Sjálfbær matvælakerfi: Sendið inn tillögur vegna umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021

09.02.21 | Fréttir
Tema miljöpriset fællesspisning Absalon
Photographer
Maria Albrechtsen Mortensen / Scanpix
Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021 er sjálfbær matvælakerfi. Nú getur þú sent inn tillögur! Verðlaunin sem nema 300 þúsundum danskra króna eiga að renna til verkefnis þar sem eitthvað eftirtektarvert hefur verið lagt af mörkum til að stuðla að þróun í átt til sjálfbærra matvælakerfa.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan 1995 og hefur þema verðlaunanna verið mismunandi frá ári til árs. Árið 2021 er þemað sjálfbær matvælakerfi – sjálfbært úr hafi og jörð á borð og aftur til baka.

Mörg heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun snúa að matvælakerfinu og umbreyting er nauðsynleg til þess að maturinn sem við borðum verði bæði framleiddur og hans neytt á sjálfbæran hátt. Lars Hindkjær, formaður dómnefndar segir:

„Frá upphafi hefur með umhverfisverðlaununum verið lögð áhersla á áskoranir sem brenna á á hverjum tíma þannig að jafnvel þótt við höfum áður verið með tilnefningar og verðlaunahafa af sviði matvæla þá hlökkum við til að kynnast öllum þeim metnaðarfullu verkefnum sem unnin eru á Norðurlöndum og stuðla að hinni mikilvægu þróun í átt til sjálfbærari matvælakerfa.“

 

Þema 2021: Sjálfbær matvælakerfi - sjálfbært úr hafi og jörð á borð og aftur til baka

Við verðum öll að borða til að lifa. Þess vegna skiptir máli að matvælakerfið okkar sé skilvirkt á lífrænan, efnahagslegan og félagslegan hátt. Sjálfbærnin nær allt frá frumframleiðslunni og á diskinn, þess vegna segjum við úr hafi og jörð á borð og svo áfram alla leið í endurvinnslu, allt frá lífrænum úrgangi til umbúða. Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs tekur til sjálfbærs matvælakerfis í heild eða að hluta.

 

Þegar matvælaframleiðsla er sjálfbær er maturinn framleiddur staðbundið og eftir vistfræðilega sjálfbærum leiðum að því marki sem hægt er. Í landbúnaði er áhersla lögð á hringrás næringarefna plantna og umhverfisvænar landbúnaðaraðferðir þar sem horft er til losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar, líffræðilegrar fjölbreytni og góðrar nýtingar á vatni. Í dýrahaldi og fiskeldi er tekin ábyrgð á umhverfinu og ströngum gildum um dýravelferð fylgt. Náttúruauðlindir sem nýttar eru til matar, svo sem villibráð, villtur fiskur og aðrar náttúruafurðir eru nýttar á skynsamlegan hátt.

 

Þegar hráefnum er breytt í matvæli er næringargildi þeirra varðveitt eins vel og kostur er. Ekki er farið illa með auðlindir í matvælaiðnaði, farið er vel með orku við pökkun vöru og vistspor við dreifingu hennar lágmarkað. Fyrirtæki og verslanir bjóða viðskiptavinum sínum sjálfbæra valkosti, auk þess að vera með eigin úrræði til að draga úr matarúrgangi. Mataræði neytenda byggist á vistfræðilega sjálfbærum valkostum, til dæmis árstíðarbundnum mat og grænmetisfæðu. Við borðum eins margar hitaeiningar og við þurfum, enginn matur fer til spillis og lífrænn úrgangur er endurunninn.

 

Annað heimsmarkmið SÞ er að útrýma hungri. Markmiðið er að tryggja fæðuöryggi, bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði. Sjálfbær matvælakerfi stuðla að því að markmiðinu verði náð. Með sjálfbæru matvælakerfi er auk þess stutt við önnur sjálfbærnimarkmið, til dæmis um ábyrga neyslu og framleiðslu (12), aðgerðir í loftslagsmálum (13), líf í vatni og sjálfbæra nýtingu auðlinda þess (14) og líf á landi og líffræðilega fjölbreytni (15).

 

Hnattrænar framleiðslukeðjur geta orðið fyrir þungu höggi á krepputímum eins og kórónuveirufaraldurinn hefur sýnt. Meira en tveir milljarðar manna eru háðir innfluttum matvælum, að minnsta kosti að hluta. Þess vegna eru matvælakerfi, á landsvísu og alþjóðlegar, mikilvægir lyklar að félagslegum sveigjanleika. Raunveruleg sjálfbærni byggir á því að áhrif matvælaframleiðslunnar á loftslags- og umhverfismarkmið séu jákvæð eða hlutlaus.

Frestur til að senda inn tillögur er til 12. maí - öllum er frjálst að senda inn tillögur!

Öllum er frjálst að senda inn tillögur. Frestur til að senda inn tillögur er til miðvikudagsins 12. maí. Hægt er að senda inn tillögur um norræn fyrirtæki, samtök eða einstakling sem starfa á Norðurlöndum og/eða tengjast samstarfsaðila utan Norðurlanda. Framlag þess aðila sem stungið er upp á verður að hafa norrænt sjónarhorn.

Tilkynnt verður um verðlaunahafann í Kaupmannahöfn 2. nóvember 2021 á þingi Norðurlandaráðs í Danmörku.