Handhafi Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2013

Selina Juul
Ljósmyndari
Fintan Damgaard
Selina Juul hlýtur Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2013 fyrir baráttu sína gegn matarsóun á vettvangi neytendahreyfingarinnar „Stop Spild Af Mad“. Verðlaunin nema 350 þúsundum danskra króna.

Ákveðið hafði verið að Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2013 yrðu veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem þróað hefði vöru, uppfinningu eða með öðrum hætti aukið skilvirka nýtingu auðlinda og þar með stuðlað að því að draga úr neikvæðum áhrifum mannsins á náttúruna.

Rökstuðningur dómnefndar

Selina Juul hefur af miklum áhuga og aðdáunarverðum eldmóði vakið athygli manna á matarsóun og sett málið á dagskrá bæði á Norðurlöndum og á vettvangi Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna.

Árið 2008 stofnaði Selina Juul neytendahreyfinguna „Stöðvum sóun á mat“ (Stop Spild Af Mad).

Hún hefur tekið að sér í sjálfboðavinnu að vera talsmaður hreyfingarinnar. Í því hlutverki hefur hún átt þátt í að birta meira en 500 greinar í fjölmiðlum, komið hvað eftir annað fram í sjónvarpi og útvarpi innanlands jafnt sem utan, og jafnframt oft tekið þátt í dönskum og alþjóðlegum ráðstefnum til að segja frá matarsóun.

Auk þess að sinna starfi sínu sem fyrirlesari, myndskreytir og grafískur hönnuður notar Selina Juul þannig allt að fjörutíu tíma á viku í að vinna kauplaust fyrir neytendahreyfinguna „Stöðvum sóun á mat“. Hreyfingin sér meðal annars um að koma góðum afgangsmat til athvarfa, móttökumiðstöðva fyrir hælisleitendur og til heimilislausra.

Framlag Selinu Juul er ómetanlegt.

Matarsóun er siðferðislegt vandamál í heimi þar sem næstum einn milljarður manna sveltur, en hún hefur jafnframt mikil áhrif á efnahag og umhverfi.

Sífellt fleiri skógar eru ruddir í heiminum til að hægt sé að hefja landbúnaðarframleiðslu, meðal annars nautgriparækt, í því skyni að brauðfæða stöðugt vaxandi fólksfjölda. Samtímis er mat hent um allan heim. Maturinn sem þannig fer forgörðum hefði getað nýst sveltandi fólki, eða komið að gagni með því að hafa ekki verið framleiddur.

Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna sýnir að matarsóun er þriðja stærsta orsök koltvísýringslosunar í heiminum.

Um 1,3 milljörðum tonna af mat er hent á hverju ári í heiminum.

Í vestrænum löndum fara um 100 kíló af mat til spillis á hvern íbúa á ári. Þessu verður að linna.

Þrautseigja Selinu Juul og annarra sem vakið hafa athygli á þessum vanda hefur leitt til þess að dregið hefur úr sóun á mat í Danmörku, hjá einstaklingum jafnt sem fyrirtækjum. Önnur ástæða þess að sóunin minnkar er að neytendur eru farnir að sætta sig við að gulrætur séu til dæmis ekki alltaf beinar, heldur megi þær alveg eins vera óreglulegar í lögun. Gulrætur sem ekki voru beinar voru áður plægðar í jörð.

Hægt er að draga úr matarsóun með ýmsum hætti: Nota minni matardiska í mötuneytum, stóreldhúsum og á veitingastöðum, veita afslátt af vörum sem nálgast síðasta söludag og afnema afslátt af stórinnkaupum. Það síðastnefnda hefur meðal annars hefur verið gert í meira en 200 verslunum Rema 1000-keðjunnar í Danmörku.

Að lokum má nefna að Selina Juul hefur í samstarfi við nokkra af færustu matreiðslumönnum Danmerkur gefið út matreiðslubókina „Stop spild af mad – en kogebog med mere", sem fjallar um að nýta matarafganga.

Með hugmyndaflugi, eldmóði og vinnusemi hefur Selinu Juul tekist að vekja athygli á matarsóun og þar með stuðlað að betri nýtingu auðlinda og dregið úr neikvæðum áhrifum manna á náttúruna.

Nefndin óskar Selinu innilega til hamingju með Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2013.