Opinbert samstarf Norðurlanda

Nordens hus på Ved Stranden
Ljósmyndari
Mary Gestrin
Samstarf Norðurlanda er elsta samstarf í heimi af sínu tagi. Aðildarlönd samstarfsins eru Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, og auk þess taka Álandseyjar, Færeyjar og Grænland þátt.

Norrænt samstarf á rætur í stjórnmálum, efnahagsmálum og menningu. Lagt er til grundvallar að norrænt samstarf beinist að verksviðum þar sem samnorrænar aðgerðir mynda virðisauka fyrir löndin og íbúa þeirra – það er einnig nefnt norrænt notagildi. Árið 2016 sameinuðust norrænu forsætisráðherrarnir um það meginmarkmið að Norðurlönd skyldu vera samþættasta svæði í heimi. 

Norræna samstarfið miðar að því að Norðurlöndin séu öflug á alþjóðavettvangi og að þau gegni mikilvægu hlutverki í alþjóðlegu og evrópsku samstarfi. Sameiginleg gildi landanna styrkja stöðu Norðurlanda sem eitt þeirra svæða heims þar sem nýsköpun og samkeppnishæfni er mest.

Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin

Opinbert samstarf Norðurlanda fer fram í Norrænu ráðherranefndinni sem er vettvangur ríkisstjórnanna og í Norðurlandaráði sem er samstarfsvettvangur þjóðþinganna.

Samstarfsráðherrarnir fara fyrir starfi Norrænu ráðherranefndarinnar og í samræmi við samninginn um norrænt samstarf, Helsingforssamninginn, aðstoða þeir forsætisráðherrana við samhæfingu norrænna málefna.

Norðurlandarráði er stýrt af forsætisnefnd sem er skipuð kjörnum þingmönnum frá öllum Norðurlöndum. Þingmenn Norðurlandaráðs ræða þau málefni sem efst eru á baugi og þróun norræns samstarfs við forsætisráðherrana einu sinni á ári á leiðtogafundi sem haldinn er í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

Norðurlönd – saman erum við öflugri

Norrænu samstarfsráðherrarnir lögðu fram sameiginlega framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf á fundi þann 6. febrúar 2014 Með yfirlýsingu um framtíðarsýn vildu þeir marka heildarstefnu fyrir norrænt samstarf.

Löndin okkar eru lítil, en við trúum því að við verðum sterkari með því að starfa saman. Og með öðrum. Það er framtíðarsýnin okkar – og norræna sjónarhornið okkar