2004 Kari Hotakainen, Finnland: Juoksuhaudantie

Um höfundinn
Kari Hotakainen er fæddur í Pori en fluttist til Helsinki árið 1986. Hann hefur starfað við blaðamennsku og auglýsingagerð en fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1982. Kari Hotakainen ákvað að helga sig alfarið ritstörfum árið 1996 og hlaut Finlandia-verðlaunin fyrir Skotgrafarveg árið 2002. Verk hans hafa verið þýdd á þýsku, tékknesku, slóvakísku, eistnesku, sænsku og íslensku.
Um vinningsverkið
Nafnið Skotgrafarvegur las höfundurinn á götuskilti í Pakila sem er úthverfi Helsinki. Húsnæðiskaup urðu kveikjan að skáldsögunni. Kari Hotakainen hafði þá skoðað hátt á fjórða tug húsa og sankað að sér fjölda sölubæklinga. Söguhetjan Matti Virtanen missti fjölskyldu sína eftir skilnað. Hann er óður einfari og hugsjónamaður og á enga samleið með nútímanum. Hann ekur um einbýlishúsahverfið með sjónauka um hálsinn rétt og hann sé í veiðiferð um grassléttur Afríku. Ömurlegum og snauðum smáborgarahætti nútímans er stungið undir smásjá. Deilt er á samfélag fasískra andreykingamanna og húseigenda sem virðast eyða öllu púðri í grasflötina sína. Sjálfsánægðir gæða þeir sér á glóðuðum kjötbitum og bægja frá sér öllu sem framandi er.
Juoksuhaudantie (Skotgrafarvegur)
Útgáfa: WSOY
Útgáfuár: 2002
Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar
Kari Hotakainen hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sem setur fram gagnrýni á samfélagið í meðvituðum stíl. Hún lýsir upplausn norræna velferðarsamfélagsins, skopgerir og gagnrýnir samtíma sinn og ekki síst hefðbundið kynjahlutverk karla.