RePack hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2017
Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Jonne Hellgren, tók við verðlaununum að upphæð 350 þúsund DKK. Verðlaunahafi síðasta árs, Klaus Pedersen, afhenti verðlaunin við verðlaunaathöfn Norðurlandaráðs í Finlandia-húsinu í Helsinki.
Rökstuðningur dómnefndar:
Rafrænum viðskiptum vex fiskur um hrygg á Norðurlöndum og er þess vænst að umfang þeirra tvöfaldist á fáeinum árum. Þessi þróun hefur ýmsar afleiðingar fyrir umhverfið, ekki síst vegna mikillar notkunar á einnota umbúðum. Dómnefndin tekur gagnrýna afstöðu til sívaxandi neyslu en fagnar því jafnframt að finnska fyrirtækið RePack hafi nú leyst vandann að hluta með því að þróa hagnýtar endurnýtanlegar umbúðir og skilakerfi fyrir rafræn viðskipti.
Fyrirtækið RePack hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2017 fyrir að skapa með vöru sinni gott og umhverfisvænt viðskiptatækifæri, sem er aðgengilegt og nýstárlegt, og fyrir að vekja athygli á endurnýtingu, óhóflegri auðlindanotkun og myndun úrgangs. RePack starfar með neytendum að því að minnka úrgang. Umbúðapokar fyrirtækisins eru framleiddir úr endurnýttum plastpokum og hægt er að nota þá aftur að minnsta kosti 20 sinnum. 75% allra poka er skilað aftur gegnum skilakerfið. Verkefnið er rekið á markaðskjörum og það verður unnt að breiða út til ýmissa annarra landa og atvinnugreina, umhverfinu í hag.
- Nánari upplýsingar um RePack á síðu umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs
- Nánari upplýsingar um verðlaun Norðurlandaráðs