Áhersla á jafnrétti kynjanna á formennskuári Svíþjóðar í Norðurlandaráði

23.01.19 | Fréttir
Jessica Polfjärd ved Nordisk Råds Session 2018
Photographer
Sara Johannessen
Þrátt fyrir að Norðurlönd séu framar flestum öðrum löndum þegar kemur að jafnrétti kynjanna, eru launamunur, valdaójafnvægi og útilokun enn útbreidd vandamál á svæðinu. Á árlegu þemaþingi Norðurlandaráðs verður sérstaklega fjallað um jafnrétti á vinnumarkaði. Málefnið er beintengt áætlun SÞ um sjálfbærni til ársins 2030 og felur í sér dýpri útfærslu á heimsmarkmiði nr. 5 – jafnrétti kynjanna.

Jafnrétti sem forsenda lýðræðis er eitt þeirra málefna sem Svíar munu beina kastljósinu að á formennskuári sínu.

-Þrátt fyrir alla þá vinnu sem lögð hefur verið í að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði síðustu áratugi, eigum við enn langt í land með að ná markmiðinu, fullyrðir Jessica Polfjärd, forseti Norðurlandaráðs.

Í formennskuáætlun Svíþjóðar er þeirri spurningu meðal annars varpað fram hvaða aðgerðir þurfi til að auka lýðræðislega þátttöku í samfélaginu. 
Staða kvenna af erlendum uppruna er sérstaklega viðkvæm og öll norrænu löndin standa frammi fyrir hliðstæðum áskorunum varðandi aðlögun og þátttöku.

Markmiðið er að okkur takist að breyta samfélagslegum viðmiðum og staðalímyndum á svæðinu öllu.

Jessica Polfjärd, forseti Norðurlandaráðs

-Hugmyndin er að við drögum lærdóm af reynslu hvers annars, segir Jessica Polfjärd. Þessi vinna og þessar áskoranir krefjast þátttöku allra, einnig stráka og karla, undirstrikar hún. Markmiðið er að okkur takist að breyta samfélagslegum viðmiðum og staðalímyndum á svæðinu öllu.

Sænska landsdeildin vill nýta alla stærri viðburði til að beina kastljósinu að því hve mikla þýðingu innleiðing lýðræðis getur haft og sömuleiðis stuðningur almennings sem lýsir sér í þátttöku og aðild borgaranna eða fulltrúa þeirra á öllum stigum ákvörðunartöku.

Til viðbótar við jafnrétti kynjanna, koma kosningar til Evrópuþingsins til með að vera í brennidepli á þemaþingi Norðurlandaráðs. Þingmennirnir munu fjalla um Norðurlönd og ESB og hvernig norrænu löndin skuli starfa innan ESB eftir kosningarnar. Þingið verður haldið í Kaupmannahöfn dagana 8.-9. apríl.

Contact information