fyrir neðan.

Hvernig er sótt um atvinnuleysisbætur?

Einstaklingar sem missa vinnuna þurfa að skrá sig eins fljótt og auðið er í atvinnuleit hjá TE-þjónustu Vinnumarkaðstorgsins.

Eigir þú aðild að atvinnuleysissjóði getur þú sótt um tekjutengdar atvinnuleysisbætur beint úr þeim sjóði sem þú átt aðild að. Nánari upplýsingar færð þú hjá þínum atvinnuleysissjóði.

Eigir þú ekki aðild að atvinnuleysissjóði getur þú sótt um grunnbætur frá almannatryggingastofnun Finnlands (Kela).

Hvenær hefst útborgun atvinnuleysisbóta?

Útborgun atvinnuleysisbóta hefst almennt að loknu 5 daga sjálfsábyrgðartímabili. Starfslokagreiðslur og aðrar sambærilegar greiðslur eru þó undantekning frá þessu .

Á sjálfsábyrgðartímabilinu þarft þú að hafa verið skráð/ur atvinnulaus/t og í atvinnuleit hjá  þjónustu Vinnumarkaðstorgsins. Sjálfsábyrgðartímabilið þarf ekki að vera samfellt. Það getur innifalið atvinnuleysisdaga á að hámarki átta vikna samfelldu tímabili.

Atvinnuleysisbætur eru dagpeningar sem greiddir eru fyrir fimm daga vikunnar og teljast skattskyldar tekjur.

Sérstakar reglur um tiltekna hópa

Um almenna launþega og launþega á landamærasvæðum sem flytja til annars lands eða frá öðru landi, flytja til Finnlands frá öðru norrænu landi eða vilja flytja til annars lands í atvinnuleit eða koma frá öðru landi til Finnlands í atvinnuleit, gilda sérstakar reglur sem finna má hér fyrir neðan.

Álandseyjar eru hluti af Finnlandi og því eiga reglurnar hér fyrir neðan ekki við um fólk sem fer á milli finnska meginlandsins og Álandseyja vegna vinnu.

  Réttur til atvinnuleysisbóta þegar flust er frá Finnlandi vegna vinnu

  Ef þú hefur áður átt rétt á finnskum atvinnuleysisbótum og ferð til annars lands vegna vinnu getur þú flutt áunninn rétt þinn til finnskra atvinnuleysisbóta með þér til nýja starfslandsins. 

  Það er gert með því að fylla út eyðublað U1. Eigir þú aðild að tekjutengdum atvinnuleysissjóði færð þú eyðublaðið frá atvinnuleysissjóðinum þínum. Eigir þú ekki aðild að atvinnuleysissjóði færð þú eyðublaðið hjá almannatryggingastofnuninni Kela.

  Rétturinn til að nýta samanlagðan áunninn rétt til atvinnuleysisbóta frá mismunandi löndum nær bæði til launafólks og verktaka.

  Nánari upplýsingar færð þú hjá Kela eða þínum atvinnuleysissjóði.

  Réttur erlends launafólks til atvinnuleysisbóta í Finnlandi

  Þegar þú hefur störf í Finnlandi og vilt fá tekjutengda atvinnuleysistryggingu skalt þú gerast aðili að atvinnuleysissjóði innan eins mánaðar frá flutningum til Finnlands. Ef þú snýrð aftur til Finnlands frá öðru norrænu landi og hefur átt aðild að finnskum atvinnuleysissjóði á einhverjum tímapunkti undanfarin 5 ár , þá hefur þú  átta vikur til þess að gerast aðili að nýju. Eigir þú ekki aðild að atvinnuleysissjóði áttu aðeins rétt á grunndagpeningum atvinnulausra frá Kela, að því gefnu að þú uppfyllir öll skilyrði.

  Verðir þú atvinnulaus í Finnlandi áður en lágmarksvinnuskylda hefur verið uppfyllt getur þú samt sem áður átt rétt á atvinnuleysisbótum vegna vinnu sem unnin var í öðru ESB/EES-landi. Hafir þú áður starfað í Svíþjóð eða Danmörku eru aðeins talin með þau tímabil sem þú hafðir þar valkvæða atvinnuleysistryggingu. Hafir þú aðeins átt aðild að hinum skyldubundna atvinnuleysissjóði Alfa í Svíþjóð er það ekki talið með. Auk þess er það yfirleitt skilyrði að þú hafir starfað í Finnlandi í að minnsta kosti fjórar vikur samfleytt áður en þú varðst atvinnulaus/t.

  Ef þú átt ekki rétt á atvinnuleysisbótum gætir þú átt rétt á vinnumarkaðsstyrk.Nánari upplýsingar um hann eru hér fyrir neðan undir yfirskriftinni Vinnumarkaðsstyrkur.

  Það greiðir fyrir samskiptum við finnska atvinnuleysissjóðinn að hafa fengið eyðublað U1 frá atvinnuleysissjóði eða sambærilegri stofnun í landinu sem þú flytur frá. Nánari upplýsingar færð þú hjá yfirvöldum í brottfararlandinu.

  Þegar flutt er aftur til Finnlands frá öðru norrænu landi

  Samkvæmt Norðurlandasamningi um almannatryggingar er hægt að reikna starfstímabil í öðru norrænu landi beint inn í vinnuskyldu vegna atvinnuleysisdagpeninga, án þess að krafist sé fjögurra vikna vinnutímabils eftir að flutt er aftur til Finnlands. Þetta á við þegar þú flytur aftur til Finnlands eftir að hafa dvalið að hámarki fimm ár í öðru norrænu landi.

  Litið er svo á að þú flytjir aftur til Finnlands ef þú hefur áður átt þar fasta búsetu. Einnig þarft þú að hafa verið í vinnu eða fengið atvinnuleysisbætur frá Finnlandi á síðastliðnum fimm árum til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þar.

  Fólk sem sækir vinnu yfir landamæri

  Starfsfólk á landamærasvæðum , sem býr í einu landi og starfar í öðru, er atvinnuleysistryggt í því landi sem það starfar í. Um starfsfólk á landamærasvæðum gilda sérstakar reglur varðandi að sækja um atvinnuleysisbætur.

  Verði einstaklingur atvinnulaus að hluta eða tímabundið (t.d. sagt upp vegna tímabundins samdráttar) þarf hann að skrá sig í atvinnuleit í starfslandinu og á þá rétt á atvinnuleysisbótum úr atvinnuleysissjóði í starfslandinu eða frá öðru þar til bæru yfirvaldi.

  Verði einstaklingur atvinnulaus að fullu á hann hins vegar að skrá sig í atvinnuleit í búsetulandinu og þá eru atvinnuleysisbætur greiddar úr atvinnuleysissjóði í búsetulandinu eða af öðru þar til bæru yfirvaldi í því landi. Mikilvægt er að þú skráir þig í atvinnuleit á vinnumálaskrifstofu í búsetulandi þínu og sækir um aðild að atvinnuleysissjóði í heimalandinu um leið og vinnutímabili þínu í starfslandinu lýkur. 

  Að halda atvinnulaus í atvinnuleit til Finnlands frá öðru landi

  Þú getur líka komið atvinnulaus/t til Finnlands meðan á atvinnuleit stendur og fengið þar atvinnuleysisbætur, en þá þarftu að skrá þig atvinnulaust/a/n í brottfararlandinu með góðum fyrirvara áður en þú flytur. Nánari upplýsingar eru á síðunni um atvinnuleysisbætur í þínu heimalandi.

  Að halda atvinnulaus í atvinnuleit frá Finnlandi til annarra landa

  Atvinnulaust fólk í atvinnuleit getur, að vissum skilyrðum uppfylltum, fengið finnskar atvinnuleysisbætur greiddar til atvinnuleitar í öðru ESB- eða EES-landi. Atvinnulaust fólk í atvinnuleit heldur rétti sínum til atvinnuleysisdagpeninga frá Finnlandi í allt að þrjá mánuði meðan það leitar að vinnu á Evrópusambandssvæðinu.

  Þá er skilyrði að hinn atvinnulausi hafi dvalið í Finnlandi í minnst fjórar vikur og leitað þar að vinnu áður en haldið var til annars lands. Fólk sem þegar hefur fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisdagpeninga í Finnlandi getur ekki fengið þá greidda vegna atvinnuleitar í öðru landi. Finnskur vinnumarkaðsstyrkur er ekki greiddur vegna atvinnuleitar í öðru landi.

  Áður en haldið er frá Finnlandi þarf hinn atvinnulausi að leita til finnsku almannatryggingastofnunarinnar Kela eða atvinnuleysistryggingasjóðs og fá vottorð upp á rétt sinn til atvinnuleysistrygginga í Finnlandi (eyðublað U2). Þegar komið er til landsins þar sem leita á að vinnu þarf hann svo að skrá sig hjá einhverri vinnumálaskrifstofu þar innan viku frá komunni til landsins.

  Hafi viðkomandi ekki fengið vinnu að þremur mánuðum liðnum þarf hann að snúa aftur til Finnlands eða missa að öðrum kosti rétt sinn á atvinnuleysisdagpeningum frá Finnlandi.

  Nánari upplýsingar veita Vinnumarkaðstorgið, finnska almannatryggingastofnunin Kela og atvinnuleysissjóðurinn þinn.

  Vinnumarkaðsstyrkur

  Vinnumarkaðsstyrkur er fjárstyrkur sem greiddur er einstaklingum sem uppfylla ekki vinnuskyldu, sem hafa ekki verið á vinnumarkaði áður eða sem hafa fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta.

  Vinnumarkaðsstyrkur er óháður fyrri þátttöku á vinnumarkaði. Hins vegar er skilyrði að hafa fasta búsetu í Finnlandi. Þú getur fengið vinnumarkaðsstyrk ef þú ert á aldrinum 17–64 ára, uppfyllir ekki vinnuskyldu og hefur varanlega búsetu í Finnlandi.

  Áður en vinnumarkaðsstyrkur er greiddur er gengið úr skugga um að umsækjandi þurfi á honum að halda. Tekjur koma yfirleitt til skerðingar á styrknum. Vinnumarkaðsstyrkur er ekki greiddur meðan viðkomandi er í atvinnuleit í öðru norrænu landi.

  Nánari upplýsingar

  Spurning til Info Norden

  Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

  ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

  Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
  Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna