„Hell-yfirlýsingin“ Yfirlýsing frá fundi orkumálaráðherranna í Hell, 11. október, 2012

11.10.12 | Yfirlýsing
Norrænu orkumálaráðherrarnir hittust á Hell þann 11. október 2012 til að efla og ræða þróun norræna raforkumarkaðarins, verkefni á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, skilvirka orkunotkun og orkutækni.

Upplýsingar

Adopted
11.10.2012
Location
Trondheim

Raforkumarkaðurinn

Ráðherrarnir voru sammála um að þróa norrænan raforkumarkað enn frekar og að áhersla verði lögð á vinnu að sameiginlegum neytendamarkaði. Aukin endurnýjanleg orkuframleiðsla eins og vindorka, sem ekki er hægt að stjórna, hefur í för með sér nýjar áskoranir fyrir orkukerfið. Ráðherrarnir lýstu ánægju sinni með það mat dreifingaraðila að vindorka sem gert er ráð fyrir að verði virkjuð á næstu árum geti farið inn á raforkunetið án mikilla vandkvæða og ítrekuðu að mikilvægt væri að halda áfram að fjárfesta í raforkudreifikerfinu. Þeir samþykktu einnig að skoða nánar hvernig gera má raforkunotkun sveigjanlegri og þar með stuðla að frekari notkun endurnýjanlegra orkugjafa.

Endurnýjanlegir orkugjafar

Norrænu ríkin hafa lagt mikla áherslu á endurnýjanlega orkugjafa og munu áfram verða yfir meðallagi þess sem tíðkast innan ESB. Norrænu orkumálaráðherrarnir voru sammála um að ýmsar aðgerðir í þjóðlöndunum auk samstarfs landanna á milli (t.d. norsk-sænskur markaður) muni leiða til þess að norrænu ríkin verði í fremstu röð í Evrópu árið 2020 og í framtíðinni. Ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi þess að taka virkan þátt í þeirri umræðu sem nú á sér stað í tengslum við rammaáætlun til ársins 2030 og nýjustu yfirlýsingu um endurnýjanlega orkugjafa frá framkvæmdastjórn ESB. 

Orkunýtni

Norrænu orkumálaráðherrarnir ræddu nýja tilskipun ESB um orkunýtni og hvernig norrænt samstarf á sviði orkunýtni ætti að vera.
Þeir ræddu einnig möguleikana á að efla samstarfið um markaðseftirlit á orkutengdum vörum. Þetta er sérstaklega mikilvægt í tengslum við innleiðingu ESB-EES-reglugerða um orkumerkingar og umhverfishönnun, þar sem hægt er að nýta samlegðaráhrif. Ráðherrarnir samþykktu því að halda samstarfinu áfram á formlegri grunni næstu þrjú árin. Ráðherrarnir voru sammála um að samstarfið næstu þrjú árin ætti að fjármagna af tiltæku fjármagni Norrænu ráðherranefndinnar og að skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar skyldi sjá um eftirfylgni. 

Norrænar orkurannsóknir

Ráðherrarnir ítrekuðu mikilvægi þess að Norðurlöndin héldu áfram að leggja ríka áherslu á orkurannsóknir. Norrænu ríkin hafa átt samstarf um orkurannsóknir síðan 1985 og frá 1999 hefur það átt sér stað á vegum Norrænna orkurannsókna (NEF). Samstarfið er viðbót við rannsóknaáætlanir þjóðlandanna á sviði orkumála.

Loftslagsbreytingar og þörfin á breytingu í samfélög sem losa lítið af gróðurhúsalofttegundum eru nýjar áskoranir fyrir heiminn og fyrir Norðurlöndin í heild. Alþjóðlega orkumálastofnunin IEA hefur staðfest að aukin áhersla á nýsköpun, rannsóknir, þróun og framkvæmdir á orkusviðinu sé nauðsynleg til að þessi breyting geti orðið. Orkumálaráðherrarnir samþykktu að framkvæma skyldi mat á Norrænum orkurannsóknum. Matið á að vera tilbúið fyrir ráðherrafund sem haldinn verður haustið 2013.

Norræn orkuverkefni og grænn hagvöxtur

Norrænu orkumálaráðherrarnir ítrekuðu að áhersla á sviði orkumála skyldi gegna stóru hlutverki í tengslum við grænan hagvöxt í framtíðinni. Norræn áætlun um orkumál rennur út árið 2013 og er afar mikilvæg fyrir áhersluna á grænan hagvöxt. Á næsta fundi sem haldinn verður 2013 verður fjallað um nýja framkvæmdaáætlun fyrir norrænt orkusamstarf.

Contact information